Það er gríðarlegt áhyggjuefni hversu hátt brottfall er úr framhaldsskólum á Íslandi. Brottfallið hefur lengi loðað við framhaldsskólastigið en í ljósi efnahagsástandsins eru þessar tölur svartari en áður. Í skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar segir að ásamt fjármálakreppunni ógni brottfall úr framhaldsnámi framtíð íslenska vinnumarkaðarins.
Það segir sig sjálft því tvöfalt meira atvinnuleysi er meðal ófaglærðra en þeirra sem ljúka námi. Ástæður brottfallsins eru eflaust margar:
1) skipulag framhaldsskólans
2) mikil áhersla á bóklegt nám
3) lítil tenging við grunnskólann
4) Mikil vinnugleði fólks á aldrinum 16-25
5) Lítil virðing fyrir menntun?
Samkvæmt norrænum könnunum vinna íslensk ungmenni á þessum aldri mest allra með námi í öllum heiminum. Þetta breytist hratt þessa dagana og mikil hætta skapast í kjölfarið á því að ungir Íslendingar hætti námi vegna tekjumissis.
Ég var mjög ósátt við að kosningamál Samfylkingarinnar um ókeypis námsbækur fyrir framhaldsskólanema næði ekki inn í stjórnarsáttmálann. Jafnt aðgengi ungs fólks að menntun er forgangsmál hjá þjóð sem státar ekki af betri árangri í menntun þegna sinna en þetta. Ég vona sannarlega að stjórnvöld séu með aðgerðaráætlun á prjónunum til að sporna við brottfalli nú í vetur og þann næsta.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að sveitarfélögin eigi að reka framhaldsskólana, hið minnsta að rekstur þeirra og skipulag verði í nánu samstarfi við grunnskólann. Þar með næst samfella í menntun fólks frá 1-20 ára. Nýju grunnskólalögin kveða á um fræðsluskyldu til 18 ára aldurs sem leggur meiri ábyrgð á hendur hins opinbera - og ætti að herða stjórnvöld í baráttunni við brottfallið.
Sveitarfélögin sinna því sem stendur íbúunum næst; þjónustu við fjölskyldur, menntun, velferðarþjónustu, menningu, skipulagsmálum og samgöngum. Til þess að þau geti styrkt sig enn frekar verða þau að fá fleiri verkefni í fangið.
18 nóvember 2008
Svartar tölur
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Hvað með það sérstaklega að ungir drengir eru líklegri til að detta úr námi en stúlkur?
Kæri nafnlaus
Það er staðreynd sem veldur mér einnig miklum áhyggjum. Grunnskólinn hefur tekið sérstaklega á því með ýmsum hætti þó betur megi ef duga skal. Ég þekki ekki sérstaklega til átaksverkefna á vegum framhaldsskólans sem tengjast strákum og brottfalli en ímynda mér þó að þau séu til.
Kveðja, Oddný
Skrifa ummæli