15 ágúst 2008

Marsibil - sagan endurtekur sig.

Það var ýmislegt sem fór í gegnum huga minn í janúar þegar Ólafur F. Magnússon og Sjálfstæðisflokkurinn mynduðu meirihluta. Það sem mér blöskraði þó mest var framkoma Ólafs - og Sjálfstæðisflokksins - við Margréti Sverrisdóttur og Guðrúnu Ásmundsdóttur. Margrét hafði að mestu séð um málefni F-listans í borgarstjórn vegna veikinda Ólafs. Margrét og Guðrún áttu ekki lítinn þátt í 10% fylgi F-listans í kosningunum 2006 enda fara þar heiðarlegar, skapandi og réttsýnar manneskjur sem gott er að vinna með.

Þá skildist manni að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið miður sín yfir því að Margréti og Guðrúnu vantaði í hópinn og eðlilega kviðu borgarfulltrúar því að Ólafur F. Magnússon mætti svo til einn í nýja samstarfið - án síns varamanns, enginn til að manna formennsku í ráðum og nefndum.

Margrét og Guðrún voru sigurvegarar gærdagsins, ósköp sem ég held að þær hafi verið glaðar að hafa ekki tekið þátt í myndun meirihlutans í janúar!

En lítið hefur fólk lært. Í annað skipti gengur karlmaður í oddvitasæti freklega framhjá kvenkyns varamanni sínum, manneskju númer tvö á lista. Marsibil hafði sannarlega gert honum grein fyrir því að hún ætlaði ekki að kasta björgunarhring til Sjálfstæðismanna, hún ætlaði ekki að styðja nýja meirihlutann. Samt lýgur Óskar því blákalt að fjölmiðlum að samskipti þeirra hefðu verið með öðrum hætti - hann ætti eftir að ,,kynna málið betur fyrir henni". En hann var sannarlega oft búinn að ráðfæra sig við ,,þungaviktarMENN" í Framsóknarflokknum. En gleymdi óvart sínum helsta samstarfsmanni, Marsibil Jónu Sæmundardóttur.

Ég er stolt af Marsibil. Hún hefur fína reynslu í borgarmálunum, hefur verið varaborgarfulltrúi í sex ár og farið með formennsku í ráðum. En hún treystir sér ekki í þetta samstarf og stendur með sjálfri sér.

Það er gaman að velta því fyrir sér hvort þetta yfirgengilega virðingarleysi hefði átt sér stað ef varamenn Ólafs F og Óskars Bergssonar hefðu verið karlkyns. Ég efast um það.

En stóra spurningin er: Af hverju lét Hanna Birna þetta gerast í tvígang, eftir að hafa brennt sig á því einu sinni?

Næsta manneskja á eftir Marsibil á lista er Ásrún Kristjánsdóttir. Hún er hætt í Framsókn.

5 ummæli:

Unknown sagði...

Nákvæmlega það sem ég hugsaði.
Þessir karlar virðast halda að það þurfi ekkert að taka mark á konunum í sætunum á eftir þeim.

Nafnlaus sagði...

Marsibil var ekki önnur manneskja á lista Framsóknar. Í prófkjöri var hún í 4. sæti, á eftir Óskari sem var í 3. sæti.

Það má því segja að Sjálfstæðismenn séu þarna að leiða til öndvegis mann sem hefur jafnvel ennþá minna fylgi en Óli F. (sem hafði þó þessi 6000 atkvæði á bak við sig)

Nafnlaus sagði...

kórrétt, við megum ekki gleyma Önnu Kristinsdóttur sem lenti í 2. sæti í prófkjörinu en ákvað að taka ekki sætið þar sem hún taldi sig standa fyrir annað en forystan.

Það kæmi mér ekki á óvart að Marsibil stæði uppi sem sigurvegarinn í þessu máli, ég stórefa að þetta verði flokknum til framdráttar.

Nafnlaus sagði...

Marsibil fer í fýlu eins og smákrakki, varaborgarfulltrúinn.

Hún er í sandkassaleik.

Vandamálin í borginni eru og hafa verið út af fólki eins og henni.

Enda tók hún þátt í upphaflegu svikunum við sjálfstæðisfólkið.

Hún bar ábyrgð á að svíkja samstarfsfólk sitt í fyrsta meirihlutanum.

Hún er ennþá í einhverjum barnaskólasaumaklúbbi.

Skilur ekki umhverfi sitt.

Skilur ekki skyldur sínar.

Frekar en Dagur og Svandís.

Enda brást Marsibil þeim á sínum tíma þegar hún byrjaði ballið med Birni Inga.

Miklu veldur sá sem upphafinu veldur.

Nafnlaus sagði...

Samfylkingin í borgarstjórn útilokar fólk. Útilokar að vinna með fólki. Sérstaklega sjálfstæðisfólki.

Hvers konar fagmennska er það? Hvers konar eigingirni og ofstopi? Hvers konar stjórnmál?

Útilokunarstjórnmál.

Og bregst því frumskyldu sinni gagnvart borgarbúum - að mynda meirihluta.

Björn Bjarnason segir á heimasíðu sinni:

"Þau [Dagur B. Eggertsson og Svandís Svavarsdóttir]telja einfaldlega pólitíska hagsmuni sína meira virði en hagsmuni borgarbúa. Þau vilja ekki una því, að sjálfstæðismenn sitji í meirihluta í borgarstjórn. Þeim er andúðin á Sjálfstæðisflokknum mikilvægari en að mynda breiðan meirihluta um stjórn Reykjavíkurborgar."

Og:

"Ef einhver stuðlar að glundroða í þessari borgarstjórn, sem nú situr, eru það borgarfulltrúar Samfylkingar og vinstri/grænna. Þau telja sér það helst til framdráttar, en sjálfstæðismenn leggja sig fram um að mynda starfhæfan meirihluta."

Sem er frumskylda kjörinna borgarfulltrúa.

Það er kjarni málsins.

Samfylkingin tók þátt í upphaflegu svikunum með Birni Inga og Marsibil.

Það voru sannkölluð klækjastjórnmál.

Og ber svo allt í einu enga ábyrgð á neinu.

Eins og úlfur í sauðskinnsgæru.

Give me a break.