30 apríl 2008

Hvað er mikilvægara?

Ég hef áhyggjur af metnaðarleysi meirihluta borgarstjórnar í jafnréttismálum, innflytjendamálum, málefnum fatlaðra og aldraðra. Fyrir tveimur árum var samþykkt samhljóða í borgarstjórn, af fulltrúum allra flokka, ákaflega metnaðarfull mannréttindastefna. Hún hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana og það var hugur í borgarfulltrúum Reykjavíkurlista að viðhalda frumkvæði Reykjavíkurborgar í jafnréttis- og innflytjendamálum.

Að mótun stefnunnar komu öll þau hagsmunasamtök sem berjast fyrir réttindum fólks í samfélaginu sem oft hallar á. Þau hagsmunasamtök hafa eðlilega miklar áhyggjur af stöðu mála hjá Reykjavíkurborg - mannréttindastjóri farinn, enginn metnaður, nýtt fólk er ekki ráðið til starfa og því miður verð ég að segja að þekking nýs meirihluta á mikilvægi þess að SAMÞÆTTA VIRKA MANNRÉTTINDASTEFNU öllum sviðum borgarinnar er lítil. Lítil sem engin.

Reykjavík hefur staðið í fararbroddi undanfarin ár í jafnréttismálum. Hvernig? Jú, með því að flétta jafnréttismálin saman við alla málaflokka, færa stjórn jafnréttismála upp við hliðina á borgarstjóranum í skipuritinu, vera meðvituð um að hvert skref sem jafn risavaxið stjórnvald sem Reykjavíkurborg er tekur - sé skref í átt til jafnréttis.

Með mannréttindastefnunni var tekið það hugrakka skref að dýpka jafnréttishugtakið. Því var fléttað saman við ábyrgð borgarinnar sem atvinnurekenda og veitenda þjónustu, því var fléttað saman við hagsmuni aldraðra, fatlaðra, innflytjenda.

Þesi þróun hefur átt sér stað erlendis og það er grátlegt að sjá áratuga vinnu, orðstír og frábært starf seytla í burtu í metnaðarlausum höndum meirihlutans í borgarstjórn. Það heitir að spara eyrinn en kasta krónunni.

Borgarstjóri talar um að stórsókn hundraðdagameirihlutans í mannréttindamálum hafi verið viðleitni til að belgja út báknið. Við erum hér að tala um þrjú stöðugildi sem myndu styrkja við og efla það frábæra starf sem á sér stað úti á hverju einasta sviði í þágu fjölbreytts mannlífs borgarinnar. Þrjú stöðugildi.

Af hverju í ósköpunum samþykktu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins metnaðarfulla mannréttindastefnu vorið 2006 ef þeir meintu ekkert með henni?

Hvað getur verið mikilvægara en að efla málaflokk sem kemur við jafnan rétt kvenna og karla, fatlaðra og ófatlaðra, ungra og gamallra, innfæddra og aðfluttra?

Hvar er metnaðurinn?!

Engin ummæli: