19 október 2008

Að lokinni veislu

Airwaves lokið - og mér allri lokið um leið. Það er óneitanlega þyngra undan dansfætinum þegar komið er á fertugsaldurinn svei mér þá.


Margt gladdi eyrað en það sem stendur upp úr er:

Norsk/sænska trúbadorínan Ane Brun sem söng eins og engill í erlendu-bóka-deildinni í Mál & Menningu.

(Það er reyndar merkilegt hvað bókabúðir eru almennt fínir tónleikastaðir, M & M er eins og sniðið fyrir tónleikahald).

Berserkjapoppsveitin Robots in Disguise frá Bretlandi var geggjuð. Eingöngu skipuð konum með rétt ,,attitude". Frábært band!

Lay Low var svo með dásamlega útgáfutónleika á fimmtudagskvöldinu í Fríkirkjunni - utan Airwavesdagskrár. Þar átti yðar einlæg litla en löðurmannlega innkomu í tveimur lögum - ljúf skylda og takk fyrir mig.

Á Café Rosenberg voru svo trúbatrixur Off-Venue og eins guðaði ég á glugga þegar Hjaltalín lék fyrir Skífugesti á laugardaginn.
Sitthvað meira sá ég og heyrði en rúsínan í pylsuendanum var FM Belfast. Þvílík hljómsveit - það var mannbætandi að gleyma sér í gleðisveiflu á þessum síðustu og kannski verstu tímum.
How to make friends heitir nýja platan þeirra og hún er frábær.

Engin ummæli: