26 ágúst 2008

Einmitt!

Ósköp var gaman að vakna upp við það að heyra borgarstjóra lýsa þeirri skoðun að nýja hugsun vanti í þjónustu frístundaheimila. Eða eins og hún sagði sjálf: ,,Hvernig samþættum við betur þjónustu skóla og frístundaheimila...?" og einnig ,,við stöndum frammi fyrir því að fá ekki fólk til þessara starfa (...) og þess vegna þurfum við kannski nýja hugsun ..."

Um þetta má lesa hér, hér, hér, hér og hér. Og hér (leiðari blaðsíðu 14). Tjarnarkvartettinn setti þessa góðu hugmynd á dagskrá í janúar síðastliðnum og gerði gott betur með því að mæla fyrir því í borgarstjórn (liður 2) og borgarráði (liður 32) á vordögum.

Á þessu hausti stefnir í að tæplega 3000 umsóknir fyrir börn í 1.-4. bekk skili sér inn til ÍTR. Það er jafn og þéttur stígandi ár frá ári og því löngu morgunljóst að það fyrirkomulag sem við búum við í dag er úr sér gengið.

Borgarstjóra er guðvelkomið að skreyta sig með þessum stolnu fjöðrum því að mínu mati er sama hvaðan gott kemur.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sammála! Versta við sjálfstæðismenn er að þeir reyna að troða einka- hinu og einka- þessu upp á skólakerfið mitt í öllum meiriháttar skólabreytingum. Það eru Hafnfirðingar búnir að brenna sig á.

Ég bið þig allra mála Oddný að standa nú vel vaktina því ef sjálfstæðismenn fá öllu ráðið þá mun stéttaskiptingin troða sér upp á grunnskólann eins og ógeðslegur vírus sem erfitt er að losna við.

Nafnlaus sagði...

Ein pæling... af hverju tókst ykkur í 100 daga meirihlutanum ekki að klára málið? var það kannski af því að meirihlutinn ykkar var óstarfhæfur og kom engu í verk...? fjaðralaus og ófleygur meirihluti sem hlaut að springa einn daginn...

Oddný er sagði...

Kæri nafnlaus. Mér þykir gaman að sjá hversu mikla trú þú hefur á 100 daga meirihlutanum en þér má vera ljóst að það tekur lengri tíma en 100 daga að ,,klára málið" þegar kemur að því að breyta fyrirkomulagi frístundastarfs hjá 3000 börnum í borginni. Og það gerir maður ekki á miðjum vetri!

Við nýttum tímann hins vegar vel og þróuðum hugmyndafræði í þessum anda fyrir þrjá nýja skóla í borginni. Þeim áætlunum var því miður slátrað í janúar þegar annar meirihluti tók við...

Nafnlaus sagði...

Þeir klára þetta ekki svo þið breytið þessu eftir tvö ár. Bara það eitt að Kjartan Magnússon skuli fyrst boða til fundar daginn sem frístundarheimilin byrjuðu sýnir áhugaleysi þeirra fyrir vandamálinu. Þetta var vel vitað í allt sumar en engin gerði neitt. Enda eru þau öll of upptekin af sætaskipan og byggingunum í kringum ráðhúsið. Í þeirra augum nær Reykjavík aðeins frá Vatnsmýrinni og upp að Hlemm.