25 apríl 2008

Barflugur

Bráðum lítur ljósmyndabókin BARFLIES dagsins ljós. Hún inniheldur portrettmyndir Snorranna tveggja sem lituðu miðbæ Reykjavíkur sterkum litum á síðustu öld. Lítil (bar)fluga hvíslaði því að mér að útgáfupartýinu yrði fundinn staður á Kaffibarnum. Kæmi þar vel á vonda því Barflugurnar á myndunum eru jú bundnar órjúfanlegum böndum við þann ágæta bar. Sem síðar var gerð góð skil í ágætri bók sem nefnist 101 Reykjavík.

En það er nú önnur saga.

Svo skemmtilega vildi til að þegar Einar Snorri, annar Snorranna, flutti heim frá NY - hvar þeir Snorrar höfðu komið ár sinni vel fyrir borð með listsköpun - tók hinn Snorrinn, Eiður Snorri, að vinna með Snorra Sturlusyni bróður mínum. Snorrarnir héldu því áfram að vera Snorribros og jú gott ef hún Snorrabúð stekkur ekki jafn fimlega og hún gerði með hinum Snorranum.

(Ef einhver er orðinn ringlaður við lesninguna þá lái ég honum ekki).

Nema hvað. Það er vel hægt að skemmta sér yfir portrett myndunum og rifja upp gamla tíma með því að smella hér. (veljið PHOTO á upphafssíðunni og svo BARFLIES).

Þarna má sjá Björk og fleiri góða spámenn. Og bróður minn nokkuð hárfagran (nr. 61) og spúsa hennar Bryndísar Ísfold vinkonu minnar (nr. 67).

Og þá að lestri tilkynninga: Í dag er dagur umhverfisins og jafnframt afmælisdagur 12 tóna. Sumarið gengið í garð og Styrmir að hætta á Mogganum. Til hamingju með og njótið vel.

Engin ummæli: