23 júní 2008

Sumarmolar

Undarlega lítið hefur farið fyrir þessu í fréttum. Margar hugmyndir hafa verið á lofti um jafnréttissetur af einhverju tagi. Nú sér loks til sólar í því. Það gleður mitt femíníska hjarta að sjá utanríkisráðherra taka til óspilltra málanna í sínu ráðuneyti.

Ég eyddi gærdeginum í Viðey. Dásamleg perla sem sú eyja er og gaman að láta sig líða um grónar grundir og naga puntstrá í vel völdum lautum. Og sjá! Fyrir aftan Viðeyjarstofu eru hjól í öllum stærðum til afnota fyrir eyjagesti, sum þeirra með barnastól og allt.

Annars er nú lítið að frétta finnst konu. Dagarnir renna saman í sól og grillsælu. Þó eru tvær vikur í sumarfrí og í mörg horn að líta. Bóndinn er farinn í Hrísey með vel yddaða blýanta og hugur borgarfulltrúans leitar því óneitanlega í norðurátt.

Ekkert er þó fegurra en vorkvöld í Reykjavík. Nema kannski sumarkvöldin.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Legg til að utanríkisráðherra setjist í 1. bekk hins nýja jafnréttisskóla. Það gæti orðið ráðherranum veganesti við endurskoðun alræmdra eftirlaunalaga.

Skyldi hinn jafnréttissinnaði formaður hafa jafnrétti að leiðarljósi eða mun honum þykja rétt - eins og sumir - að vera sjálfur örlítið jafnari en aðrir?

Við vitum auðvitað nú þegar hið hryggilega svar. En um að gera að blaðra samt út og suður um jafnrétti.

Rómverji