30 júní 2008

Pælingar af Skólavörðuholti

Samkvæmt tíufréttum sjónvarps eru íbúar í grennd við Hallgrímskirkju að ærast yfir hávaða vegna lagfæringa á Hallgrímskirkju. Börnin mín eru á leikskóla við rætur kirkjunnar og ég verð að viðurkenna að mér varð ekki um sel þegar ég heyrði lætin - af lóð Grænuborgar. Þau voru ærandi og allt eins álitaefni hvort ekki þurfi að mæla hávaðann nú þegar börnin dvelja mestmegnis utandyra í góða veðrinu. 

Ánægjulegar fréttir af Skólavörðuholtinu eru þó þær að senn opnar kaffihús með íslenskum veitingum efst á Lokastíg. Þó Hallgrímskirkja sé ekki mjög frýnileg þessa dagana, klædd í stillansa og grænan vinnugalla, þá dregur hún marga ferðamenn upp á holtið sem hljóta að taka kaffihúsinu fegins hendi - það hefur lengi vantað huggulegt kaffihús á holtið fyrir þær þúsundir ferðamanna sem dóla sér í kringum kirkjuna á sumrin. 

Ég skellti mér á kaffihús í dag, nánar tiltekið blint kaffihús sem UngBlind stendur fyrir í húsnæði Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17. Stórkostleg upplifun, niðamyrkur og góður matur. Yfir borðum sagði sessunautur minn sögur af vinafólki sem stendur í þeim stórræðum að opna kaffihús. Leyfin, reglugerðirnar og kvaðirnar eru margar og merkilegar, t.a.m. er kveðið á um að engu færri en fimm vaskar séu í húsnæði kaffihússins. Fimm vaskar! Eru þrír ekki nóg?

Í kjölfarið leiddi ég hugann að aðstöðumálum frístundaheimila í borginni. Þau eru stundum allt annað en ásættanleg og lítið sér til sólar þó afar svört skýrsla hafi verið birt um aðstöðu frístundaheimila fyrir nokkrum mánuðum síðan. 

Af hverju gerum við minni kröfur til húsnæðis sem tugir, jafnvel hundruðir barna og fjölmargir starfsmenn þurfa að gera sér að góðu á hverjum degi - en húsnæðis sem fullorðið fólk rambar inn á öðru hverju til að drekka kaffibolla og gæða sér á samloku?

Pétur Gunnarsson er að hætta. Honum þakka ég styrka stjórn Eyjunnar og góða viðkynningu. Hann er naskur rýnir og sérdeilis vel giftur. Konan hans Anna Margrét starfar með mér að menntamálum og er margverðlaunaður leikskólastjóri í Reykjavík. 

Engin ummæli: