Árið 2005 hlotnaðist mér sá heiður að flytja erindi á fjölskylduþingi Félagsmálaráðuneytisins í Iðnó. Þingið var rétt fyrir jól og markmiðið var að vekja athygli á hinum sönnu gjöfum jólanna sem varla verða mældar í peningum einum saman. Erindið heitir ,,Jólympíuleikarnir" og er hér í heild sinni.
Ég legg nú ekki í vana minn að lesa gömul erindi á mánudagskvöldum en rakst á eftirfarandi klausu sem mér finnst eiga vel við í dag:
,,Rétt eins og ólympíuleikarnir eru jólin dýr - og þá er alveg sama hversu útsjónarsamt og vel skipulagt fólk er. Gjafirnar, jólatréð, fínu fötin, jólaskrautið og steikin taka sinn toll og ég þekki engan sem hefur ekki eytt aðeins meira en hann ætlaði sér á jólunum.
Margir Íslendingar eiga sand af seðlum sem þeir dreifa frjálslega í kringum sig á jólunum sem og endranær. En þeir eru líka margir sem eiga lítið og líða fyrir það í desember. Það er skuggaleg staðreynd að einstæðir foreldrar sem rétt svo tekst að láta enda ná saman, eyða samt álíka miklu í gjafir handa börnunum sínum eins og þeir sem eiga fullt af peningum. Ástæðan er auðvitað sú að enginn vill verða eftirbátur hinna, viðmiðið er sett af þeim sem nóg eiga og hinir reyna að sigla með straumnum. Auðvitað er það vel meint, það vilja allir gleðja börnin sín á jólunum.
En getur verið að íslenska þjóðin kunni ekki að fara með peninga? Kunnum við að vera rík?
Vandi fylgir vegsemd hverri eins og sagt er - og það er vissulega stutt síðan við vorum fátæk bændaþjóð með hor í nös og galtóma vasa - en ég vil kalla hina vel stæðu til ábyrgðar í þessum efnum, því það fylgir því ábyrgð að eiga pening og með því að berast á og kasta þeim í rándýrar gjafir og ríkmannlegt jólahald eru margir aðrir settir í vandasama stöðu.
Fyrir utan það hvaða lærdóm börnin okkar draga af þessari gengdarlausu eyðslu. Og það sem er svo grátbroslegt er að dýru gjafirnar staldra ósköp stutt við í höll minninganna. Ef hópur barna er inntur eftir dýrmætustu jólaminningunni kemur í ljós að hún var alls ekki dýr - hún kostaði bara ekki krónu. Það rifjast upp snjóþotuferðir, jólaball eða heimsókn til ömmu og afa í piparkökur og kakó. Jafnvel ómerkilegur músastigi kemur upp í hugann.
Ef þessi sami barnahópur er inntur eftir jólagjöfum síðastliðinna ára verður oft fátt um svör."
20 október 2008
Jólympíuleikarnir nálgast
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli