17 september 2008

Jafnrétti í skólanum

Hér er stigið þarft skref. Með opnun heimasíðu um jafnréttismál í skólum er hægt að halda utan um og miðla milli skóla og landshluta þeim verkefnum sem ganga vel og aðrir gætu lært af. 


Ég vona sannarlega að heimasíðan vaxi og dafni og að jafnréttisfræðsla verði snar þáttur í skólastarfinu. Ekki veitir af. Kynbundinn launamunur vex og dafnar þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnvalda um annað, gamaldags viðhorf eru því miður áberandi hjá ungu fólki þegar kemur að hefðbundnum kynhlutverkum og svona mætti lengi telja. Hér skipta góðar fyrirmyndir öllu máli, fyrirmyndir á heimilunum, í sjónvarpinu, í vinahópnum, í opinberri umræðu og í stjórnmálum. Og skólinn getur sannarlega lagt sín lóð á vogarskálarnar. Ég get reyndar vart ímyndað mér skemmtilegri nálgun við kennslu á unglingastigi en að fjalla um jafnréttismál og tengja jafnréttisumræðuna við námsefnið. 

En hvað er jafnrétti í skólastarfi? Með því er ég ekki eingöngu að vísa til jafnréttisfræðslu til nemenda heldur líka jafnrétti til náms, jafnan rétt stráka og stelpna til að njóta sín í skólanum, jafnréttisvitund unglinga, jafnrétti á kennarastofunni... 

Tækifærin eru óþrjótandi og fyrsta skref er að hvetja áhugasama kennara til að byggja upp námsefni og námsaðferðir sem skila árangri. Þess vegna var ýtt úr vör símenntunarprógrammi fyrir kennara í hundraðdagameirihlutanum. Það verður spennandi að sjá ávöxt þess. 

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jafnrétti í skólum er gríðarlega mikilvægt. Það er mjög alvarlegt mál að strákar virðast vera að plumma sig sínu verr í skólum en stelpur, fá lægri einkunnir og brottfall þeirra úr framhaldsnámi er meira en meðal kvenna.
Þetta þarf að rannsaka ofan í kjölinn og getur haft mikil áhrif á okkar mannauð þegar fram líða stundir. Hvað er að valda þessu og hvernig er hægt að hafa jákvæð áhrif á námsárangur stráka?

Stelpurnar virðast hins vegar vera á beinu brautinni, standa sig vel og eru komnar í meirihluta í háskólunum. Ég hef engar áhyggjur af þeim. Þær eru í góðum málum.