15 október 2008

Grein dagsins er eftir Steinunni Valdísi

Margan lærdóm má draga af atburðum síðustu vikna og mikilvægasta lexían er sennilega sú að okkur beri að vanda til verka og láta ekki stundarhagsmuni og von um fljóttekinn gróða teyma okkur til aðgerða í blindni án þess að huga vel að afleiðingunum til lengri tíma.

Það skýtur því óneitanlega skökku við að nú séu uppi kröfur um að kasta til hliðar heildstæðu mati á umhverfisáhrifum vegna álvers á Bakka við Húsavík vegna þess að „við höfum ekki efni á að tefja álversframkvæmdir“ eins og það er orðað. Það eru að mörgu leyti skiljanleg viðbrögð að vilja grípa tafarlaust til verka í þeirri von að draga megi með einhverjum hætti úr höggþunga þeirra áfalla sem á okkur dynja. En allra síst nú getum við leyft okkur fljótfærni og óðagot sem kann að koma okkur í koll þegar fram í sækir.

Það blasir við öllum að lög, reglur og eftirlit vantaði sárlega í aðdraganda þess að alþjóðlega lausafjárkreppan skall á og allt hrundi. Við skulum því fara að lögum nú, hversu mjög sem einhverjum kann að þykja þau þvælast fyrir framkvæmdagleði.

Ytri aðstæður hafa sjaldan eða aldrei verið óhagstæðari. Lánstraust Íslendinga er lítið nú um stundir og ekki á bætandi að veikja það með frekari lántökum til uppbyggingar og stækkunar álvera. Það væri óábyrg hagstjórn að auka skuldir í stað þess að hægja örlítið á og endurvekja traust hérlendis og erlendis. Fjárfesting okkar í áliðnaði er gríðarleg og skuldirnar miklar vegna hans. Tekjurnar eru síðan að mestu leyti bundnar við álverð sem fer hríðlækkandi. Það er því alls óvíst að álver sé okkar besti orkunýtingarkostur til framtíðar.

Það er satt að við þurfum að lifa veturinn, en við þurfum einnig að huga að komandi árum og áratugum. Styrkjum undirstöðurnar undir efnahagslífið á þann veg að þær dugi einnig börnum okkar og barnabörnum. Við höfum verið óþyrmilega minnt á ábyrgð okkar gagnvart komandi kynslóðum.

Rísum undir henni.

(Birt með góðfúslegu óleyfi Morgunblaðsins)

Engin ummæli: