15 júní 2008

Ljómandi landnemar

Ný stjórn Landnemans var kosin á hressum fundi á Hressó í dag. Tæplega 100 manns mættu.
Landneminn er félag áhugafólks um fjölmenningu, umheiminn og sterka stöðu landnema í íslensku samfélagi. Félagið er tengt Samfylkingunni.


Stjórnin:


Petra Deluxsana, frá Tælandi. Sjálfstætt starfandi túlkur, fjarnemi í lögfræði og rekur gistiheimili. Petra hefur starfað með samfélagi Tælendinga á Íslandi, samtökum kvenna af erlendum uppruna og félagi Búddista.

Amal Tamimi, frá Palestínu. Túlkur og ráðgjafi í málefnum innflytjenda til margra ára. BA í félagsfræði frá Háskóla Íslands. Situr í innflytjendaráði. Rekur nú eigið fyrirtæki, Jafnréttishús, í Hafnarfirði. Formaður lýðræðis- og mannréttindaráðs Hafnarfjarðar. Starfar með samtökum kvenna af erlendum uppruna.

Luciano Domingues Dutra, frá Brasilíu. Er í mastersnámi í þýðingarfræðum og vinnur nú að íslensk-portúgölsku orðabókinni. Skrifaði BA ritgerð um íslensku landnemana í Brasilíu. Starfar sem þjónustufulltrúi hjá Tryggingastofnun.

Sema Erla Serdar, tyrknesk í föðurætt en ólst upp á Íslandi. Stundar nú nám við Keili í stjórnmálafræði. Ritstjóri Ungra Jafnaðarmanna á Suðurnesjum.

Bjartur Logi Ye Shen, frá Kína. Hagfræðingur og starfar hjá Glitni á alþjóðasviði. Situr í stjórn hverfafélags Samfylkingarinnar í vesturbæ.

Kolfinna Baldvinsdóttir, frá Íslandi. Fjölmiðlakona. Landnemi til tíu ára í Kosovo, Ítalíu, Belgíu, Washington og víðar.

Oddný Sturludóttir, frá Íslandi. Borgarfulltrúi. Fyrrum landnemi í Þýskalandi og Írlandi.

Heimskt er heimaalið barn. Það er gaman að tilheyra alþjóðasinnuðum flokki.

Engin ummæli: