Það fór hreinlega um mig hrollur þegar ég heyrði borgarstjórann okkar lýsa því yfir í kvöldfréttum í kvöld að ,,miðborgin væri beinlínis hættuleg". Eru því engin takmörk hvað tveir borgarstjórar - Ólafur F. og Vilhjálmur Þ. - geta fengið af sér að tala miðborgina okkar mikið niður í dómsdagsstíl?
Er þetta það sem verslunareigendur þurfa núna á að halda? Að borgarbúar þori ekki niður í bæ? Er þetta rétta leiðin til að snúa vörn í sókn? Er það þetta sem fasteignaeigendur í 101 þurfa á að halda?
Það hefur alltaf verið utangarðsfólk og fólk í annarlegu ástandi í miðborg Reykjavíkur. Síðan ég man eftir mér. En við skúrum það ekki í burtu eins og veggjakrot. Við losum okkur ekki við það með öryggismyndavélum. Við sjáum til þess að það séu til úrræði fyrir þau, að þau fari sér ekki að voða og að þau brjóti ekki lögin. Við hvetjum þau að sjálfsögðu til að snúa blaðinu við. Allt eru þetta velferðarmál - sem lítið fór fyrir af fréttamannafundinum í dag þar sem borgarstjóri sagði miðborgina vera hættulega.
En það er fólk í annarlegu ástandi út um alla borg - um daginn réðust nokkrir menn inn í íbúð í Breiðholti og lömdu þar mann og annan. Hverju eigum við von á næst þegar slíkur atburður á sér stað? Að borgarstjóri birtist þungbúinn í fréttum og segi:
Breiðholtið er beinlínis hættulegt.
Svona talar maður ekki. Borgarstjóri á að vera manneskja sem talar traustinu í fólk. Stendur með miðbænum sínum, Breiðholtinu sínu, stappar í fólk stálinu, grípur til aðgerða, talar styrkri röddu um sýnilega löggæslu og hvetur fólk til að standa saman.
Að hræða úr fólki líftóruna og dekkja enn frekar myndina af miðborginni er svo óábyrgt að það tekur engu tali.
Það er nefnilega til nokkuð sem heitir öryggistilfinning - og hún skiptir gríðarlega miklu máli á litríkum svæðum þar sem íbúar, kaffihús, verslanir, barir, menningarhús koma saman. Svæði sem byggja allt sitt á því að fjöldinn - íbúar annarra hverfa og sveitarfélaga - vilji sækja þangað.
Það tekur langan tíma að byggja upp tilfinningu fyrir öryggi - og veggjakrot, fegrun og hreinsun skipta miklu máli í því samhengi. En það tekur örstuttan tíma að rústa öryggistilfinningu. Sérstaklega ef hæst setta manneskja borgarinnar fer þar fremst í flokki.
Ég er reið fyrir hönd miðborgarinnar, hverfisins sem ég hef búið í í 12 ár, og þekki eins og handarbakið á mér.
Þar hef ég aldrei fundið til hræðslu.
Þangað til í kvöld - þegar ég hlustaði á borgarstjórann okkar í fréttunum.
03 apríl 2008
Borgarstjórinn okkar
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Satt best að segja finnst mér þetta léleg tilraun hjá þér Oddný. Sem íbúi á Laugarvegi veit ég nákvæmlega hvernig ástandið er hér í kring og tek ég því heilshugar undir orð Ólafs. Afhverju má ekki segja hlutina eins og þeir eru? Er það ekki jafn óábyrgt af Þér að tala um það að miðbærinn sé ekki hættulegur? Öryggistilfinning er eitt og fölsk öryggistilfinning er annað. Hvort viltu?
Fínn pistill Oddný. Það er með ólíkindum hvernig Vilhjálmur og Ólafur hafa leyft sér að tala um miðborgina. Mætti ætla að þeir væru á mála hjá bröskurum og Kringlueigendum. Það sem þeir hafa uppúr svona gaspri er að fækka viðskiptavinum verslana í miðbænum. Hreinlega hræða fólk frá miðbænum. Þá fyrst er slömmvæðingin fullkomin þegar verslanirnar gefast upp.
Sammála fyrsta ræðumanni. Ég var búsett á Laugavegi í fjölda ára og hrökklaðist þaðan nú fyrir áramót þegar það var varla búandi þar fyrir ælandi fyllibyttum og sprautufíklum.
Skrifa ummæli