Ég leita stundum uppi sniðuga fyrirlestra á þessari frábæru síðu; www.ted.com. Þar er að finna allt milli himins & jarðar en þessi er ekki fyrir viðkvæmar foreldrasálir.
Í fyrirlestrinum segir tölvunarfræðingurinn Gever Tulley frá sumarbúðum sem hann stendur fyrir; The Tinkering School. Viðfangsefni sumarbúðanna má að mörgu leyti lesa í út frá heiti fyrirlestursins: ,,Five dangerous things you should let your children do".
Herra Tulley er heilinn á bak við áðurnefndar sumarbúðir þar sem áherslan er á að krakkarnir upplifi og skapi það sem þeim dettur í hug og... leiki sér með eld, prófi að keyra bíl, handfjatli og vinni með ýmsa hættulega hluti eins og vasahnífa, beitt verkfæri og fleira skemmtilegt.
Herra Tulley er á þeirri skoðun að nútímaforeldrar hafi bóluplastað veröld barnanna svo rækilega að þau kunna ekki lengur fótum sínum forráð. Hann er alfarið andsnúinn þeirri áráttu að setja öryggisstaðla um allt smátt og stór og vill meina að börn séu hjálparlaus í heimi sem treystir þeim varla til að umgangast neitt sem er beittara en golfkúla.
Að hans mati sé vænlegra að leyfa börnum að fara höndum um eld, hnífa og svo framvegis til að þau öðlist færni í að handleika ýmis fyrirbæri sem þau fyrr eða síðar handleika. Enda eru börn lunkin að leita uppi spennandi/og hættulega hluti - sama hvað við setjum marga öryggisstaðla.
Upplifunin er sannarlega skemmtileg - síðastliðið sumar var hálfgildings smíðaverkstæði úti á túni fyrir utan sumarhús fjölskyldunnar og fjögurra ára sonur minn var með (alvöru) hamar, nagla, sög og skrúfjárn í hönd svo gott sem allt sumarið. Það fór stundum um mig, ég viðurkenni það, en hann varð slíkur hagleikssmiður eftir sumarið (og skemmti sér konunglega!) að ég sé ekki eftir því að hafa sett kíkinn fyrir blinda augað... og gleyma öllu því góða sem Herdís Staargard hefur kennt mér.
Ég er ekki endilega sammála Gever Tulley í einu og öllu (þegar hann mælir með því að börn prófi að keyra bíl hugsa ég t.a.m. stíft til Herdísar Storgaard) en hann hefur þó á vissan hátt mikið til síns máls.
Sjón er sögu ríkari. Tékkið á forsvarsmanni The Tinkering School.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli