Eftir hrunið hafa skatttekjur borgarinnar dregist saman að núvirði um 20%. Núverandi borgarstjórn stóð frammi fyrir vanda upp á um 4.5 milljarða króna. Ekki bara vegna tekjufalls heldur líka vegna nýrra verkefna. Þau tengjast bæði neikvæðum afleiðingum hrunsins, sem er fjölgun fólks sem þarf á fjárhagsaðstoð borgarinnar að halda og meiri útgjöldum til velferðarmála.
Jákvæðu afleiðingarnar eru fjöldi nýrra barna sem auðvitað vilja komast í frábæra leikskóla borgarinnar.
4.5 milljarðar króna. Á þeim vanda þurfum við að taka og hann er ansi stór. Til samanburðar myndi fullnýting útsvars gefa okkur um 125 milljónir króna á þessu ári svo ekki kæmumst við langt á því. Við megum ekki taka háar fjárhæðir að láni til þess að reka borgina okkar og við megum ekki ganga á varasjóð borgarinnar. Þeir stjórnmálamenn sem halda öðru fram eru ekki að segja satt.
Hlífum eftir mætti
Rekstur leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila heyrir undir þrjú svið sem taka til sín rúmlega 30 milljarða króna, rúmlega helming allra útgjalda borgarinnar. Við getum ekki varið óbreytt útgjöld til þessa málaflokks og látið allan niðurskurðinn lenda á hinum helmingnum. Við getum hlíft eftir mætti en það er óhugsandi að ekki verði einhver samdráttur í fjárhagsáætlun Menntasviðs, Leikskólasviðs og ÍTR á þessu ári og því næsta. Við munum spara í malbiki og steypu, í stjórnkerfi borgarinnar og á ótal öðrum sviðum, en það er ekki nóg. Við verðum líka að spara í skóla- og frístundastarfi barna.
Við þetta bætast þau ánægjulegu tíðindi að óvenjumargir borgarbúar hafa notað kreppuna til barneigna. Á næsta ári má búast við um 400 fleiri börnum inn í leikskólana en fara út í 1. bekk grunnskólans, 20% meira en árin á undan. Við þurfum því að fjölga leikskólaplássum á versta hugsanlega tíma.
Samhengi hlutanna
Þetta er staðan. Við munum bregðast við henni með því annars vegar að endurskipuleggja reksturinn, og hins vegar með hagræðingarkröfu á sviðin þrjú, frá 2,2% - 5% lækkun á framlagi til sviðanna. Endurskipulagningunni er ætlað að minnka þörfina á beinum niðurskurði og skapa skólakerfi sem er hagkvæmara en áður en að minnsta kosti jafngott og það sem við búum við í dag. Vönduð endurskipulagning er besta tækið sem við höfum til að verja sjálft starfið í skólunum okkar og tryggja hagsmuni barnanna sjálfra.
Þetta er það sem við meinum með því að forgangsraða í þágu barna og unglinga.
Það má gera skipulagsbreytingar
Allar fyrirhugaðar breytingar eru í fullu samræmi við lög frá 2008 um leik- og grunnskóla. Nýju lögin opnuðu á möguleikana á samrekstri skóla sem mörg sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni hafa nú nýtt sér. Markmið lagabreytinganna var skýrt; að efla skólana faglega og fjárhagslega, stuðla að samfellu milli skólastiga, hreyfanleika kennara milli skólastiga og auka möguleika á endurskipulagningu skólastarfs út frá hagkvæmni, fagstarfi og ávallt með hagsmuni barna og unglinga í huga.
Hvernig breytingar viljum við?
Allar breytingar á skipulagi skólastarfsins verða að hafa skýr markmið: Að draga úr húsnæðiskostnaði og þörf fyrir nýbyggingar, að minnka kostnað við stjórnun, að lækka ýmsa kostnaðarliði (mötuneyti o.fl.), og á sama tíma að efla – eða í það minnsta verja – skóla, leikskóla og frístundaheimili borgarinnar. Þetta er hægt að gera ef skynsemi og fagmennska fá að ráða för.
Húsnæðiskostnaður skóla er afar hár í Reykjavík og við nýtum skólahúsnæði ekki nógu vel. Sumsstaðar má flytja elstu nemendur leikskóla yfir í húsnæði grunnskólans á sömu lóð og fá þannig pláss fyrir nýju börnin án þess að byggja meira húsnæði. Annars staðar er rökrétt að sameina lítinn og stóran leikskóla og mynda hagkvæmari einingu með eitt mötuneyti og betri nýtingu starfsfólks. Enn annars staðar eru fagleg og fjárhagsleg rök fyrir því að sameina unglingadeildir grunnskóla og þannig mætti áfram telja. Þetta eru ekki breytingar breytinganna vegna, heldur viðbrögð við breyttri aldurssamsetningu í hverfum, auknum kröfum um hagkvæmni og knýjandi þörf fyrir að nýta skólahúsnæði betur.
Tækifærin
Ég er sannfærð um að margar þeirra hugmynda sem nú eru til skoðunar eru til mikilla bóta, jafnt faglega sem fjárhagslega. Til dæmis gefa stærri unglingadeildir kost á fjölbreyttari faggreinakennslu, auðugra félagslífi og betri nýtingu fjármagns. Opnun leikskóladeilda í grunnskóla sparar verulegar fjárhæðir í nýbyggingum og gefur tækifæri til þróunar á samfellu skólastiganna og samspili við frístundastarf. Samþætting frístunda- og skólastarfs opnar á samstarf ólíkra fagstétta, kennara og frístundafræðinga, sem saman myndu skipuleggja skóladag yngstu barnanna út frá þörfum hvers og eins. Þarna eru ótvíræðir möguleikar til innihaldsríkari skóladags. Hér eru margir spennandi kostir sem spara til lengri tíma verulegar fjárhæðir sem nýta má í innra starf skólanna, börnin sjálf.
Hvað eru aðrir að gera?
Skólar hafa verið sameinaðir víða, líka í Reykjavík. Á síðasta ári voru sex leikskólar sameinaðir í þrjá, undir þremur stjórnendum. Í Kópavogi, Hafnarfirði, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ hafa skólar verið sameinaðir á síðustu árum og fleiri sameiningar eru í farvatninu. Við sameiningu skóla taka stjórnendur á sig stærra hlutverk í stjórnun, og aðstoðarskólastjórar og deildarstjórar takast á við meiri ábyrgð. Í Reykjavík eru margir litlir skólar, gjarnan nálægt hvor öðrum. Með sameiningu yfirstjórnar vinnur stærri hópur fagfólks saman, hægt er að nýta sérþekkingu í starfsmannahópnum fyrir stærri barnahóp, endurskipuleggja afleysingar, stjórnun, sérkennslu, mötuneyti og eldhús, innkaup og margt fleira sem stór skóli á auðveldara með en lítill. Þeir leikskólar sem við höfum sameinað nú þegar í Reykjavík styrkja okkur í vinnunni framundan og augljós tækifæri til betri nýtingar fjármagns eru til staðar.
Við eigum skólana saman
Lykillinn að farsælli innleiðingu nýs skóla er að starfsfólk og foreldrar taki þátt í og hafi áhrif á skipulag skólastarfsins, faglega stefnu hans og að ný stefna byggi á styrk hvors skóla fyrir sig. Ekkert bendir til þess að breytingar á borð við þessar hafi neikvæð áhrif á líðan barna í skólunum og þess verður ávallt gætt að nægilegur stuðningur verði til staðar fyrir nýja skóla til að breytingarnar gangi sem best fyrir sig.
Umdeilt samráð - en eina leiðin
Í starfshópnum var valin sú leið að eiga samtal við fulltrúa foreldra og starfsfólks í öllum skólum og frístundaheimilum. Samráðsferlið uppfyllir leikreglur Sambands íslenskra sveitarfélaga um undirbúning samreksturs skóla, og gott betur. Alls hafa um 600 manns komið með beinum hætti að þessum undirbúningi, fulltrúar foreldra og starfsfólks, stjórnendur og starfsfólk sviðanna þriggja. Líklega verðum við seint öll sammála um hvernig best er haldið á undirbúningi slíkra breytinga og víst er að samráðsferlið getur alið á ótta og óöryggi. Ein leið hefði verið að ákveða allt á lokuðum fundi borgarráðs. Það viljum við ekki. Við viljum hlusta á öll sjónarmið og við viljum taka réttar og skynsamlegar ákvarðanir. Þess vegna liggja nú fyrir á sjötta tug hugmynda sem verið er að fara í saumana á til að kanna hagkvæmni og faglegan ávinning eða áhættu. Í lokaskýrslu hópsins munum við velja það besta úr þessum tillögum, rökstyðja hvert skref sem við viljum stíga og gera ítarlega áætlun um innleiðingu.
Framtíðin
Leiðarljós starfshópsins hefur frá upphafi verið að standa vörð um faglegt starf, stækka og styrkja einingar svo betur megi nýta sameiginlega sjóði borgarbúa í skólastarfið sjálft. Það mun skila sér til komandi ára, sem verða þung í róðri fyrir sveitarfélög í landinu.
Það er rík nauðsyn á endurskipulagningu til framtíðar. Eingöngu þannig sköpum við svigrúm til að hlúa að frábæru skóla- og frístundastarfi í Reykjavík.
11 febrúar 2011
Það er hægt að verja gott skólastarf með endurskipulagningu
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
10 ummæli:
Hverjum finnst ekki skynsamlegt að spara?
Hverjum finnst ekki skynsamlegt að spara? Vegna uppsafnaðs halla skólanna, vegna minni tekna og halla borgarsjóðs verður að spara. Hvað sjá menn rangt við að gera það með lækkun stjórnunar- og húsnæðiskostnaðar, frekar en enn frekari launalækkunum og uppsögnum almenns starfsfólks?
Það vekur athygli Oddný að þú minnist ekki einu orði á 250 milljóna niðurskurð í kennslumagni sem er fyrirhuguð í grunnskólum í Reykjavík.
Viltu útskýra fyrir okkur hvernig sá niðurskurður á menntun barnanna er hluti af því að "verja gott skólastarf"?
Það vill svo til að ég hef kennt í grunnskóla í 10 ár og veit, algerlega og fullkomlega veit af fenginni reynslu að margt af því sem þú ert að segja í þessum pistli er hrein della. Það er kominn tími til að þið hættið að reyna að slá ryki í augu fólks með því að tala um að tilgangurinn sé að "verja gott skólastarf" eða "bæta þjónustuna við börnin" eða annað slíkt bull.
Það sem þið eruð að gera, núna eins og síðustu ár, er að taka fjármagn úr skólakerfinu, fækka starfsfólki í skólunum og auka þannig álagið á þeim sem eftir eru, fækka kennslustundum og þar með fjölbreytni og stuðningi sem börnin fá. Það bætir ekki menntun eða ver skólastarf. Það rífur niður gott skólastarf og skerðir þjónustuna við börnin. Það er tóm lygi að halda öðru fram.
Grunnskólarnir í Kópavogi voru sameinaðir á allt öðrum forsendum en nú stendur fyrir í RVK. Digranes- og Hjallaskóli standa um 200 metra frá hvor öðrum og það lá fyrir að stór hluti af húsnæði Digranesskóla væri ónothæft. Ennfremur var engum stjórnanda sagt upp störfum í skólunum.
Þannig að það er ekki fordæmi fyrir því sem stendur fyrir í borginni.
