07 október 2008

Raunverulegir vinir

Ég tek það fram að ég vil ekki sjá þessa ríkisstjórn klofna. Ég styð mitt fólk af öllum mætti - ríkisstjórnina í heild sinni styð ég af veikum mætti. 


Stjórnarkreppa er ekki á efnahagskreppuna bætandi. En eftir dæmalausar yfirsjónir í efnahagsstjórn síðastliðins áratugar hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn að sjá sóma sinn í því að horfa til framtíðar. 

Við þurfum ofboðslega mikið á framtíðinni að halda núna. 
Framtíðin er í Evrópu. Þar eigum við heima. Í Evrópusambandinu er samtrygging milli þjóða. Raunverulegar vinaþjóðir. 

Og eins og allir vita þá vaxa menn af sannri vináttu - þeir minnka ekki.* 

Bandaríkjamenn skulda okkur ekki neitt - why should they? 
Ef Rússalánið gengur eftir skuldum við Rússum helling. Það er nú engin draumastaða.

*Þetta er skot á hina hlægilegu minnimáttarkennd þeirra sem halda að Ísland tapi sjálfstæði sínu og minnki á einhvern hátt við að ganga í Evrópusambandið. 

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já - það sem við þurfum á að halda er samstaða. Hana er sko ekki að finna í ESB eins og greinilega hefur sést á síðustu dögum. Þar er hver þjóð fyrir sig.

Nafnlaus sagði...

Fæ ekki séð af sögunni að evrópuþjóðir hafi verið einhverir sérstakir vinir okkar ! Ef fólk er það ungt að það man ekki eftir útfærslu landhelgi okkar þá man það varla tímana tvenna , við þurftum að berjast fyrir þeim rétti ein og óstudd af öðrum "vinveittum evrópuþjóðum"og nota bene þurftum við að berjast við þær um þennan rétt! það var ekki fyrr en að við lýstum yfir að við mundum leyta stuðnings frá Rússum að NATO ákvað að stíga inn ! Sem við vorum reyndar aðilar að !
En okkar barátta borgaði sig fyrir þá sem áttu tilkall að fiskveiðilögsögu og var fordæmisgefandi því að það fylgdu allir í kjölfarið á okkur og færðu sína landhelgi út !
ESB nei takk!
Bjóðum Rússana frekar velkomna þeir hafa hjalpað okkur oft áður án bindandi skilyrða s.b.vöruskifti o.fl
Múrarinn

Nafnlaus sagði...

Sæl Oddný,
ESB eða ekki ESB má ekki snúast um einhver trúarbrögð. Ef við teljum hagsmunum okkar betur fyrir komið innan ESB þá sækjum við um aðild að ESB. Ef við sjáum fleiri tækifæri utan ESB þá höldum við okkur þar.
Núna er svo sannarlega EKKI tími til að sækja um aðild að ESB. Þegar við sækjum um aðild þá þurfum við að vera sterk og í besta mögulega formi. Við verðum að hafa samningsstöðu. Við verðum að ganga knarrreist inn í ESB ef við förum þangað á annað borð. Ekki sem einhverjir ölmusuþegar. Ef við færum núna hefðum við enga samningsstöðu.
Til að fá að taka upp Evru þurfum við að uppfylla Maastricht ákvæðin um lága verðbólgu, lága vexti og almennt frábært efnahagslíf. Spurningin er; þegar við náum þeirri efnahagslegu stöðu er þá örugglega ástæða til inngöngu? Stöndum við þá ekki bara nokkuð vel sjálf?

ESB þjóðir hafa farið síst betur út úr ógöngum undanfarinna vikna en aðrar þjóðir. Fjöldi banka í Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi, Írlandi, Danmörku og víðar hafa annað hvort verið teknir yfir eða þeim hjálpað yfir hjallann. Lítið hefur verið um samræmdar aðgerðir innan ESB eða Evrusvæðisins. Hver þjóð hefur arkað í sína átt á grundvelli sinna eigin hagsmuna og látið sig litlu skipta hvaða áhrif það hefði handan landamæranna. ESB hefur ekki skorað hátt undanfarið.

Er meiri velsæld innan ESB? Nei, þrjár ríkustu þjóðir Evrópu eru Svisslendingar, Norðmenn og (a.m.k. fyrir hálfum mánuði síðan) Íslendingar. Er það orsök eða afleiðing að þær eru allar utan ESB?

Við þurfum að meta hagsmuni okkar ískalt vegna þess að með því að opna inn til ESB þá lokum við öðrum dyrum að baki okkar.
Við erum með EES samninginn. Getum við gert svipaðan næstum-því-aðildarsamning við NAFTA? Getum við orðið millistykkið milli ESB og NAFTA? Hverjir eru möguleikar okkar þegar flug og siglingar hefjast yfir pólinn til Asíu? Getum við þá verið millistykkið (t.d. fríverslunarsvæði) milli Evrópu, Ameríku og Asíu? Hvaða nýju tækifæri munu opnast á næstu áratugum? Hverju erum við að fórna með inngöngu? Við verðum að skoða BÆÐI plúsana og mínusana.

Pössum okkur. Þetta eru ekki trúarbrögð eða kappræður. Þetta er ískalt hagsmunamál og ég endurtek að við megum alls ekki fara í viðræður fyrr en við höfum náð okkur upp úr þeim öldudal sem við nú erum í. Aðeins þá munum við fá inngöngu á OKKAR forsendum.

Ps. Ég hef ekki endanlega markað mér skoðun á því hvort mér finnst við ættum að vera innan ESB eða ekki. Í aðild að ESB eru margir plúsar og margir mínusar.

Oddný er sagði...

Sæll Sigurður !

Þarna var þá athugasemdin þín, ég hélt þú hefðir skilið hana eftir við aðra færslu og var skelkuð um að ég hefði eytt henni - kíktu á næstnýjustu færsluna og það útskýrir heilmargt.