18 september 2008

Íslenskur veruleiki og nauðsyn vandaðra frístundatilboða

Í allri umræðu um frístundaheimilin og það samhenta átak sem borgaryfirvöld þurfa að einhenda sér í til að skapa fullnægjandi uppeldisaðstæður fyrir yngstu börnin - virðist oft gleymast hvað íslenskur veruleiki er ólíkur þeim sem er að finna í löndunum í kringum okkur.

Við miðum okkur oft við Skandinavíu. Þar hefur frístundastarf þróast og þroskast í mun lengri tíma en starf ÍTR. Veruleikinn þar er sá að 50-65% kvenna vinna fullan vinnudag. Karlar vinna h.u.b. allir fullan vinnudag víðast hvar í hinum vestræna heimi.

Ergo: Þrýstingurinn er minni, ,,uppvaxtarskilyrði" frístundastarfs eðlilegri og framþróun þeirra í takti við þarfir og eftirspurn.

Á Íslandi er saga frístundaheimilanna afar stutt og í raun ótrúlegt hvað ÍTR hefur byggt upp gott og faglegt starf þrátt fyrir að hafa þurft að byggja skipið nokkurn veginn úti á rúmsjó. Húsnæði er ábótavant, starfsmannaekla og aðstæður óviðunandi á margan hátt.

Íslenski veruleikinn er hins vegar þessi: Vel yfir 90% foreldra 6-9 ára barna, konur jafnt sem karlar, vinna fullan vinnudag.

Ergo: 90% barna, a.m.k. þeirra sem eru allra yngst, þurfa á vönduðu frístundatilboði að halda eftir að skóla sleppir.

Í kjölfar könnunar á atvinnuþátttöku kvenna í Skandinavíu setti Evrópuráðið sér það markmið að allt að 65% kvenna á barneignaraldri ynnu fullan vinnudag árið 2012.

Aldeilis háleit markmið þar á ferð! Þau koma óneitanlega spánskt fyrir sjónir Íslendinga.

Það er staðreynd að þær þjóðir sem hafa sterkt leikskólakerfi, öflugt og vandað frístundatilboð fyrir lítil börn þegar skólanum sleppir og sterka hefð fyrir aðstoð frá stórfjölskyldunni - þær halda áfram að stækka sinn stofn.

Þess vegna eru Íslendingar Evrópumethafar í barneignum. Og þess vegna þurfum við að spýta í lófana til að uppeldisaðstæður yngstu skólabarnanna verði sem best verður á kosið.

Engin ummæli: