Hér má lesa frétt þess efnis að Danir stefna á að börn með sértæka örðugleika stundi nám í almennum hverfisskólum. Danir hafa verið miklir eftirbátar okkar Íslendinga þegar kemur að þeim sjálfsögðu mannréttindum barna að stunda nám í sínum hverfisskóla. Íslendingar standa sig vel að þessu leyti en hér á landi stundar um 1% barna nám í sérskólum, í Danmörku eru þau á milli 2-3% og í Finnlandi eru þau á milli 5-7%.
Það sem stingur mig þó er að stefnubreytingin er í hagræðingar- og sparnaðarskyni - ekki á forsendum réttinda barnanna. Ég held að Danir séu hér á miklum villigötum því skólastefna sem byggir á því að skólinn sé án aðgreiningar er enginn sparnaður fyrir skólakerfið í aurum og krónum talið. Það þarf mikið átak, viðhorfsbreytingu og fjármagn til að gera hverfisskólum mögulegt að mæta börnum með ólíkar þarfir. Þetta eru stærstu áskoranir íslensks skólakerfis, hér eftir sem hingað til. Út í slíka breytingu verður ekki farið á forsendum fjármagns, heldur forsendum sjálfsagðra mannréttind. Þar þarf að koma til einbeittur vilji stjórnvalda til að breyta samfélaginu til hins betra og skapa lærdómssamfélag þar sem hver og einn fær að njóta sín.
Danir eru reyndar óþroskaðri en við í skólamálum að mörgu öðru leyti, t.a.m. í orðræðu. Ég var í Kaupmannahöfn í vor og kíkti gjarnan á danska sjónvarpið á kvöldin. Í einum fréttatímanum var viðtal við borgarpólitíkus um aðstæður barna sem höfðu villst út af hinum gullna meðalvegi. Og það var ekki verið að skafa utan af því. "Problem-börn" var yfirskrift fréttarinnar og stjórnmálamaðurinn notaði trekk í trekk þetta orð yfir hópinn sem átt var við.
Vandræðabörn. Það eru mörg ár síðan við þroskuðumst upp úr slíku orðfæri. Guði sé lof.
20 nóvember 2008
Skólar hér og í Danmörku
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Sæl Oddný,
Því miður er langt frá því að Danir standi okkar aftar þegar kemur að ummönnun barna með sérþarfir. Þetta þekki ég af eigin reynslu eftir að hafa búið í mörg ár bæði hér heima og í Danmörku með geðfatlaðan son minn.
Hér heima er alltaf krafist "þeirra sjálfsögðu mannréttinda" að börnin séu í hverfisskólanum. Það er hinsvegar langt því frá að nóg fjármagn fylgi þessum börnum. Fyrir vikið þurfa þessi börn að upplifa að engin sérfræðiþekking er til staðar og venjulegum kennurum er ætlað að ráða við 25 barna bekk OG þjóna börnunum með sérþarfir.
Í Danmörku hafa þeir bara vit á því að ekki er hægt að hafa sérþekkingu á öllu í hverjum einasta skóla.
Samanburður við Danmörku er alls ekki hagstæður fyrir Ísland í þessum málum.
Sæll Kári
Við getum ávallt gert betur eins og ég bendi á í færslu minni - okkar mikilvægustu verkefni er að styðja vel við börn með sérþarfir. En til þess að það gangi þarf stuðningurinn að fylgja með alla leið inn í skólastofuna.
Eftir að hafa skoðað marga skóla í Danmörku tel ég dýrmætt að halda til haga að viðhorfin hér á landi eru töluvert ólík þeim í Danmörku. Sá munur er okkur í hag.
Skrifa ummæli