Ég sat fagnaðarfund í Ráðhúsinu í dag (ekki borgarstjórnarfund þó...) þar sem glaðst var yfir nýsamþykktum jafnréttislögum. Þar stigu valinkunnar konur og einn Mörður á stokk og margt var tekið fyrir. Meðal annars staðsetning Jafnréttisstofu, sem með nýju lögunum fær sterkari heimildir til aðgerða, en Jafnréttisstofa er á Akureyri. Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra stofunnar, þurfti einmitt að rjúka úr pallborðinu áður en yfir lauk til að ná flugi. Sú ótímabæra brottför varð kveikjan að fyrirspurnum og umræðu um staðsetningu Jafnréttisstofu.
Kristín Ástgeirsdóttir rakti sögu jafnréttislaganna - fyrir hverju hefur verið barist, tregðulögmálin, hvað hefur einkennt lögin hverju sinni og hvernig Samtök Atvinnulífsins, áður VSÍ, hafa ávallt barist eins og ljón gegn ýmsum ákvæðum laganna.
Það var Hannibal gamli sem fyrst talaði fyrir lögum um jafna stöðu kynjanna. Hann var þá forseti ASÍ og eðlilega í miklum tengslum við láglaunakonur á þeim tíma.
Valgerður B. Eggertsdóttir var með flott innlegg. Hún talaði um smáu hlutina - sem þó skipta svo miklu máli. Eins og B-ið í nafninu hennar sem stendur fyrir Bergþórudóttir. Þegar Valgerður var menntaskólamær skokkaði hún á skrifstofu Þjóðskrár og vildi fá eftirnafnið Bergþórudóttir skráð jafnhliða föðurnafni sínu. Það samrýmdist ekki reglum þjóðskrárinnar - var of langt. Henni var boðið að stytta á alla mögulega kanta, t.a.m. Eggertsd. og Bergþórud. og jafnvel skírnarnafnið - ,,Valg."
Sem óneitanlega kemur spánskt fyrir sjónir!
Hvorki gekk né rak og á endanum þurfti hún að sætta sig við að mamman yrði skammstöfuð.
Stóru málin snúa að launum hefðbundinna kvennastétta, afnámi launaleyndar, þátttöku kvenna á öllum sviðum þjóðlífsins og þá sérstaklega þar sem ráðum er ráðið. Þar sem kjötkatlarnir eru heitastir.
Ekki síður fer að verða ákaflega áríðandi að skoða vinnuálag ungra kvenna með lítil börn, allt of stutt fæðingarorlof, mikla atvinnuþátttöku og fjölda barna per konu. Allt þetta þarf að skoða í samhengi og færa inn á hið pólitíska svið.
Hversdagsleg tilvera íslenskra kvenna á barneignaraldri er þrungin álagi, oft sektarkennd, tvöfaldri vinnuskyldu og gríðarlegum kröfum sem nútímakonan á bágt með að mæta. Íslensku ,,ofurkonuna" kannast ég ágætlega við, sé henni stundum bregða fyrir í speglinum á morgnana. En ég er ekki alltaf viss um að hún sé á réttri leið.
15 apríl 2008
Skammstafaðar mömmur og íslenska ofurkonan
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli