30 mars 2008

Miðborgin, braskarar og hús skáldsins

Góður dagur að baki. Utanríkisráðherrann okkar ætlar að leiðrétta eftirlaunaskandalinn, gagnrýnir harkalega verðhækkanir og mælti kvenna heilust um hnignun borgarinnar.

Í þætti Evu Maríu lék Björn Ólafs arkitekt og vinur okkar hjónaleysa á als oddi. Þau skiptust á skoðunum um hverfi borgarinnar, kíktu á sköpunarverk Björns; Bryggjuhverfi og Sjálandshverfi, sem að mínu mati eru mjög vel heppnuð. Birni rötuðust rétt orð á munn þegar hann sagði að síðastliðin 40 ár hefðum við Reykvíkingar bruðlað með land. Af hverju erum við að tala um landfyllingar árið 2008 - í borg sem á nóg af landi? Vegna þess að við viljum byggja þar sem byggðin er. Þannig nýtum við betur góða þjónustu, skóla, almenningssamgöngur og erum í nálægð við stóra atvinnukjarna.

Björn Ólafs leiðrétti hvimleiðan misskilning um 101 Reykjavík. 101 Reykjavík er nefnilega gríðarlega vel skipulagt hverfi, það er ekki kofahverfi, ekki kaotískt, ekki bara samansafn skringilegra húsa. 101 Reykjavík er elsta hverfi borgarinnar, skipulagt af Dönum að danskri fyrirmynd. Íslenskir arkitektar tóku svo við og skipulögðu glæsilega hluta hverfisins, nægir að nefna gamla Vesturbæinn, suðurhlíðar Skólavörðuholts og svona mætti lengi telja. Einn helsti kostur 101 er hversu skynsamlega þétt byggðin er. Bryggju- og Sjálandshverfi, að ótöldu verðlaunahverfi skosku náunganna sem unnu Vatnsmýrarsamkeppnina, kinka öll kolli í átti til þess lags byggðamunsturs.

Björn Ólafs tæpti líka á braskinu - sem svo mjög er til umræðu þessi dægrin. Yfirgefin, niðurnídd hús setja ákaflega ljótan blett á bæinn. Brask er óvinur borgaruppbyggingar og sérstaklega miðborga. Braskarar vilja eingöngu kaupa lóðir til að selja - ekki til að byggja upp. Björn Ólafs sagði að í USA væru strangar reglur og viðurlög gegn braski af þessu tagi. Við ættum að skoða það alvarlega því þetta ástand gengur ekki mikið lengur.

En ég vil samt koma miðbænum til varnar. Ég þoli ekki þegar sá söngur fer að hljóma að miðborgin sé ljót. Miðborg Reykjavíkur er ekki ljót. Þar hef ég búið í 12 ár, á mörgum stöðum við Laugaveg, við Njálsgötu, Vesturgötu, Vitastíg, Bergstaðastræti og nú Sjafnargötu. Miðborg Reykjavíkur prýða margir góðir kostir. Þar er iðandi mannlíf, gullfalleg hús, frábærir leikskólar, mergjaður trjágróður, söfn og leikhús, góðar búðir og fallegar gönguleiðir.

Laugavegurinn er hins vegar í mikilli krísu nú um mundir og ég hreinlega skil ekki hvernig Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson - sem hefur manna mest tjáð sig um ljótleika og hrylling miðborgarinnar - getur setið hjá og skilað auðu núna þegar eldar brenna heitastir. Eigum við að rifja upp kosningabaráttuna 2006 þegar Vilhjálmur talaði í hverri einustu ræðu um skítuga borg? Eigum við að rifja upp þegar Vilhjálmur lét sem miðbærinn væri snarhættulegur staður til að dvelja á (sem er alrangt!), miðbærinn væri skítugur og veggjakrotið óþolandi. Eigum við að rifja upp andvaraleysið þegar reykingaleysið skall á kráareigendum, eigum við að rifja upp þegar það eina sem Vilhjálmi datt í hug að gera til að bæta ástandið var að kippa bjórkæli úr sambandi?

Af hverju gerði hann ekkert þá - og af hverju gerir hann ekkert núna? Hann hefur gert sitt með því að tala niður miðborgina í öðru hverju orði. Nú er komið að því að hann taki upp hanskann fyrir miðborgina. 1, 2 og nú.

Borgarstjóri er hændur að gömlum húsum eins og frægt er orðið - af hverju koma þessir menn ekki fram með neinar lausnir?

Ég geri orð Gunnu Ögmunds, reynds borgarfulltrúa, að mínum, en hún sagði í DV í vikunni að það þyrfti eina viku + einbeittan vilja + 15 manna sprengiteymi til að rétta af kúrsinn. Ákveða hvað á að gera við þessi niðurníddu hús, hreinsa, þrífa veggjakrot. Eins er ég hrifin af hugmynd sem ég hef lengi gælt við - en það er embætti umboðsmanns íbúa hvað skipulagsmál varðar. Ég held að það verði til mikilla bóta og hjálpi íbúum að rata um þá refilstigu sem reglugerðir skipulagsmála eru.

Ég minni líka á tillögu okkar í Samfó um endurskoðun húsverndaráætlana frá því 16. júní 2007. Sú tillaga ávarpaði þann vanda sem blasir nú við í miðbænum. Henni var vísað í einhvern starfshóp og sáralítið gerðist þar til kempan Svandís settist í stól formanns skipulags- og byggingarráðs og tók til hendinni.

En aðallega ætlaði ég í þessari færslu að tala um það allra skemmtilegasta sem henti mig í dag - heimsókn á Gljúfrastein sem innihélt tölu bónda um Íslandsklukku þar sem komu við sögu Don Kíkotí, minnisleysi Íslendinga, kynni mín af Steinway flygli skáldsins og dramatísk stund þegar skáldið lét vita af sér með klukknaslögum á hárréttu augnabliki.

Hún bíður betri tíma.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er bara ekki allt rétt hjá Birni. Ef hann segir "Brask er óvinur borgaruppbyggingar og sérstaklega miðborga. Braskarar vilja eingöngu kaupa lóðir til að selja - ekki til að byggja upp"... Hvað er Samson að gera, þeir eru líklega stærstu lóðaeigendurnir í miðbænum. Hann ætti að kynna sér tillögur þeirra í stað þess að gaspra svona. Hvað með þann sem á Hverfisgötuhúsin ljótu, ég veit ekki betur en hann ætli sér mjög mikla uppbyggingu í stað þeirra m.a. listahús. En hann fær bara ekki leyfi til að rífa þau. Ég hef a.m.k. aldrei heyrt að þau væru föl öðrum, ég vinn í þessum bransa of hefði örugglega heyrt af því.

Þráinn sagði...

Halló Oddný. Takk fyrir blogg úr borgarstjórn. Það væri gaman að frétta meira af þeim samkundum.
Mér er hugleikið hvað verður um gamalt hús sem heitir Gröndalshús og þarf að víkja fyrir háhýsabyggð í miðbænum. Á horni Túngötu og Garðastrætis er lóð, þar sem hægt væri að endurgera þetta hús og nota það fyrir gististað fyrir erlenda rithöfunda. Líka væri hægt að byggja eftirlíkingu af Gröndalshúsi uppi í Árbæ. Aðalmálið er auðvitað að "bjarga" minningu um gamalt hús og að fyrirtækið "Gamlhús" missi ekki spón úr aski sínum.

Oddný er sagði...

Sæll Þráinn!

Þegar Tjarnarkvartettinn fór frá hafði Gröndalshúsi verið komið fyrir á góðum stað í Grjótaþorpinu, handan Fischersunds. Tilgangur hússins átti einmitt að vera sá að hýsa erlenda skríbenta. Ég veit þó að borgarstjóraefni Sjálfstæðismanna, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, hafði horn í síðu þeirrar fyrirætlunar. Nú er formaður Menningar- og ferðamálaráðs góðu heilli farin að blogga á Eyjunni - ég vísa þér því á Þorbjörgu Helgu, hún er viðmótsgóð með eindæmum.