16 desember 2008

Ó, Grænaborgin...

Dóttir mín þriggja ára kom í dag heim með skýrslu úr þemastarfi frá leikskólanum. Þar kenndi ýmissa grasa. ,,Ég sjálf/ur og líkaminn minn" var þema haustannar og ég sé ekki betur en að allir þættir mannlegra kennda hafi komið þar við sögu.

Ég er víst ein af mörgum mæðrum sem alltof oft fá á tilfinninguna að þær gefi börnunum sínum ekki nægilega mikinn tíma. En nú rifjast upp fyrir mér margar stundir með dóttur minni þar sem hún hefur uppfrætt mig um bragðlauka, hor, tásur, enni, hósta, hopp, óhollan mat, maga, skemmdar tennur, augnalit, salt & súrt, litlu beinin í eyrunum, Beethoven (Óðinn til gleðinnar, óðurinn til eyrans...), lopa, bómul, heitt & kalt, mjúkt & hart, klístur, krakka í Afríku, einhenta sjóræningja, slaka vöðva, samvinnu, hjólbörulabb, veik börn á barnaspítala Hringsins, hákarla (meinta hákarla) í fiskabúri, blóð sem geymt er í banka, kisukúk og hátterni hamstra.

Nú veit ég hvaðan hún hefur vitneskjuna. Því allt þetta lærir lítil kona í leikskóla í dag. Er það ekki stórkostlegt! Ég hef lengi sagt að íslenskir leikskólar væru á heimsmælikvarða. Og ef einhver rengir mig þá skora ég þann hinn sama á hólm á Arnarhóli með gamaldags sverð - jafnvel byssusting, hvenær sem er.

Ég þakka fyrir það framsýna fólk sem barðist fyrir faglegum, frábærum leikskólum á sínum tíma. Ég þakka starfsfólki Grænuborgar fyrir stórkostlegt starf og alúð. Snillingar, öll með tölu.

Og þó að pólitíkin geti verið gefandi, viðurkenni ég fúslega að ég óska þess oft að ég gæti skipt við dóttur mína.

Þó ekki væri nema fyrir einn og einn dag á Grænuborg...

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mikið vildi ég að borgarfulltrúar gætu sýnt það í verki við starfsmenn leikskólanna að þeim þætti starf þeirra gott. Eins og staðan er nú er varla hægt að borga af minnstu íbúðum á leikskólakennaralaunum. Það er nöturleg staðreynd að við getum ekki gefið leikskólakennurum færi á að greiða af íbúðum með barnaherbergi.

Héðinn Björnsson

Oddný er sagði...

Kæri Héðinn

Það er sannarlega nöturleg staðreynd og starfsfólk leikskóla er ekki eina stéttin sem á erfitt með það. ,,Vilji er allt sem þarf" var sagt um Steinunni Valdísi þegar hún sem borgarstjóri hækkaði laun þeirra lægst launuðu á leikskólunum - og í kjölfarið hækkuðu laun leikskólakennara og komust á par við grunnskólakennara í flestum tilvikum.

Það fyrsta sem Tjarnarkvartettinn gerði var að setja á svokallað ,,neysluhlé", sem þýðir að starfsmönnum leikskóla er greidd yfirvinna þegar þeir matast með börnunum. Það hefur leitt af sér ca. 10 yfirvinnutíma á mánuði fyrir starfsmann leikskóla og hækkaði laun þeirra í samræmi við það.

Haraldur sagði...

Og hvað heldur þú að það sé langt í að 10 tímarnir verði teknir af starfsfólki leikskóla í RVK? Það er búið að gera það í Hafnarfirði. Þið gleymduð (meðvitað eða ómeðvitað) að dagsetja samninginn. Þess vegna (að ég held) er þriggja mánaða uppsagnarfrestur á honum.

Ég held að eina ástæðan fyrir því að ekki er búið að segja samningnum upp er sú að verið er að bíða eftir því að leikskólakennarar samþykki kjarasamninginn. Kjarasamning sem hljóðar upp á ca 20 þúsund kr hækkun Veistu hvað gerist þá? 10 tímunum sem samsvarar ca 30 þúsund kr verður sagt upp og leikskólakennarar lækka um ca 10 þúsund kr á mánuði. Með öðrum orðum. Leikskólakennarar í Reykjavík samþykkja launalækkum. Snilld?



Haraldur F Gíslason

ps: Rosalega er ég orðinn þreyttur á því að það sé verið alltaf verið tönglast á því að einu sinni vorum við leikskólakennarar næstum því á pari við grunnskólakennara. Eins og það sé eitthvað stórkostlegt markmið allra leikskólakennara. Ég skrifaði aldrei upp á það.

Oddný er sagði...

Sæll Halli

Það hefur nú verið mikilvæg barátta leikskólakennara í gegnum tíðina að vera á pari við grunnskólakennara og liður í þeirri baráttu var að breyta starfsheitinu úr fóstru í kennara og síðar lögverndun starfsheitisins.

Við höfum barist fyrir því að neysluhléð haldi sér en þeirri baráttu er ekki lokið. Spyrjum að leikslokum með það.

Haraldur sagði...

Það getur vel verið að það hafi verið mikilvæg barátta einhverja leikskólakennara í gegnum tíðina. Ég sagði ekkert um það. En ég tók aldrei þátt í þeirri baráttu

Oddný er sagði...

Sæll aftur

Það þarf kannski að fara aftur fram umræða um það meðal stéttarinnar við hvað á að miða? Hefur sú umræða farið fram? Stendur hún yfir? Kjarabarátta gengur heilt á litið út á það að miða sig við aðra sem vinna svipuð störf, gegna sömu ábyrgð, hafa svipað nám á bak við sig.

En það þarf þá að ríkja sátt um það í stéttinni við hvaða hóp á að miða - og stefna svo á kjarabót út frá því.

Ekki satt?