27 nóvember 2008

Kynbundinn launamunur

Þetta er með öllu ólíðandi. Sérstaklega nú í upphafi efnahagslægðar en sagan sýnir að kynbundinn launamunur eykst í harðæri.

Enn og aftur sannast það að ætlum við að bægja þessum landsins forna fjanda frá þarf að samþætta kynjasjónarmið æðstu stjórnum, setja málið stíft á dagskrá og hvika hvergi. Það þarf pólitískan vilja, kraft og þor. Það þarf að ráða konur í stjórnunarstöður, það þarf að gæta grimmilega að réttlátri skiptingu karla og kvenna í ráðir, stjórnir og nefndir og það þarf að útbúa tæki á borð við óháð starfsmat.

,,Það þarf að hugsa um þessi mál sem hvítvoðung á brjósti" sagði skemmtilegur femínisti eitt sinn við mig. Jafnréttið kemur nefnilega ekki með kalda vatninu og gerist ekki af sjálfu sér.

Reykjavíkurlistinn hafði þessi mál einmitt á brjósti en nýjasta rannsóknin sýnir að á milli áranna 1999 og 2007 fór kynbundinn launamunur hjá Reykjavíkurborg, þeim risastóra starfsstað, úr 15% í 4%. Það er árangur.

19,5% ómálefnalegur munur á launum karla og kvenna á Íslandi er hneisa.

26 nóvember 2008

Hvernig er staðan hjá fólkinu í borginni?

Þessari spurningu ætlar Reykjavíkurfélag Samfó að svara í kvöld, 26. nóvember, á opnum fundi í Ölduselsskóla. Við ætlum þó ekki að svara þessu sjálf heldur munu fulltrúar frá SAMFOK, ÍR, kirkjunni, þjónustumiðstöðvum, Ungmennaráðum, Félagi eldri borgara, Reykjavíkurdeild Rauða Krossins, Myndlistaskólanum, Alþjóðahúsi, ÍTR, leikskólum og skólum borgarinnar leita svaranna með okkur. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Nefndin.

Kærleikskúlan

Í dag var Halaleikhópnum afhent Kærleikskúlan. Kúlan sú er hönnuð af Gjörningaklúbbnum og er ákaflega kyssileg eins og sjá má hér. Það er Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra sem veitir kúluna ár hvert og selur svo óróa á aðventu til styrktar starfseminni.

Pabbi minn Sturla Þengilsson hefur starfað í stjórn Styrktarfélagsins í fleiri ár ef ekki áratugi - og nú er hann formaður stjórnar. Pabbi fékk lömunarveikina sem barn og er bæklaður á öðrum fæti. Lömunarveikin varð að faraldri í Reykjavík á 6. áratugnum og ekki sluppu öll börn jafn vel og pabbi.

Styrktarfélagið er heppið að njóta krafta pabba og það er engan bilbug á félaginu að finna í kreppunni. Meðal annars vígðu þau nýbyggingu við húsnæði sitt að Háaleitisbraut fyrir skömmu.

24 nóvember 2008

Háskólabíó

Megi forsvarsfólk opnu borgarafundanna fá þakkir fyrir sitt framtak. Fundurinn í kvöld var gríðarlega kröftugur og voru Þorvaldur Gylfason og Margrét Pétursdóttir fremst meðal jafningja. 


Það er grátlegt að gjáin milli þings og þjóðar hafi fengið óhindrað að breikka svo síðastliðin áratug að fundir sem þessir nái flugi fyrst þegar íslenskt samfélag logar stafna á milli. 

Samtal þings og þjóðar á að vera sífellt og lifandi. Það er hlutverk stjórnmálafólks framtíðarinnar að sjá til þess. 

Þegar ég verð sextug

Undarlegur hrollur læddist upp eftir bakinu á mér við lestur þessa ljóðs: 


Þjóðskörungur
leiddi þjóð sína
ódeigur
inn í árþúsund
nýrra vona, 
nýrra hugsjóna.
Heill sér þér Davíð
Hannesar jafni. 

Ljóðið er eftir Halldór Blöndal. Frumflutt í sextugsafmæli vinar hans Davíðs Oddssonar. Og ort til hans. Ekki eru það öfugmælin sem valda hrollinum heldur eitthvað annað sem tengist körlum sem of lengi hafa setið á valdastólum. Nú er ég komin á hættulegu kvenrembu-fínu-línuna mína og ætla því að láta staðar numið. 

En ég segi þó þetta: Þegar ég verð sextug þá vona ég sannarlega og innilega að Bryndís Ísfold, Sigríður Ingibjörg og aðrar stórvinkonur mínar úr pólitíkinni yrki ekki upphafið ljóð til mín og lesi upp í stórum sal fullum af fólki. (Heill sér þér Oddný, valdanna kyrja...)

Ég vona að við fáum okkur bara í glas og skellum okkur svo í karókí. 

Saga af lítilli þjóð

Þetta ljóð fékk ég sent frá félaga mínum Reyni en hann er faðir 11 ára upprennandi skáldkonu - Þórhildar Reynisdóttur. Ég fékk leyfi þeirra til að birta ljóðið hér. 

Ég ætla að segja þér sögu af lítilli þjóð,
sem stritað hefur í aldir sæl og rjóð.

Allir vildu vel og hjálpuðust að,
Það var í þátíð, þannig var það,

Svo tók yfir þjóðina klár maður mjög,
þó hann og hans menn þekktu engin lög,

Hans flokksmenn hræddir fylgdu með,
þorðu ekkert að segja enda bara peð,

úr ráðherrastóli hann gamall steig niður,
héldu þá menn að yrði loks friður,

En þá fór hann í bankann og tók fjármálin yfir,
og flokkurinn í hans stjórn enn lifir,

Hann neitaði vexti að lækka,
og í staðinn skuldir fólksins hækka,

Hann tók sína menn á næturfund,
þeir keyptu banka, léttir í lund,

og menn á hausinn fara eftir hlutabréfaleik,
því þjóðin sparaði ekki og er peningaveik,

Nú er það svart og engin von,
og hver verður NÆSTI Davíð Oddsson?

Fólkið & flokkurinn

Ég lít ekki svo á að réttmæt krafa fólksins um kosningar snúist um flokkshagsmuni. Að þeir sem vilji kosningar séu að hugsa um flokkinn, ekki fólkið. Ég styð minn flokk til allra góðra verka og get vart hugsað þá hugsun til enda að annar flokkur væri í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í þessum hremmingum.


En þegar kemur að réttmætri kröfu fólksins um kosningar, sem og kröfu til þess að ráðherra bankamála segi af sér er ég Ingibjörgu Sólrúnu ósammála. Mér fannst hún gera því skóna í gær að þeir sem vilji kosningar, vilji þær af því Samfylkingin er í sterkri stöðu og það henti henni ágætlega núna. Það er ekki svo. Við viljum kosningar áður en kjörtímabilið er úti því ríkisstjórnin þarf að endurnýja umboð sitt. Þingmennirnir verða að leggja störf sín í dóm kjósenda.

Allt er gjörbreytt. Eftir ótrúlegar hamfarir blasir við allt annað landslag og nýir árfarvegir hafa myndast. Þetta er ekki sama Ísland og vorið 2007. Langt í frá. Lýðræðisvakning hefur átt sér stað á Nýja-Íslandi og takturinn er þungur. Stjórnvöld verða að dansa með. Eina aðferðin til að tryggja að Alþingi endurspegli þetta nýja landslag er að efna til kosninga og í framhaldinu verður til ný ríkisstjórn. Þjóðin getur ekki haldið niðri í sér andanum í þrjú ár til viðbótar.

Krafan um að einhver segi af sér er líka afar réttmæt. Og nú er ég ekki bara að vísa til afsagna Seðlabankastjóra og þeirra sem fóru fyrir eftirlitsstofnunum, heldur stjórnmálamanna úr báðum stjórnarflokkum. Ég er að vísa til ráðherra fjármála og viðskipta. Ég er ekki sammála því að bíða verði rannsóknar á því hver raunverulega á sökina. Það er þæfingur og gamaldags viðhorf í þessu samhengi. Sök er eitt - ábyrgð er annað. Nútímalegir, evrópskir jafnaðarmenn vita það.

Björgvin er ekki sekur en hann ber ábyrgð sem ráðherra. Bankakerfið hrundi á vakt Björgvins og Árna Mathiesen, hversu vel eða illa sem fólki finnst þeir hafa staðið sig og hversu stór eða lítil sök þeirra reynist vera. Þeir flutu kannski sofandi að feigðarósi eins og svo ósköp margir aðrir. En ólíkt okkur sem erum leikmenn á velli, á varamannabekk eða úti í kanti - þá sitja þeir á valdastólum. Og þeirra er ábyrgðin.

Og fyrst ég er farin að grípa til fótboltalíkinga þá mætti allt eins fjalla um þessa hlið málsins sem inn-á-skiptingu. Ráðherrum skipt út af og öðrum inn á. Eins og einhver orðaði það á flokksstjórnarfundinum: Það mætti gjarnan ,,fríska upp á" ríkisstjórnina.
Ég hef heyrt þau sjónarmið að það sé óþolandi að ætlast til þess að við sýnum manndóm í þessum efnum á meðan þeir sem raunverulega hafa stýrt hér málum í 17 ár sitja fastir sem hrúðurkarlar á steini. (Það er jú engin trygging fyrir því að Árni fari þó Björgvin fari, meira að segja harla ólíklegt). Minnug erum við þess að Þórólfur Árnason reyndist eini maðurinn sem axlaði ábyrgð á olíusamráðshneykslinu - en furstarnir sátu áfram.

Með sömu rökum væri hægt að segja: Það borga nú ekki allir skattinn sinn - af hverju ætti ég að gera það? Nei. Samfylkingin er nú í ríkisstjórn í fyrsta skipti. Látum þess sjást stað að hún er ólík öðrum flokkum. Gerum kjósendur okkar stolta af okkur.

Kröftug umræða var á flokksstjórnarfundinum í gær. Það var mikilvægt. Margir vildu kjósa, margir vildu uppstokkun og margir voru á annarri skoðun. Ingibjörg Sólrún færði skýr rök fyrir máli sínu og var fylgin sér þó að henni tækist ekki að sannfæra alla fundargesti. Ég er þó sammála flestum fundarmönnum um eitt: Það er gott að hún er komin til baka og það af slíkum styrk að gneistaði af henni í ræðustól.

Nú fer í hönd tími sem reynir sannarlega á flokkinn. Og fólkið sem í honum er.

21 nóvember 2008

Heimgreiðslur í Kópavogi & Reykjavík

Orðrétt úr fundargerð bæjarráðs Kópavogs frá því í gær:

,,Frá bæjarstjóra, tillaga að breytingum á reglum um heimgreiðslum.Lagt er til að 2. gr. 3. mgr. verði “Heimgreiðsla fellur niður þegar barn nær tveggja ára aldri eða fyrr ef það fær vistun á leikskóla” í stað “Heimgreiðsla fellur niður þegar barn hefur leikskólagöngu.” Bæjarráð samþykkir tillöguna með fjórum greiddum atkvæðum. (Innskot OS: ekki afturvirkt)

Þetta þýðir einfaldlega það að Kópavogur er að taka afar skynsamlegt skref í átt frá heimgreiðslukerfinu. Áður var það svo að foreldrar í Kópavogi gátu valið heimgreiðslur umfram leikskólavist - óháð aldri barnsins. Foreldrar 3, 4 og 5 ára gamalla barna fengu greitt frá bænum ef þeir þáðu ekki leikskólapláss. Þessi ráðstöfun hefur einfaldlega ekki gefist vel, hvorki í Kópavogi né annars staðar, t.d. í Noregi. Ein birtingarmynd þess er að börn sem hafa annað móðurmál en norsku sleppa leikskólagöngunni alfarið sem hefur gríðarlega neikvæð áhrif á málþroska þeirra og velferð í grunnskólanum.