Sæl, góður pistill hjá þér, ég bý uppí Staðahverfi og þar er skóli sem heitir Korpuskóli, það hefur staðið til að stækka hann núna í um 5 ár en ekkert gengið. Samkvæmt þínu pistli er greinilega möguleiki á að nú verði loksins haldið af stað í það verk. En samkvæmt hagkvæmisútreikningum þá er stækkun hans um 300fm mjög hagkvæm og talið spara um 200 þús kr per nemanda. Vildi bara minna á þetta hverfi sem er reyndar nær Mosfellsbæ en miðbæ Reykjavíkur.
Kveðja Páll Geirdal
Hvað sparast mikið með þessari endurskipulagningu?
Áhugavert hvað mikið er hér lagt áheyrsla í sparnað alveg frá í hrún degi. Ekki er minnst að ymis verkefni er gjörsamlega óþarf. Til dæmis málbikun í götum sem gamall var als ekki ónyttur. En ég veit að borgar starfsmenn gerðu fyrst við sprungur og svo malbikuðu þeir götu í heilð.
Siðan tek ég undir Stefáni um húsnæðiskostnað. Ekki var það löngun barna og foreldra að starfsmenn Reykjavíkurborgar flytjast inn í leigu húsnæði í ljóta Borgartúns hús. Og það kosta jú. Að vissu meira en 90% meira heldur húsnæðis kostnaður var ári 2005. Hér leynist útgjalð.
Endurskipulagning er eitt niðurskurður annað. 125 milj. með hækkun útsvars er langt upp í 250 millj. sem á að ná með niðurskurði í grunnskólum. Niðuskurðurinn eins og hann lítur út þýðir t.d. enginn forfallakennsla og skert list- og verkgreinakennsla sem ég hélt að allir væru sammála um að væru hluti af góðu skólastarfi. Það er engin leið að svo mikill niðurskurður hafi ekki áhrif á gæði skólanna.
Ég er foreldri barns sem er að hefja nám í 1. bekk í haust. Einnig hef ég nokkurra ára reynslu af kennslu í grunnskóla sem kennari. Þar sá ég hvað gæslan úti í frímínútum er mikilvæg en kennarar og starfsfólk skipta með sér gæslunni.
Þegar ég sá niðurskurðarhugmyndir skólans fyrir næsta vetur langar mig hreinlega til að hætta við að senda barnið í skólann.
Engin gæsla á skólalóð stóð. Engin listgreinakennsla í 1. - 3. bekk.!!
Ég vona svo sannarlega að þetta verð ekki raunveruleikinn því ef það er engin gæsla á skólalóð þá erum við að hverfa mörg ár aftur í tímann í eineltisforvörnum. Gæslan fyrirbyggjandi vegna eineltismála.
Það er síðan til skammar að ætla að hafa listgreinar af svona ungum börnum og mun bitna verulega á ánægju þeirra í skólanum. Mörg þeirra njóta sín best í list og verkgreinum.
Ég er foreldri barns sem er að hefja nám í 1. bekk í haust. Einnig hef ég nokkurra ára reynslu af kennslu í grunnskóla sem kennari. Þar sá ég hvað gæslan úti í frímínútum er mikilvæg en kennarar og starfsfólk skipta með sér gæslunni.
Þegar ég sá niðurskurðarhugmyndir skólans fyrir næsta vetur langar mig hreinlega til að hætta við að senda barnið í skólann.
Engin gæsla á skólalóð stóð. Engin listgreinakennsla í 1. - 3. bekk.!!
Ég vona svo sannarlega að þetta verð ekki raunveruleikinn því ef það er engin gæsla á skólalóð þá erum við að hverfa mörg ár aftur í tímann í eineltisforvörnum. Gæslan fyrirbyggjandi vegna eineltismála.
Það er síðan til skammar að ætla að hafa listgreinar af svona ungum börnum og mun bitna verulega á ánægju þeirra í skólanum. Mörg þeirra njóta sín best í list og verkgreinum.
Skrifa ummæli