Ég tel mig ala börn mín upp í jafnréttissinnuðum anda.
(Ég ætla að umorða þessa setningu því fyrirmyndir skipta jú meira máli en falleg markmið);
Setningin hljóðar svo:
Það ríkir jafnrétti á mínu heimili og því fá börnin mín að sjá foreldra sína í alls kyns hlutverkum og störfum, með tusku í hönd sem og í Silfri Egils að ræða búfjársamninga.
Engu að síður hallar töluvert á mig. Og hér er saga til að styðja þann barlóm minn.
Dóttir mín þriggja ára er í eilífum hlutverkaleik - tímunum saman. Þar kallast á börn og fullorðnir, vinir, álfar og risaeðlur. Hún er barn, hún er foreldri, hún er stóra systir og hún er freka frænkan. En alltaf - ALLTAF - þegar hún bregður sér í hlutverk umhyggjusama foreldrisins og nostrar við bangsa, dúkkur, lítil börn og dýr er foreldrið PABBI. Þegar ég spyr hana hvar mamman sé er svarið stutt og laggott; Hún er á fundi.
Ég strengdi því þess heit að vera ofurmóðir í sumarfríinu. Svaraði nær engum tölvupóstum, gleymdi að hlaða símann minn svo dögum skipti, tók mér bæði bloggfrí og Fésbókarfrí (sem var svínslega erfitt) og var, þó ég segi sjálf frá, lygilega gefandi og góð móðir. Undir lok frísins sögðum við skilið við fjölskylduföðurinn og hann hélt til vinnu. Ég eyddi síðustu vikunni ein með börnunum og við nýttum tímann vel til að heimsækja ömmur og afa í sumarbústaði víðs vegar um suðurlandsundirlendið. Ég og börnin, ég við stýrið og þau aftur í.
Við komuna í bæinn hentist heimasætan inní herbergi og þóttist himin höndum hafa tekið. Allt dótið sem hún hafði ekki séð svo vikum skipti var dregið fram á gólf og hlutverkaleikurinn fór af stað. Einstaka sinnum varð rof á leik og hún kom hlaupandi til mín í leit að hjálp og í eitt skiptið var það óþægilega þröngur Playmóbíll sem hún þurfti hjálp við að festa bílstjórann í.
Hún rétti mér bílinn og Playmó-manneskjuna og ég myndast við að festa hana í bílstjórasætið. Hún rekur upp ramakvein í hneykslunartón og segir: Nei, hinu megin!
-Nú, í farþegasætinu? Spyr ég.
-Já auðvitað, þetta er mamman!
Móðurhlutverkið getur verið svo dásamlega gefandi...
Þessi sena minnir mig á hugleiðingu Kate Reddy, aðalpersónu bókar sem ég þýddi fyrir nokkrum árum og ber nafnið Móðir í hjáverkum. Hún upplifði hið sama með dóttur sína og komst þá nokkurn veginn svona að orði:
Children never remember the times you´re with them - only the times when you´re away.
Það er nokkuð til í því.
2 ummæli:
Ég sé um allar viðgerðir á mínu heimili, hvort sem það er að negla, bora, mála eða bara að skipta um peru. Ég á verkfæratöskuna og borvélina sem er geymd inní búri en ekki í bílskúrnum.
Þegar Kristín mín var lítil sagði hún mér sögu um fjölskyldu. Pabbinn var alltaf að laga eitthvað. Ég kváði og spurði "afhverju gerir mamman ekki við eins og hjá okkur?" Svarið var mjög afdráttarlaust og ógleymanlegt fyrir mig. Pabbar gera svona!
hæ ég heiti Guðlaug.fyrir hverjan aldur er þetta og sendir maður mynd og þú hermir? og hvað kostar þetta?
Kveðja.Guðlaug
p.s bý á akranesi
Skrifa ummæli