01 október 2008

Hækkun leikskólagjalda

Það er ekki rétt sem kemur fram í máli forsvarsmanns Hjallastefnunnar í 24 stundum í dag að sjálfstætt reknir leikskólar í borginni fái lægri niðurgreiðslu en borgarreknir. Þvert á móti gerði t.a.m. Laufásborg glimrandi góðan samning við Reykjavíkurborg auk þess að fá afhentan rótgróinn hverfisleikskóla til einkareksturs. Laufásborg er með mun betri samning en flestir aðrir sjálfstætt reknir skólar og greiðslur til sjálfstætt rekinna leikskóla hafa hækkað til muna á þessu kjörtímabili.

Fyrir rúmlega ári síðan samþykkti meirihluti leikskólaráðs að ganga til samninga við Hjallastefnuna og fela þeim rekstur Laufásborgar. Við í Samfylkingunni greiddum atkvæði á móti vegna þess ákvæðis í samningnum að Laufásborg mætti hækka leikskólagjöldin. Fyrst í stað fylgdu leikskólagjöldin öðrum leikskólum en nú hefur Laufásborg ákveðið að hækka þau um 15%.

Að mínu mati hafa sjálfstætt reknir skólar borð fyrir báru til að mæta óvæntum útgjaldaliðum. Þeir eiga ekki að þurfa að hækka gjöld til foreldra og í þessu árferði finnst mér það með öllu ótækt. Ég hef í sannleika sagt áhyggjur af því að þessi meirihluti - sem svo einarðlega gengur fram í þágu sjálfstætt rekinna leikskóla á kostnað uppbyggingar almennra leikskóla - geti vel hugsað sér að gefa gjaldtöku í sjálfstætt reknum skólum algjörlega frjálsa.

Það væri gott að fá staðfestingu á því að svo er ekki.

Annars er hér að finna margvíslegan fróðleik um Hjallastefnuna, matsskýrslu um leikskóla sem starfar eftir hjallískri stefnu.

Engin ummæli: