Ég mæli með grein Atla Bollasonar í Lesbók dagsins í dag. Þar heldur Atli áfram að skilgreina og fjalla um tilvist, hlutverk - og hugsanleg endalok tónlistarstefnu sem oft er kennd við krútt.
Tónlistarstefnur eða ,,sjönrur" koma og fara og það hefur verið gaman að fylgjast með krúttunum. Mikið af þeirra tónlist hefur haft gríðarleg áhrif, ekki síst plata Sigur Rósar Ágætis byrjun sem í minningunni olli viðlíka straumhvörfum hjá mörgum jafnöldrum mínum og Achtung Baby U2 gerði í byrjun 10. áratugarins.
Þegar ég var hljómborðsleikari í Ensími undir lok síðustu aldar voru krúttin farin að gægjast fram. Sigur Rós var hljómsveit sem flestir báru mikla virðingu fyrir en á þeim tíma störfuðu þeir nær eingöngu ,,neðanjarðar" - áttu sauðtryggan en ákaflega lítinn aðdáendahóp. Síðan varð sprenging með Ágætis byrjun og fjölmargir tónlistarmenn fylgdu í kjölfarið.
Ein er sú breyting sem ekki margir hafa endilega varpað ljósi á. Það er sú staðreynd að með tónlist krúttanna féllu múrar milli klassískrar tónlistar og þeirrar dægurtónlistar sem ,,er í gangi" hverju sinni.
Á hljómsveitarárum mínum var ekki algengt að í rokk- og popphljómsveitum væri fólk með klassískan bakgrunn. Þetta voru tveir heimar, allsendis óskyldir og gott ef örlaði ekki á tortryggni á milli þeirra! Ekki þarf annað en að líta Amiinu, Ólafar Arnalds og miklu, miklu fleiri til að sjá að klassískur bakgrunnur er fín undirstaða fyrir annars konar tónlist. Þessu fagnaði ég ógurlega enda lengi talað fyrir því að klassísk tónlistarmenntun er því marki brennd að einangra sig. Án þess að hafa gert á því vísindalega könnun þá finnst mér sem þessi skil séu enn að dofna - og er það vel.
Hér undanskil ég faglega menntun jazzista - en það er vitanlega löng hefð fyrir því að sprenglærðir jazzistar séu vinsælir dægurtónlistarmenn af öllu tagi.
En þó ég stígi fast í minn klassíska fót, hafi spilað í poppskotinni rokkhljómsveit og orðið fyrir miklum áhrifum af tónlist Sigur Rósar - þá hef ég ekki í langa tíð orðið jafn uppnumin af íslenskri tónlistarsenu sem nú. FM Belfast, Sprengjuhöllin, Retro Stefson og Hjaltalín eru dæmi um ævintýralega ferskar og skemmtilegar hljómsveitir.
Einlæg, vönduð og umfram allt - skemmtileg tónlist.
Það er ekki verra að geta dansað við hana.
Óneitanlega saknaði kona þess dálítið á tónleikum krúttanna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli