30 október 2008

Af stelpusigrum, kreppumat og fréttamati

Stelpurnar fara á EM. Og við förum í ESB. Við munum ekki ganga þangað inn bein í baki - verðum meira svona borin inn á sjúkrabörum. En það er eins með lífið og fótbolta. 


Sumir leikmenn eru bornir út af á börum.   

Íslenska kvennalandsliðið er slík ljóstýra í myrkrinu að leitun er að öðru eins ! Takk stelpur fyrir frábæran fótbolta, frábæra liðsheild og frábæra stemningu. 

Við hjónin horfðum á boltann á meðan við þrifum og affrystum ísskáp og frystihólf. Það tók sinn tíma og eitthvað var um útrunnar vörur sem enduðu í ruslinu. Að verki loknu horfðum við á tandurhreinan ísskápinn og ósköp var hann snautlegur. Enda erum við orðin svo samansaumuð í seinni tíð að það er varla keypt í matinn. Brokkolísúpa var t.a.m. í matinn í kvöld. 

Sem eru svosem engar fréttir nema hún var líka í matinn í fyrrakvöld. 

Stefnan er tekin á að borða okkur út úr eldhúsinu. Tæma lagerinn. Nýta það sem til er. Og það reyndist vera til óskaplega mikið af brokkolísúpu. 

Nú virði ég fyrir mér efstu hilluna í brakandi hreinum ísskáp og óttast að við deyjum úr áður óþekktum næringartengdum meltingarstíflum því ég tel 23 krukkur með sólþurrkuðum tómötum, pestó, ólífum, Taco-sósu, rauðbeðum og kokkteilsósu, barbequesósu, undarlegri rauðvínssultu, grillsmjöri, capers og síld.  

En við hljótum að geta soðið pasta með og gert gott úr þessu. 

Allt er þetta spurning um framreiðslu. Eins og þetta hér
Ef kona væri virkilegt kvikindi myndi hún spyrja sig af hverju fyrirsögnin væri ekki: 

Þriðji minnsti flokkur á Íslandi.

Engin ummæli: