Tillaga var flutt á borgarstjórnarfundi í dag um íbúakosningu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Henni var vísað frá með öllum greiddum atkvæðum nema einu; atkvæði Ólafs F. Magnússonar sem flutti tillöguna.
Það er hollt og gott fyrir Reykvíkinga að rifja upp íbúakosninguna árið 2001 þar sem kosið var á milli þess að flugvöllurinn færi - eða væri áfram í Vatnsmýrinni eftir árið 2016.
Ég man vel eftir þessum tíma og var í hópi þeirra sem vildu sjá flugvöllinn fara annað, í hópi þeirra sem vildu sjá uppbyggingu íbúa- þekkingar- og atvinnusvæðis í mikilli nálægð við miðborgina.
Ýmsu er hent á loft í umræðunni og sumir hafa gert lítið úr íbúakosningunni árið 2001. Hún olli miklu fjaðrafoki á sínum tíma og mikil umræða var í samfélaginu um kosti og galla þess að flytja flugvöllinn. Hollvinir flugvallarins hafa talað um að þátttaka í kosningunni hafi verið dræm. Þó kusu 37% þeirra sem voru á kjörskrá. Atkvæðin skiptust þannig að 48% vildu hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni en 49% vildu að hann færi.
Ýmsar staðreyndir um kosninguna: Of lítið af ungu fólki tók þátt og ég fann sjálf fyrir því að jafnaldrar mínir á þeim tíma voru lítið meðvitaðir um skipulagsmál. Þó vakti kosningin athygli fyrir það að rúmur þriðjungur borgarbúa tók þátt en í Evrópu var vandfundin önnur eins þátttaka í staðbundinni kosningu um skipulagsmál.
Mjótt á munum - sannarlega. En engu að síður niðurstöður kosninga þar sem þriðji hver Reykvíkingur á kosningaaldri gerði sér ferð í kjörklefann til að hafa áhrif á sitt nánasta umhverfi.
Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Stór alþjóðleg hugmyndasamkeppni hefur verið haldin og nú fer fram skipulagsvinna byggð á henni.
En dveljum aðeins lengur í sögubókunum: Að lokinni íbúakosningunni - þar sem mættust stálin stinn - slíðruðu borgaryfirvöld og hagsmunaaðilar sverðin og gengu nokkuð sáttir til þess verkefnis að finna annan stað fyrir flugvöllinn. Meira að segja F-listinn, þ.e.a.s. Ólafur F. Magnússon, var sammála því að skoða aðra kosti t.a.m. Hólmsheiði og Löngusker.
Í síðustu borgarstjórnarkosningum spilaði Ólafur út merkilegu trompi og setti sáttaferlið allt í uppnám. Hann setti það fram sem helsta baráttumál F-listans að flugvöllurinn færi hvergi og var alls ekki til umræðu um að skoða aðra kosti. Það lá fyrir að allir aðrir flokkar höfðu aðra skoðun og fyrir lágu niðurstöður íbúakosningar sem sýndi að meirihluti var fyrir því að flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni eftir 2016. Einn einasti borgarfulltrúi F-lista hefur ekki áhrif á þær.
Gleymum því ekki að í síðustu borgarstjórnarkosningum greiddu 90% borgarbúa flokkum atkvæði sem höfðu það skýrt og skilmerkilega á sinni stefnuskrá að flugvöllurinn viki úr Vatnsmýrinni í fyllingu tímans.
Aftur í sögubækurnar: Fyrir viku síðan voru 40 ár síðan Danir unnu okkur 14-2 í fótbolta.
Margsinnis hefur staðan í borgarstjórn Reykjavíkur verið 14-1.
Framtíð Reykjavíkur í hag.
02 september 2008
14-1
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Ég ákvað á sínum tíma að taka ekki þátt í atkvæðagreiðslunni vegna þess að ég tel ófært að taka já-eða-nei afstöðu til Vatnsmýrarflugvallarins án þess að ljóst sé hver valkosturinn sé.
Get hvorki sagt: "Burt með völlinn, sama hvert", né "Flugvöll í Vatnsmýrinni, skilyrðislaust".
Er enn á því að ég hafi kosið rétt.
14 2 var 1967
Þarna brást mér bogalistin, auðvitað er 41 ár síðan Danir unnu okkur 14-2.
Algerlega sammála Varríusi. Þetta var lykilgallinn á kosningunni og hefur reyndar verið lykilgallinn á allri þessari umræðu allan tímann.
Það er alltaf verið að ræða það hvort flugvöllurinn eigi að vera eða fara í stað þess að ræða það hvar hann eigi að vera og hvernig.
Ég mæli með því að millilandaflugvöllurinn verði fluttur í bæinn og sameinaður innanlandsflugvellinum á Lönguskerjum. Keflavíkurflugvöllur verði seldur einkaaðilum til frakflugs, þó með þeim kröfum að hann sé varaflugvöllur. Sala á flugvellinum, Vatnsmýrinni og hagræðing af einum flugvelli í stað tveggja fer langt með að borga Löngusker.
Sjá: http://siggiulfars.blog.is/blog/siggiulfars/entry/627966/
Skrifa ummæli