22 ágúst 2008

Frístundaheimili & skólar

200 starfsmenn vantar á frístundaheimili borgarinnar og stefnir í að hundruðir barna í 1.-4. bekk eigi ekki í nein hús að venda eftir að skóla lýkur á daginn. Þetta er gömul saga og ný og tími til kominn að skoða aðrar lausnir. 


Staðreyndir um frístundaheimili: 

Þau starfa að langmestu leyti milli klukkan 14 og 17 á daginn - nema á starfsdögum skóla og í skólafríum en þá starfa þau allan daginn. 

Kannanir sýna að foreldrar eru hæstánægðir með frístundaheimilin en þykir þó aðstaða þeirra bágborin og þjónustan oft ótrygg, samanber biðlistana á þessu hausti. 

Umsjónarmenn eru í 100% starfi en langstærsti hhluti starfsfólksins er með lítið starfshlutfall enda vinnutíminn frá ca. 14-17. Þessar stöður hefur verið mjög erfitt að manna og starfsmannavelta er mikil. 

Frístundaheimilin eru rekin af ÍTR eftir hugmyndafræði tómstunda en þeirri fræðigrein vex sífellt meira fiskur um hrygg og er nú kennd á háskólastigi undir styrkri stjórn Vöndu Sigurgeirsdóttur, lektors í frístundafræðum. Frístundaheimilin eru afar fjölbreytileg og sum hafa farið skapandi leiðir til að marka sér sérstöðu og sína eigin hugmyndafræði sem er fagnaðarefni.

Frístundaheimili eru staðsett í eða við skólana en oft nýta þau skólahúsnæðið ekki nema að hluta. Þau eru gjarnan staðsett í skúrum á skólalóð, í sérstökum húsum í nágrenni skólanna en í nýrri skólum hefur verið gert ráð fyrir þeim strax á hönnunarstigi þó deila megi um hvort þau rými séu nógu stór. 

Á vordögum talaði ég fyrir tillögu í borgarstjórn f.h. Tjarnarkvartetts. Hún byggir á hugmyndafræði sem Tjarnarkvartettinn þróaði í hundraðdagameirihlutanum fyrir nýju skólana í Úlfarsárdal. Hér er góð útlistun á henni en í örstuttu máli gerir hún ráð fyrir því að flétta saman skóla- og frístundastarf yngstu barnanna þannig að frístundafræðin verði hluti af stundaskrá barnanna og fingri sig saman við skólastarfið. Þannig er litið á að skóladagur yngstu barnanna sé frá morgni allt til klukkan 17 og því þá ekki að leiða saman krafta kennara og annars starfsfólks skólanna - og frístundafræðinganna? 
Við berum jú ábyrgð á börnunum saman.

Þessi tillaga er róttæk og vekur upp margar krefjandi spurningar og álitaefni hvað varðar gjaldtöku, sjónarmið lögbundins náms og valkvæðs frístundastarfs, vinnutíma og vinnuaðstöðu kennara, nýtingu á húsnæði og ótal margt fleira. 

Ef tilraunin nær fram að ganga verður hún fyrst og fremst til mikilla hagsbóta fyrir börnin. Hún leysir húsnæðiskreppu frístundaheimilanna því skólahúsnæðið nýtist fyrir börnin allan daginn, ekki bara til klukkan 14. Jafnframt skapar hún vettvang fyrir áhugasama frístundaleiðbeinendur - og fræðinga til að starfa 100% í sínu fagi. 

Allt eru þetta ögrandi verkefni til að leysa úr og ég veit fyrir víst að nokkrir skólar í Reykjavík eru reiðubúnir í tilraun af þessu tagi. 

Þeir hafa líka hvíslað því að mér að þá klæji í lófana að hefjast handa.

Engin ummæli: