10 nóvember 2008

Vestmannaeyjar

Við hjónaleysin dvöldum í Vestmannaeyjum um helgina. Menningarhátíðin ,,Safnahelgi á Suðurlandi" var vel heppnuð en það var ekki síst merkilegt fyrir mig og bóndann að heimsækja eyjarnar því þangað höfðum við hvorugt komið áður.

Nú höfum við margsinnis séð myndir frá Eyjum, þó það nú væri. En náttúrufegurð staðarins greip okkur slíkum heljartökum að við munum vart annað eins. Skaparinn var sannarlega í góðu skapi þegar Eyjar urðu til þó þá sami skapari hafi nú oft látið óþyrmilega fyrir sér finna á staðnum með tilheyrandi eldglæringum og hættuspili hamfara.

Vestmannaeyjagosið, Tyrkjaránið og þetta einstaka bæjarstæði gera Vestmannaeyjar að sagnfræði- og náttúrufræðilegri perlu. Eyjafjallajökull í seilingarfjarlægð, Heimaklettur og eyjarnar í kring eru sem vinalegir tröllkarlar og bærinn sjálfur er snotur.

Kristín Jóhannsdóttir ferðamálafulltrúi Vestmannaeyja og fleiri góðir heimamenn gerðu helgina ógleymanlega, við þökkum fyrir gestrisnina og leggjum nú drög að fjölskylduferð til Eyja næsta sumar.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvernig má það vera að þið hafið aldrei komið til Vestmannaeyja? Á þennan frábæra stað!

Oddný er sagði...

Kæri nafnlaus !

Það er með öllu óskiljanlegt að við höfum ekki komið fyrr til Eyja - reginhneyksli!

Nafnlaus sagði...

Það var virkilega gaman að fá ykkur í heimsókn hingað til Eyja og vonandi sjáum við ykkur sem fyrst aftur.

kv,
Sigurður E. Vilhelmsson

Oddný er sagði...

Sæll Sigurður -

Takk fyrir góða viðkynningu og gangi ykkur allt í haginn. Hátíðlegt loforð hefur verið gefið á heimilinu að koma næsta sumar og ungviðið mun sjá um að rukka það loforð -

svo við sjáumst næsta sumar. Bið að heilsa.
Oddný

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir frábær ummæli um okkur hér í eyjum. Við erum á fallegasta stað á Íslandi og hér er gott að búa. Velkomin aftur fljótlega.
Kveðja Aldís