30 apríl 2008

Hendum vigtinni og fögnum fjölbreytileikanum

6. maí er merkilegur dagur sem helgaður er baráttunni fyrir sjálfsvirðingu og fjölbreytileika. MEGRUNARLAUSI DAGURINN eða The International No-Diet Day hefur verið haldinn hátíðlegur síðan 1992 og á Íslandi er kyndilberi hans Sigrún Daníelsdóttir - sálfræðingur á Barna og unglingageðdeild.

Sigrúnu hef ég fylgst með lengi og ég dáist innilega að baráttu hennar. Í ár verður Megrunarlausi dagurinn haldinn hátíðlegur í þriðja skiptið og í hvert skiptið verð ég opinmynntari og meira undrandi á þeim ævintýralegu fordómum sem búa innra með mér, þér og okkur öllum í garð þeirra sem eru ekki mjóir, grannir, flottir og spengilegir.

Heilsa óháð holdafari. Hvað er nú það? Af hverju fáum við ekki sting í magann og finnum fyrir vott af viðbjóði þegar við sjáum ungt (en grannt) fólk reykja? Af hverju hugsum við ekki - þú brjálaði einstaklingur með enga sjálfstjórn, veistu hvað þú ert að gera heilsu þinni með þessu!

Af hverju hellast fordómarnir yfir okkur þegar við sjáum feitlagin börn, feitar konur, feita karla? Þá hugsum við einmitt: Þú brjálaði einstaklingur með enga sjálfstjórn, þú baggi á samfélaginu, þú óhamingjusami, óheppni og heilsulausi einstaklingur.

Ég man að ég gapti þegar Sigrún Daníelsdóttir var fyrst að kynna mér þennan málstað. Því takið eftir: Okkur hefur verið talin trú um að grannur vöxtur sé forsenda heilbrigðis. Því hefur verið haldið fram að ekki sé hægt að vera heilbrigður ef viðkomandi er yfir ákveðinni þyngd.

Það er vont að vera í vondu formi - fyrir feita og granna. Rannsóknir sýna hins vegar að langlífasta fólkið er yfir skilgreindri kjörþyngd. Hah!

Áróðurinn gegn feitu fólki er alls staðar. Hann býr innra með okkur, ekki þarf að nefna auglýsingaefni með tággrönnu fólki alls staðar, athugasemdir, baktal og einhvers konar heilagur sannleikur um það að við mættum öll ,,missa nokkur kíló".

Ég þekki ótal konur, flottar konur með mjaðmir og mitti og dásamlegan barm og heillandi framkomu - en þeim finnst eins og þær ættu AÐ VERA ÖÐRUVÍSI. Þær fæddust þó í sínum líkama, þær verða líklega alltaf eins og þær eru, en viti menn - um leið og þeim tekst með ærnum tilkostnaði, blóði, svita og tárum að missa 1-3 kíló þá byrjar kórinn:

,,Mikið ofboðslega líturðu vel út!!!!"

Hættum þessu - í eitt skipti fyrir öll. Hættum að biðjast afsökunar á þyngd okkar.

Sjúkdómar tengdir átröskun, álag tengt lágu sjálfsmati vegna dóma samfélagsins, tilfinningalegir erfiðleikar vegna þess að samfélagið (við, ég og þú) dæmir þá sem ekki eru grannir - eru margfalt alvarlegra samfélagsmein en... líkami fólks
- fólks sem er fjölbreytilegt, fólks sem er alls konar í laginu og hefur allan heimsins rétt til að vera þannig um alla tíð.

Stay tuned...
Hér er að finna marga gagnlega tengla

Eins mæli ég með þætti Kolfinnu og Ásdísar á ÍNN þann 2. maí - klukkan 20.
Þar mun Sigrún Daníelsdóttir fara í gegnum markmið Megrunarlausa dagsins ásamt Katrínu Önnu femínista og Björku Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa.

Engin ummæli: