14 október 2008

Framtíðin yfir grjónagrautnum

Sigurður Úlfar sendi inn langa athugasemd við síðasta pistli mínum sem ég eyddi fyrir gáleysi - ég biðst forláts á því. Þar hvatti hann mig og aðra sambandssinna til að nálgast umræðuna um ESB með haldbærum rökum og ekki sem trúarbrögð.


Ég gæti ekki verið meira sammála og tíni því til í fljótheitum - rétt á meðan grjónagrauturinn mallar - tíu góðar ástæður fyrir því að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. 

En fyrst - örstuttur formáli: 

Krónunni getum við því miður ekki treyst lengur, hún er of lítil. Upptaka annars gjaldmiðils er því óumflýjanleg. Það liggur beinast við að horfa til Evrópu og því eru allmargir sammála

En hér koma ástæðurnar tíu:

1) Gengissveiflur minnka strax við aðild og hverfa við upptöku evru. Það munar aldeilis um minna fyrir íslensk heimili og fyrirtæki.

2) Vextir lækka í 4-5% sem þýðir 700.000 sparnað á ári í vaxtakostnað fyrir fjölskyldu með 20 milljóna króna fasteignalán.

3) Matvælaverð lækkar um 20-25% sem kemur sér vel fyrir alla og best fyrir barnafjölskyldur og lágtekjufólk, öryrkja og aldraða. Heima hjá mér á Sjafnargötunni þýðir þetta hátt í 300.000 krónur á ári. 

4) Ísland fær bakhjarl í Evrópska seðlabankanum. Íslendingar munu ekki geta firrt sig ábyrgð á eigin hagkerfi en bakhjarlinn veitir okkur nauðsynlegan stöðugleika og tiltrú. 

5) Útflutningur til evrusvæðisins eykst til muna - landsframleiðsla sömuleiðis. 

6) Viðskiptakostnaður við evrusvæðið hverfur.

7) Íslenskur sjávarútvegur fær tollfrjálsan aðgang að mörkuðum í Evrópu, sem eykur virði aflans og skapar möguleika á frekari vinnslu á Íslandi. 

8) Evrópusambandið á ekki rétt á svo mikið sem einu kílói af kvóta í íslenskri lögsögu eins og löggjöf ESB er uppbyggð. Án undanþágu eða tilslakana. Þetta er staðfest af framkvæmdastjóra í málefnum Norður-Atlantshafsins hjá Evrópusambandinu. Ástæðan? Ekkert erlent ríki hefur veiðireynslu í íslenskri lögsögu. 

9) Íslenska landbúnaðarkerfið er eitt af þremur dýrustu landbúnaðarkerfum í heiminum. Aðild að Evrópusambandinu veitir bændum nauðsynlegt skjól vegna þeirra breytinga sem eru framundan á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og nauðsynlegt rekstraröryggi. 

10) Atburðir síðustu vikna sýna svo ekki verður um villst að Ísland verður fyrir beinum áhrifum af alþjóðlegum atburðum. Með aðild að ESB endurheimtum við möguleikann á að móta eigin framtíð og hafa áhrif á heimsatburði. Fullveldi Íslands eflist við Evrópusambandsaðild. 

Engin trúarbrögð hér á ferð. Gott væri að fá haldbær rök á móti fyrir því hvaða gjaldmiðil við ættum að taka upp nú þegar krónan hefur runnið sitt skeið á enda? 

En nú er grauturinn tilbúinn. Steingrímur Hermannsson sagði síðast þegar þjóðarskútan fékk alvarlega ágjöf að nú þyrfti fólk að sýna aðhaldssemi og elda grjónagraut. Hann mælti með því að láta grautinn standa í korter á eldavélinni eftir að slökkt hefur verið undir. Síðan þá hefur mín fjölskylda ávallt farið að þessum ráðum og grauturinn heppnast undantekningarlaust vel. 


1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mæl þú kvenna heilust!
Berglind Rúnarsdóttir