12 september 2008

Lýsistrata 2008

Ég sé að Lýsiströtuleiðin er viðruð á síðum Eyjunnar, nú þegar illa gengur að ná samningum við ljósmæður. Hún er auðvitað barn síns tíma því í dag fara nútímakonur ekki í kynlífsverkfall - getnaðarvarnir gera okkur kleift að fara í barneignaverkfall.


Um það skrifaði ég í jólablaði Nýs Lífs árið 2004. Greinin heitir ,,Ársuppgjör móður" og er hér í fullri lengd.

En hér eru lokaorðin. Þau eiga glettilega vel við í dag. Ekki bara stefnir í óefni í deilu ljósmæðra og ríkisins heldur hefur kynbundinn launamunur, sá landsins forni fjandi, aukist á milli ára. Það er alltént kominn tími á að við konur látum sverfa til stálsins svo um munar...

,,Ársuppgjör mitt er ekki sérlega vísindalegt, enda er ég nýgræðingur í femínistabransanum. En ég kasta á borðið nokkrum prakkaralegum tillögum: Vegna þess að konur eru líffræðilega forritaðar til að ganga með börn og eru þar af leiðandi dálítið uppteknar af því stundum, væri í lagi að gefa þeim oggulítinn séns í hinum harða heimi atvinnulífsins? Svo við getum öll fengið að njóta okkur, menn, konur og börn? Og væri ekki möguleiki að stytta vinnutímann svo pabbarnir þyrftu ekki að vinna svona lengi og vera svona þreyttir? Svo fjölskyldan geti blómstrað og notið lífsins, nammi namm?

Nýverið voru kennarar í löngu verkfalli eins og alþjóð veit. Hvernig væri að konur færu líka í verkfall og legðu niður BARNEIGNIR? Nýttu sér þennan sáraeinfalda en áhrifaríka verkfallsrétt sinn til að knýja fram jafnrétti á öllum vígstöðvum. Samfélagið myndi smátt og smátt lamast, heilu árgangarnir hyrfu úr leik- og grunnskólum, markaður fyrir bíla og fasteignir yrði skugginn af sjálfum sér, gjörvallur barnavagnabransinn legðist í rúst. Barnalæknar, gangbrautaverðir og Dýrin í Hálsaskógi sætu hnípin og aðgerðalaus hjá, dag eftir dag á meðan ríkiskassinn borgaði þeim laun fyrir að sinna börnunum.

Þetta er þvingunaraðgerð sem segir sex - en engin börn. Og daufur er barnlaus bær.

Alvarlegustu eftirköstin eru vitanlega þau að hinni fámennu þjóð, Íslendingum, myndi fækka hratt - og ef ekki verður gengið að kröfum okkar mun hún að lokum deyja út. Hvað gera bændur þá?

Vopnið er í okkar höndum dömur. Kýlum á það.''

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Barneignarverkfall.... yea right!

Þegar komið er ungahljóð í konur er fátt sem stoppar þær... ekki einu sinni þær sjálfar!! Leið náttúrunnar til að viðhalda tegundinni.

(Tek smá áhættu með þessu innleggi.. ætli ég verði stimplaður karlremba fyrir vikið??)