06 október 2008

Í hita augnabliksins

Það er kannski best að bíta í tunguna á sér núna og segja sem minnst. 


En ég greip þó orð forsætisráðherra á lofti um að nú skuli aðlaga fjármálakerfið íslenskum aðstæðum.

Einmitt kæri forsætisráðherra. Og þá liggur beinast við að aðlaga íslenskt hagkerfi að því evrópska.

Nú er hugur minn hjá íslensku launafólki, fjölskyldufólki, láglaunafólki, nær öllum Íslendingum. 

Fólki sem þáði góð ráð hjá bönkunum og tók myntkörfulán, fólki sem keypti sér íbúðir á 90-100% lánum, fólki sem einfaldlega spennti bogann of hátt í góðri trú. Fólki sem hafði ekki kost á öðru því hvernig átti það annars að koma sér upp þaki yfir höfuðið???

Svo eru það allir hinir. Sem sátu á sér og voru skynsamir. Sem áttu sparnað. Þeim blæðir líka. 

Því það er alltaf svo - þegar öllu er á botninn hvolft - að það er blessaður almenningur sem tekur skellinn. 

Almenningur sem mátti horfa upp á misskiptingu auðsins vaxa, vaxa og vaxa. Og hallærislega lúxusstæla, kaupréttarsamninga og stjarnfræðilegar launaupphæðir sem venjulegu fólki flökraði við.

Nú skora ég (ég ætla að umorða þetta í hita augnabliksins). Nú hrópa ég á mitt fólk í ríkisstjórninni að standa í fæturna og krefjast þess að við horfum til framtíðar, stefnum á aðild að ESB og skiptum um gjaldmiðil í fyllingu tímans. Mér stendur innilega, hjartanlega og einlæglega á (skít)sama um það sem stendur í  stjórnarsáttmálanum á þessari stundu. 

Ég á tvö börn - þriggja ára og fimm ára. Þau eiga ekki að þurfa að upplifa þennan dag þegar þau eru komin á fullorðinsár. 

2 ummæli:

Haukur Már sagði...

Takk Oddný.

Það er skrítið að horfa upp á nær alla taka undir, fyrirvaralaust, að 1) vetri muni ljúka, 2) nú þurfi allir að snúa bökum saman og 3) í guðanna bænum nú megi allavega ekki fara að leita sökudólga – og það þurfi norskan fréttamann til að spyrja fulltrúa íslensks banka gagnrýnna spurninga. Til að gera hann vandræðalegan, þegar duglegu strákarnir virðast hafa sett landið á hausinn á fimm árum.

Á sviði hins táknræna, samræðunnar, stefnum við enn inn í krísu frekar en út úr henni á meðan enginn hefur þurft að skammast sín og engum hefur þurft að snúast opinberlega hugur.

Enginn hefur sagst hafa gert mistök. Og hvorki ríkisstjórn né stjórnarandstaða hafa sagt upphátt að hér hafi verið rekin röng stefna – hvað þá að önnur stefna sé í boði.

Stóra hættan er sú að við munum ekki snúa frá innlimun landsins í alþjóðafjármagn, heldur verði tækifærið nýtt til að virkja hraðar, leggja fleiri auðlindir, vinnustundir og langanir landsmanna undir í kerfinu sem kom okkur hingað.

Þetta er orðið of langt sem komment – meira síðar, annars staðar.

Kærar kveðjur,

Haukur Már Helgason.

Nafnlaus sagði...

Heyr, heyr!