Umræðan um Fríkirkjuveg 11 er um margt sniðug. Eigendur hússins hafa mikinn áhuga á því að eiga við Hallargarðinn og breyta ýmsu bakatil, þ.e.a.s. á litla fótboltavellinum í undurfallegu hestagerði austan við húsið.
Ég var hlynnt sölu hússins á sínum tíma en Samfylking hefur alltaf sagt að garðinn og nánasta umhverfi hússins ætti að umgangast af mikilli virðingu og skerða á engan hátt aðgengi íbúa að garðinum. Enda var gengið út frá því þegar salan átti sér stað að eingöngu húsið væri til sölu. Ekki garðurinn.
Eigendur hafa síðar í ferlinu fært sig upp á skaftið og mótað ýmsar hugmyndir, til dæmis um ,,viðhafnaraðkomu fyrir tigna gesti", sem er eitt kómískasta fyrirbæri sem ég hef heyrt um í langan tíma. Viðhafnaraðkoman er e.k. vegur frá Fríkirkjuveginum, í gegnum Hallargarðinn og upp að húsinu. Um það bil 30 metrar. Enda hræðilegt fyrir tigna gesti að þurfa jafnvel að takast á við þá löngu göngu á sínum tveimur jafnfljótu. Í öllum veðrum.
Vegagerð í Hallargarðinum hljómar afar, afar illa í mínum eyrum. Í umræðum hér á borgarstjórnarfundi kom Björk mín Vilhelmsdóttir með snjalla athugasemd. Tignir gestir munu miklu frekar láta heillast af þeim sjarmerandi þrönga stíg sem liggur meðfram hestagerðinu austan við Fríkirkjuveg 11 - og niður að húsinu. Þar er andblær gömlu Reykjavíkur; sjarmerandi, einstakur og upprunalegur.
En leiðinlegast af öllu er þó að borgarstjóri gat alls ekki svarað okkur því hvort leikvöllurinn bakvið Fríkirkjuveg 11 eigi að fara eða vera. Sá undurfallegi fótboltavöllur sem hvílir í grófinni milli F-11 og Skemmtihússins er mikið nýttur af börnum hverfisins. Á þessu svæði er ósköp lítið um leiksvæði. Ég þekki tvo tápmikla og fjöruga drengi á Laufásvegi sem leika sér oft á vellinum og þeir segja mér að þar sé oft fjör og fjölmenni.
Nú hafa afkomendur Thor Jensen keypt Fríkirkjuveg 11 og það fer ágætlega á því. Þeir hafa metnaðarfullar hugmyndir um varðveislu hússins og munu hugsa vel um það. Þeir vilja opna sögusafn í húsinu til minningar um Thor Jensen og það fer vel á því að opna hluta hússins almenningi svo við fáum áfram notið þess.
En hallargarðarins hafa borgarbúar notið í aldanna rás og svo verður að vera áfram. Leikvöllinn verður að vernda og hestagerðið ætti að friða eins og skot og ekki hrófla við þeim augasteini í hjarta borgarinnar.
Skondið er þó að hugsa til þess að fermetraverð hins glæsilega húss að Fríkirkjuvegi 11 var lægra en húsanna að Laugavegi 4 og 6.
15 apríl 2008
,,Viðhafnaraðkoman"
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli