22 apríl 2008

Hver á börnin?

Skýrslan sem 24 stundir segja frá í dag er svört. Húsnæðismál frístundaheimilanna eru ekki í góðum farvegi. Nýir skólar gera ráð fyrir starfseminni en eldri skólar hafa þurft að grípa til ýmissa ráða til að koma starfseminni fyrir.

Frístundaheimilin voru svar við kalli tímans enda langflestir foreldrar sem vinna lengur en til klukkan 14 á daginn þegar skólinn er búinn.

Framtíðarsýnin mín er ósköp einföld. Fá frístundafræðingana frá ÍTR til að koma inn í skólana og vinna samsíða kennurunum og öðru starfsfólki skólanna. Hætta þessari aðgreiningu skólastarfs (frá 8-14) og svo frístundastarfs (frá 14-17). Skipuleggja skóladaginn út frá þörfum barnanna sem sum hver þurfa að hreyfa sig meira en önnur, þurfa á því að halda að skóladagurinn sé brotinn upp með tómstundastarfi.

Í dag er staðan þannig að frístundaheimilin standa á flestum stöðum tóm á meðan skólastarf er í gangi - og omvendt. Með samþættingunni nýtum við húsnæðið mun betur, við nýtum mannauðinn betur og munum ekki eiga í neinum vandræðum með að manna 100% stöður í hverjum skóla með frístundafræðingum. Í dag er mikil mannekla í frístundaheimilum og ég spyr: er það skrýtið? Það eru ekki margir að leita sér að vinnu frá 14-17.

,,Fridtidspedagok" er í örum vexti á Íslandi, KHÍ og HÍ kenna frístundafræði og ég get ekki beðið eftir að fá það starfsfólk í auknum mæli inn í skólana. Ég veit að þeir munu hafa jákvæð áhrif á skólastarfið, skólabraginn og foreldrarnir vilja sannarlega sjá meiri samvinnu þess starfsfólks sem ber sameiginlega ábyrgð á börnunum þeirra.

Það er með þetta eins og með svo margt annað: Ef fullorðna fólkið er tilbúið til að hætta karpinu og núningnum um fermetra, vinnutímaskilgreiningar, skipulag stundaskrár og eignarhald á húsnæði - og setur hagsmuni og vellíðan barnanna í fyrsta sæti - þá gengur allt svo miklu betur.

Því þegar öllu er á botninn hvolft þá eigum við börnin saman.

Við eigum börnin saman. Foreldrar, kennarar, frístundafræðingar, þjálfarar. Við getum öll lært mikið hvert af öðru og með það að leiðarljósi skipulagði meirihluti menntaráðs í hundraðdagameirihlutanum skólastarfið í nýju grunnskólunum í Úlfarsárdal. Engin aðgreining milli náms og sköpunar, kennslu og frístunda.

Við gætum meira að segja byrjað strax í haust með tilraunaverkefni í nokkrum skólum. Ef áhugi væri fyrir því hjá meirihluta dagsins í dag.

Ég er gamalt Árselsbarn, alin upp í tómstundastarfi og unglingalýðræði hjá Vöndu Sigurgeirsdóttur sem nú er lektor í KHÍ í tómstundafræðum. Ég hef tröllatrú á gildi tómstundastarfs fyrir börn og unglinga - og að aðgreiningar er ekki þörf milli skólastarfs og tómstunda. Við eigum nefnilega börnin saman.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hljòmar rètt og skynsamlegt ì mìnum eyrum.

Kvedja

Jòhann

Nafnlaus sagði...

Athyglisverð hugmynd hjá þér Oddný.

Framtíð íslenskra kvenna er ekki áhyggjuefni þar sem þær eru á uppleið á öllum sviðum. Ég hef hins vegar nokkrar áhyggjur af körlunum. Rannsóknir sína að þeim gengur verr en stelpum í skóla, að því er virðist frá fyrsta degi og lægra hlutfall þeirra en kvenna klárar háskólapróf.

Það er krökkum, og þá sérstakleg strákum, ekki eðlilegt að sitja á rassinum í skólastofu í 6 klst. á dag. Þessi hugmynd þín að brjóta upp hinn venjubundna skóladag með fjölbreyttara og hugsanlega meira líkamlega krefjandi starfi gæti verið skref í rétta átt gagnvart framtíð strákanna okkar.