Minnihlutinn í borgarstjórn er ævintýralega óábyrgur. Fulltrúi minnihlutans í starfshópi sem lagði fram tillögur til sparnaðar í yfirstjórn skóla telur nú tillögurnar einkennast af stefnuleysi. Tillögurnar eru þó í 100% eigu Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur, sem sat alla 19 fundi starfshópsins, skipulagði samráðsferlið með foreldrum og starfsfólki án þess að gera við það eina athugasemd, mætti á alla hverfafundi og talaði fyrir verkefninu, hóf sjálf sameiningarvinnu á Leikskólasviði sem formaður í meirihluta og hefur talað fyrir því að nóg væri komið af sparnaði í skólastarfinu sjálfu - nú skyldi skoða sameiningar og skipulagsbreytingar.
Ljúft er lífið minnihlutans...
Þegar í ljós kom andstaða við fyrirhugaðar breytingar, sem reynslan sýnir okkur að er alltaf þó nokkur, stökk Þorbjörg Helga frá, á síðustu metrum vinnunar, og reynir nú án afláts að sverta vinnu starfshópsins. Einn mesti sameiningarsinni sem ég hef kynnst, einlægur talsmaður uppstokkunar í skólakerfinu. Og hver var ástæðan? Jú. Of lítill fjárhagslegur ávinningur. Sem hlýtur að vekja upp spurningu hjá mörgum: Hversu langt var Þorbjörg Helga tilbúin til að ganga? Hún vissi vel sem fráfarandi formaður Leikskólaráðs að hver og ein sameining skilar engum hundruðum milljóna. Hvað vildi hún margar sameiningar í viðbót? Vildi hún kannski loka skólum í Reykjavík? Í því felst sannarlega mikill fjárhagslegur ávinningur.
Sú saga verður sögð einhvern tímann seinna. Því fólki hefnist gjarnan fyrir lýðskrum og tækifærismennsku.
Ábyrgi minnihlutinn á Alþingi
Á dauða mínum átti ég von en að ég myndi hrósa minnihlutanum á Alþingi fyrir heilindi. En Bjarni Benediktsson hefur þó sýnt þann manndóm að standa með niðurstöðu Icesave samninganefndarinnar, þó að þægilegra hefði verið fyrir hann að gera það ekki. Svo ærlegur er minnihlutinn í borgarstjórn ekki. Þrátt fyrir að taka á fullan þátt í starfi hóps sem lagði á sig gríðarmiklu vinnu fyrir börnin í borginni við að greina tækifæri til samrekstrar og sameiningar í yfirstjórn. Allt til þess að vernda skólastarfið sjálft.
,,Því er ekki að heilsa í Reykjavík"
Á landsþingi sambands íslenskra sveitarfélaga sem fram fór fyrir rúmri viku síðan var eðlilega mikið rætt um skipulagsbreytingar í skólakerfinu. Út um allt land hafa verið gerðar breytingar í yfirstjórnum skóla. Gjarnan hafa þær breytingar mætt andstöðu meðal íbúa og starfsfólks og það er eðlilegt. Það takast á þrenns konar kraftar þegar við breytum í skólastarfi: Fjárhagsleg rök, fagleg rök og tilfinningaleg rök. Þetta eru jú skólar barnanna okkar, starfsstaðir með ríka menningu, auðvitað höfum við á því sterka skoðun hvernig þeir eru skipulagðir.
Stundum hefur þessi andstaða farið býsna hljótt, undirbúningsferlið hefur gengið vel og þokkaleg sátt hefur náðst um breytingarnar. Það gerir þó ekki lítið úr því að tekist hefur verið á um faglegu, fjárhagslegu og tilfinningalegu rökin.
En hvað einkennir þær breytingar? Jú, ábyrgur minnihluti. Einn sveitarstjórnarmaður - flokksbróðir Þorbjargar Helgu og Hönnu Birnu - gat ekki orðað það betur þegar við ræddum þessi mál á landsþingi Sambandsins:
,,Það er ekki öllum gefið að standa með breytingum, þegar foreldrar og starfsfólk krefjast þess að minnihlutinn snúist á sveif með þeim og láti öllum illum látum. Ábyrgur minnihluti er lykilatriði. Því er nú sannarlega ekki að heilsa í Reykjavík þessa dagana."
Svo mörg voru þau orð.
Hvernig átti að hagræða?
Enn er því ósvarað hvernig í ósköpunum minnihlutinn í borgarstjórn hafði hugsað sér að hagræða í Reykjavík þetta árið. Sjálfstæðismenn hugðust enga skatta hækka, sem hefði stækkað gatið sem við þurftum að brúa um 810 milljónir króna. Þá peninga átti að ná í með grimmri hagræðingu á svið borgarinnar. Er einhver búinn að gleyma því hvað minnihlutinn fjargviðraðist yfir gjaldskrárhækkunum í borginni? Þær hækkanir skiluðu um 920 milljónum króna. Þá peninga átti líklega líka að ná fram með grimmri hagræðingu í skólum, velferð, frístund, menningu og framkvæmdum.
En þetta stóra gat er líka tilkomið vegna skýrrar forgangsröðunar meirihlutans til barnafjölskyldna og þeirra sem minnst mega sín. Þessi meirihluti hækkaði fjárhagsaðstoð til fátæks fólks í Reykjavík og hann jók framlög til Leikskólasviðs um nærri 500 milljónir króna milli ára til að standa straum af leikskólaplássum fyrir stærsta árgang Íslandssögunnar, og nýjum plássum hjá dagforeldrum.
Þessa forgangsröðun hefur Hanna Birna Kristjánsdóttir kallað ,,ýmis ný verkefni sem meirihlutinn kaus að setja peninga í".
Svona eins og leikskólapláss og fjárhagsaðstoð séu gæluverkefni.
Ég er þá stolt af því að forgangsraða í gæluverkefni, feykilega stolt.
Ef Sóley Tómasdóttir væri þingkona...
VG er svo sér kapítuli út af fyrir sig. Þar á bæ má ekkert hagræða. Ekki í harða geiranum, ekki í strætó, ekki í skólamálum, ekki í velferð og svo má alls, alls engar gjaldskrár hækka. Ég hef þó þá trú að Sóley Tómasdóttir hefði forgangsraðað í sömu ,,gæluverkefni" og við í meirihlutanum - en hvernig hún hefði hugsað sér að mæta fimm milljarða króna gati er enn ósvarað. Sóley Tómasdóttir væri líklegast komin með rekstur þessarar borgar út á næfurþunnan ís ef hún væri við stjórnvölinn.
Merkilegast er að hennar fólk í ríkisstjórn stendur í stórræðum, umdeildum, óvinsælum en umfram allt ábyrgum niðurskurði. Miðað við framgöngu Sóleyjar Tómasdóttur í umræðum um fjárhag Reykjavíkurborgar er ekki vafi í mínum huga hvernig hún hefði varið atkvæði sínu við afgreiðslu fjárlaga - væri hún þingmaður.
Hún hefði setið hjá. Ef ekki bara greitt atkvæði á móti.
Ég er hugsi yfir síðustu fjórum árum, þar sem ég hef setið sem minnihlutamanneskja í menntaráði, leikskólaráði og ÍTR. Ósköp mikið hefur verið hagrætt á þeim tíma. Í skólum, tónlistarskólum og leikskólum. Óteljandi oft sköpuðust tækifæri fyrir lýðskrum, maður minn. Við hefðum getað fyllt pallana af óánægðum foreldrum, kennurum, tónlistarfólki. Oft, margoft. Okkur var legið á hálsi fyrir að vera svona fjári ábyrg - ætliði ekkert að æsa ykkur yfir niðurskurði til skólamála?
Staða borgarinnar eftir efnahagshrun var okkur fullljós. Við hefðum þurft að gera slíkt hið sama. Þannig hagar ábyrgur minnihluti sér. Við hefðum farið ólíkar leiðir að einhverju leyti en mjög margt var óumflýjanlegt. Og allir vissu að árið 2011 yrði þungt, mjög þungt.
Ég hefði ekki breytt öðruvísi þó ég hefði átt kristalskúlu og séð fram í tímann. Séð hversu ævintýralega óábyrgur minnihlutinn í borgarstjórn er.
Hún er sannarlega skrýtin tík, hún pólitík.
04 apríl 2011
Minnihlutinn í borgarstjórn
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Þessi heimild hjá Guðmundi Ólafssyni skýrir hvernig allmargir stjórmálamann hugsa. Þeir líta á það sem skyldu sína að láta ykkur líta illa út, jafnvel þótt þeir séu sammála eitthverju sem þið gerið -því þannig komast þeir til valda sjálfir með óánægju kjósenda.
http://www.facebook.com/photo.php?fbid=192478720770476&set=a.101236606561355.2788.100000250493219&theater
Nú er blómatími lýðsskrumsins.
Flott grein
Ég hafði ágætis álit á Hönnu Birnu áður en hún fór í minnihluta
Núna þykir mér hún vera óskaplega óheiðarleg manneskja.
Ég held að fleiri sjái í gegnum þann leik sem hún er að leika
Áfram Oddný! Ég er íbúi í Reykjavík og þú átt minn stuðning og margra í kringum mig. Ég vona að það styrki þitt baráttuþrek.
Skrifa ummæli