Óánægjubylgja barst um borgarsamfélagið í vikunni vegna undarlegrar ákvörðunar valdhafa í Reykjavíkurborg að hætta við aukafjárveitingu til sumarstarfs fatlaðra barna á aldrinum 10-16 ára. Landssamtökin Þroskahjálp, hagsmunafélag foreldra barna með fötlun, ályktaði gegn ákvörðuninni og við fulltrúar minnihlutans í ÍTR vorum steinhissa á skyndilegri breytingu á tillögu sem var samþykkt í febrúar.
Það lýsir sérkennilega gamaldags viðhorfi að skera niður í þjónustu við börn með fötlun - kannski hugsunarleysi? Kannski erum við orðin svo vön því að foreldrar og fjölskyldur barna með fötlun hafa sífellt þurft að berjast fyrir sínu, aftur og aftur, sýnkt og heilagt? Ég vona ekki.
En nú er búið að tryggja fjármagn til frístundaklúbbanna - borgarráð var rétt í þessu að samþykkja tillögu þess efnis að áeggjan minnihlutans. Starfsemi fyrir fötluð börn er tryggð næsta sumar. Annars er mér að mæta.
Að mínu mati ættu börn með fötlun að hafa forgang í sumarstarfi. Ég þekki það vel sjálf, eftir fimm sumra reynslu af leikja- og ævintýranámskeiðum í Árseli, hvað börn með fötlun nutu sín vel í frábæru starfi ÍTR. Mér dettur oft í hug lagið ,,Ain´t no mountain high enough" þegar ég rifja upp ýmis atvik þar sem hellaskoðun, klettasig, útilegur og hefðbundnir leikir innan borgarlandsins voru á dagskrá - og það var aldrei í boði að láta börn með líkamlega fötlun sitja og horfa á. Starfsmennirnir einfaldlega settu þau á bakið og báru yfir lækinn, inn um hellismunnann og upp á fjallið!
Ég man sérstaklega eftir Frikka sem var með okkur í Árseli ár eftir ár. Kári bróðir minn var hans fylgisveinn og þurfti oft að bera Frikka, stóran og stæðilegan strák, upp og niður þrönga stíga í útilegum, upp á svefnloft og yfir læki. Á endanum urðu Kári og Frikki eins og gömul hjón, mestu mátar og það var alltaf mesta stuðið hjá þeim.
Enda héldu þeir tengslum í mörg ár eftir að leikja- og ævintýranámskeiðunum sleppti.
Samfélag án aðgreiningar byggir á þeirri hugsun að það eigi ekki að stefna að því að hafa sér-skóla, sér-frístundaklúbba, sér-námskeið fyrir fötluð börn. Börn með fötlun eru börn eins og önnur börn og eiga í lengstu lög að stunda nám, tómstundir og leiki með öðrum börnum. Góðir sérskólar eru þó nauðsynlegir því ekki hentar það sama öllum börnum og góður sérskóli gegnir líka mikilvægu hlutverki þekkingarmiðstöðvar.
En grunnskólinn og tómstundastarfið á að vera fyrir öll börn.
10 apríl 2008
Réttlætinu náð
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli