25 apríl 2008

Tímamótatímamót

Um hádegisbil lagði Tjarnarkvartettinn fram tillögu í borgarráði sem markar á margan hátt tímamót. Hún hljóðar svo:

,,Borgarráð samþykki að fela sviðsstjórum Menntasviðs og ÍTR að hefja þegar í stað undirbúning að frekari samþættingu tómstunda- og skólastarfs í tilraunaskólum næsta haust. Horft verði til barna í 1.-3. bekk.

Með frekari samþættingu er átt við að frístundafræðingar, kennarar og annað starfsfólk skólanna vinni samsíða og skapi innihaldsríkan skóladag þar sem tómstundir og nám fléttast saman. Gengið verði út frá því að frístundafræðingar sinni 100% starfi og því verði ekki lengur um það að ræða að Frístundaheimilin starfi frá 14-17 heldur verði frístundastarfið hluti af skólastarfinu."

Þetta hljómar nógu sakleysislega en er slíkt lykilatriði í samfélagslegri þjónustu og ábyrgð gagnvart yngstu skólabörnunum að það hálfa væri nóg!

Hér eru nokkrir punktar sem vert er að halda á lofti í umræðunni:

Síðan ÍTR tók við rekstri frístundaheimilanna, eða allt frá árinu 2000, hafa ýmsir annmarkar staðið starfseminni fyrir þrifum. Mannekla, aðstöðumál og veik staða frístundastarfsins gagnvart hinu lögboðna skólastarfi eru meðal þeirra annmarka og ljóst er að stærri skref verður að taka í samþættingarátt eigi starfsemin að blómstra og þrífast innan veggja grunnskólans.

Það verður ekki hjá því litið að veruleiki íslenskra barna í yngstu bekkjum grunnskólans er sá að þau þurfa á samfélagslegri athygli að halda frá morgni þar til vinnudegi foreldranna lýkur.

Með því að gefa nokkrum skólum lausan tauminn hvað varðar viðmiðunarstundaskrá og tilraunir með sveigjanlega kjarasamninga væri hægt að þróa skóla sem byggja sína stundaskrá á því að nám og frístundastarf yngstu barnanna fléttist saman. Ótal möguleikar skapast við slíkt samstarf enda augljóst að nemendur með ólíkar þarfir, ekki síst krefjandi hegðun, njóta góðs af fjölbreyttri uppbyggingu skóladagsins þar sem frístundastarf fer jafnt fram á morgnana sem síðdegis. Eins má benda á möguleika þess að flétta saman frímínútur, útikennslu, íþróttir og list- og verkgreinakennslu við frístundastarfið.

Ekki þarf að fjölyrða um gagnsemi slíkrar samvinnu þegar kemur að aðstöðumálum frístundaheimilanna sem víðast hvar eru í ólestri. Húsnæðið nýtist margfalt betur ef aðgreining skóla- og frístundastarfs heyrir sögunni til.

Mannekla sú sem hefur fylgt starfsemi frístundaheimilanna um alllangt skeið tengist ekki síst óhagstæðum vinnutíma. Með samþættingu og samstarfi væri hægt að ráða frístundafræðinga í 100% starf.

Einsýnt er að aukin samvinna milli ÍTR og Menntasviðs létti á starfsmannavanda skólanna þar sem öflugir frístundafræðingar geta í auknum mæli komið að námi í t.a.m. lífsleikni. Möguleikarnir eru óþrjótandi.

Að öllum líkindum er þess ekki langt að bíða að e.k. lögbinding frístundastarfs sé á næsta leyti, svo mikilvægt starf er hér á ferð. Um það var fjallað í 24 stundum á miðvikudaginn en það dagblað á hrós skilið fyrir að sýna þessu máli mikinn áhuga. Enda hefur þróunin síðustu ár verið á þann veg að tómstunda- og frístundafræði eru á háskólastigi og mikil ásókn hefur verið í það metnaðarfulla nám undanfarin misseri.

Því ætti Reykjavíkurborg að hafa hugrekki til að hefja strax næsta haust tilraunir í þessa veru. Það er ákall foreldra að yngstu börn þeirra njóti innihaldsríkrar kennslu og frístundastarfs frá upphafi skóladagsins til loka vinnudags – innan sömu veggjanna og á ábyrgð samhents starfsfólks sem lítur á börnin sem sína sameign.

Meirihluti borgarráðs frestaði tillögunni en málið er komið á dagskrá.
Til allrar hamingju.

Engin ummæli: