07 nóvember 2008

1999-2007

Það er leitun að öðrum eins árangri í að jafna launamun kynjanna og annan ómálefnalegan launamun og Reykjavíkurborg hefur náð. Í tíð Reykjavíkurlistans urðu straumhvörf í jafnréttismálum. Konum var treyst fyrir stjórnunarstöðum og fjölgaði um mörg hundruð % fyrstu árin eftir að Ingibjörg Sólrún og félagar tóku við stjórnartaumunum. Það hafði gríðarleg margföldunaráhrif í för með sér, ekki síst fengu konur jákvæðar fyrirmyndir, mikilvæga starfsreynslu og tækifæri. Fjölgun kvenna í stjórnunarstörfum hefur beina fylgni við minni kynbundinn launamun.

Reykjavíkurlistinn lagðist einmitt til atlögu við þann landsins forna fjanda; kynbundinn launamun. Innleiðing starfsmats gegndi þar mikilvægu hlutverki og samkvæmt viðamikilli rannsókn Önnu Borgþórsdóttur Olsen sem má lesa úrdrátt úr hér hafði það geysilega mikið að segja í að ráða niðurlögum kynbundins launamunar.

Anna rannsakaði launamun starfsmanna í fullu starfi í októbermánuði 1999, 2001, 2003, 2005 og 2007 óháð stéttarfélagi og vinnustað/sviði. Í ljós kom að dagvinnulaunamunur kynja fór úr 15% í 4% þegar tekið er tillit til aldurs, starfsaldurs hjá borginni, þjóðernis og flokkunar starfa samkvæmt starfsmati. Heildarlaunamunur kynja hefur minnkað minna eða úr 14% í 9% á tímabilinu og er sambærilegur við það sem er lægst samkvæmt erlendum könnunum.

Enn þarf þó að rannsaka margt, t.a.m. hvort greiðslur fyrir yfirvinnu og akstur séu á einhvern hátt ómálefnalegar en þessir tveir þættir hafa mikil áhrif á mismun heildarlauna. Eins er athyglisvert að fleiri karlar eru í starfsmatinu enda standa enn stórar kvennastéttir eins og kennarar og leikskólakennarar utan starfsmatins. Í ljósi þess hve jákvæð áhrif starfsmatið virðist hafa haft í baráttunni gegn kynbundnum launamuni held ég að aðkallandi sé að skoða hvort þessar stéttir eigi ekki fara í gegnum starfsmatskerfið.

Það skiptir máli hverjir stjórna. Enn á ný hefur Reykjavíkurlistinn sannað það.

Eitt stingur þó í augu. Kynbundinn launamunur er vissulega ómálefnalegur launamunur en af hverju að skipta um orðfæri nú þegar launamunur stafar yfirleitt af kynferði? Ég er ekki viss um að ég hætti að tala um kynbundinn launamun og taki upp ,,ómálefnalegur launamunur" í stað þess.


Svipuð umræða poppar upp öðru hverju hjá hægri mönnum sem vilja ekki tala um jafnrétti, heldur mannréttindi. Ég kýs að tala um bæði jafnrétti og mannréttindi - og veitir víst ekki af.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er alveg ljóst að það er betra að hafa Framsóknarflokkinn með í meirihluta - en eins og alþjóð veit var Framsókn límið í R-listanum sem náði þessum árangri. Einnig að ekki hefur verið unnt að stjórna borginni án Framsóknar á kjörtímabilinu.
:)

Kveðja
Hallur M

Oddný er sagði...

Kæri Hallur

Þetta er laukrétt hjá þér - og það er vel geymt leyndarmál að Alfreð Þorsteinsson er eitt helsta ,,guiding light" femínísta í Reykjavík.

Það er sannarlega leiðinlegt hvað borgarbúar kunna Framsóknarflokknum litlar þakkir fyrir þeirra ómetanlega & límkennda framlag til borgarmálanna.

Rifjaðu nú upp með mér hvað Framsókn hefur verið að fá í skoðanakönnunum? Þrjú prósent? Eða kannski tæplega það?