21 október 2008

Sigtúnshópurinn

Ein sterkasta almannahreyfing á sviði húsnæðismála sem sprottið hefur upp hér á landi er Sigtúnshópurinn. Sigtúnshópurinn var grasrótarhreyfing og náði miklum áhrifum með kraftmiklum aðgerðum í stuttan tíma. 


Frægur Sigtúnsfundur var haldinn haustið 1983 og hertók alla fjölmiðlaumræðu um langt skeið. Starfið hélt áfram um einhverja hríð en lognaðist út af á tveimur árum. 

En fyrir hverju barðist fólkið í Sigtúnshópnum? 

Vorið 1983 var launavísitalan tekin úr sambandi en lánskjaravísitalan látin halda sér. Lánin ruku upp úr öllu valdi en launin stóðu í stað og fólk stóð ekki í skilum. Fólk lenti í miklum vandræðum því lánabyrðin varð meiri en verðmæti eignanna. 

Þetta var kallað hið fræga ,,misgengi". Það rímar óneitanlega við verðtryggingardrauginn sem nú bankar upp á hjá fólki með fasteignir á íslenskum lánum. 

Pabbi minn, Sturla Þengilsson, sást lítið heima hjá okkur í Dísarásnum sumarið og haustið 1983 enda á kafi í baráttunni með Sigtúnshópnum. Hann minnist þessa tíma með miklu stolti og ég hef hann grunaðan um að vera eilífur aðdáandi Ögmundar Jónassonar eftir þeirra kynni.

Ég yrði ekki hissa ef skilgetið afkvæmi Sigtúnshópsins sprytti upp fljótlega. 

Ég heyrði afar skýra konu mæla á fundi Samfylkingarinnar um daginn. Sú var stærðfræðikennari og hún sagðist hafa reiknað það út með nemendum sínum að best væri fyrir fólk sem væri með fasteignir á íslenskum lánum og stæði í sæmilegum skilum - að hætta að borga af íbúðinni og láta bankann hirða hana. Svo hratt brenni inneignin upp ef verðbólgan æðir af stað. Þó miðaði hún við varkárar verðbólguspár. 

Ætli hún hafi þá ekki gert ráð fyrir því að leigja í kjölfarið. 

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvað ætlar Samfylking að gera Oddný? Nú berast af vþí fréttir að bankar og aðrar fjármálastofnanair fari sínu fram og setji skuldurum afarkosti. Ráðherrar eru múlbundnir og grunaðir um að hafa lofað almenningi of miklu. Samfylkingin er ágóðir leið með að sogast í sama fúla pyttin og sjálfstæðisflokkurinn. Sem stuðningmaður Samfylkingarinnar þá sýnist mér að þeir þingmenn sem mæla gegn kosninum hafi bundið hollustu sína ivð íhaldin frekar en kjósendur.Það hefur verið framið EFNAHAGSLEGT LANDRÁÐ og það styttist í að stjórnvöld missi tökin á ástandinu, nema það hafi þegar gerst.

Nafnlaus sagði...

Ögmundur er besti þingmaður Íslands.

Sorglegt hve hallur hann er undir ólukkumanninn í Seðlabankanum. Raunar ábyrgðarlaust.

Rómverji

Nafnlaus sagði...

Ég á íbúð með verðtryggðu íslensku láni og er í skilum. Hvernig útskýrir þessi kona það að betra sé fyrir mig að láta bankann "hirða" hana? Hvar á ég að búa eftir það? Kv. Solveig

skuldari sagði...

Ég var í Sigtúni og þetta er ekki rétt hjá þér en kannski er þetta dæmigerð lýsing á því hvernig íslenskt samfélag virkar:

Það eru talin ÁHRIF að hafa komist í fjölmiðla. Það breyttist ekkert til batnaðar, það var sett á verðtrygging og hún var svo flókin að almenningur hefur látið sig hafa það allar götur síðan að greiða okurvexti!

Sigtúnshópurinn náði engum raunverulegum áhrifum. Hann var bara frægur og skilaði að vísu Ögmundi inn á þing!

skuldari sagði...

Sólveig, þegar afborgunin af láninu hefur hækkað svo mikið að þú ræður ekki við greiðslur með góðu móti, þá borgar sig að hætta að borga, búa í nokkra mánuði ókeypis á meðan þú leitar að leiguíbúð. Það tekur bankanna og Íbúðalánasjóð nokkra mánuði að taka íbúðina þína uppí skuldina!
Margir eru í þessari stöðu bráðum.

skuldari sagði...

Ég hef grun um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi farið í stjórn með Samfylkingunni til að eyðileggja Ingibjörgu Sólrúnu sem öflugan stjórnmálamann.
Sjallarnir eru á móti aðild að Evrópusambandinu og gera hvað sem er til að eyðileggja alla umræðu um það.

Nafnlaus sagði...

Já; - aðgerðarhópur til að berjast fyrir frystingu vísitölu til verðtryggingar - - er að verða til. Forgangsverkefni til að fjöldinn allur af yngri fjölskyldum missi ekki húsnæðið og móðinn - - og algert grundvallaratriði til að koma í veg fyrir að þeir sem tekið hafa lán verði ekki að þrælum þeirra sem hafa lánað "ofmetnar gamlar krónur"