Þá er reynsla Kópavogsbúa sú að nú þegar syrtir í álinn hjá fjölskyldum hafa konur valið í ríkara mæli að fara heim, þiggja heimgreiðslur og börnin verða af leikskólagöngu. Út frá bæði jafnréttissjónarmiðum en ekki síst þroska- félagsfærni og uppeldissjónarmiðum er það varhugavert.

Eftir að hin nýja samþykkt tekur gildi í Kópavogi breytast heimgreiðslurnar sumsé í þjónustutryggingu, þ.e.a.s. ef leikskólapláss er sannarlega ekki í boði fyrir börn yngri en 2ja ára fá foreldrarnir greitt. Annars ekki.

Þetta höfum við bent á að þurfi að gerast í henni Reykjavík. Nú er næg þjónusta í boði fyrir börn yngri en 2ja ára enda leikskólar nær fullmannaðir. Hins vegar er ákvæði í reglum um þjónustutryggingu sem kveður á um að hún sé valkvæð. Því hefur Kópovogsbær nú breytt og spurning hvað Reykjavíkurborg gerir.

Nú förum við Bryndís Ísfold í Kópavoginn og tollerum Gunnar Birgisson!

Að láta sér ekki standa á sama

Það er mikil deigla í félagsstarfi Samfó þessa dagana. Sleitulausir fundir Framtíðarhópa allra málefna hafa farið fram síðastliðna 10 daga og í fyrrakvöld mættu 70 manns á aðalfund Samfylkingarinnar í Garðabæ. Það ágæta sveitarfélag hefur nú ekki beinlínis verið höfuðból flokksins og mér skilst að í fyrra hafi mátt telja aðalfundarfulltrúa á fingum annarrar handar. Þessi mæting segir sína sögu. 


Nýskráningum í flokkinn fjölgar jafnt og þétt og mæting á fundi slær met á hverjum degi. Sellufundi má finna í eldhúsum út um alla borg, alla morgna og öll kvöld. 

Fólk er óánægt, það þyrstir í lýðræði og samræðu. Það styður sitt fólk og gagnrýnir sitt fólk, það skilgreinir jafnaðarstefnuna í gjörbreyttu samfélagi og talar sig hást um pólitík, ný gildi, velferð og jafnrétti. Fólk talar um Evrópu og framtíðina. Fólk hefur áhyggjur og ber von í brjósti.

Það sem meira er um vert; fólk skráir sig til leiks og vill taka þátt í endurmótun samfélagsins. 

Nú er ekki tími til að sitja hjá og láta sér standa á sama. 

20 nóvember 2008

Bóndabeygja

Þórunn og Björgvin stíga fram og segjast vilja kosningar á næsta ári. Áður hafði Ágúst Ólafur lýst því yfir og nú taka Katrín, Steinunn Valdís og Ellert undir


Og það er ekki rétt sem fram kemur á Eyjunni að Ingibjörg Sólrún hafi einungis talað fyrir kosningum að loknu hefðbundnu kjörtímabili. Það hefur reyndar lítið farið fyrir ummælum hennar í Morgunblaðsviðtali fyrir tæpum þremur vikum en þar var hún innt eftir mögulegum kosningum. Hún nefndi að það væri óábyrgt að ganga burt í miðjum björgunarleiðangri en mælti svo: ,,Svo kemur nýtt ár og þá verða menn að meta stöðuna".
 
Það eru tæpar sex vikur til áramóta.
Sjálfstæðisflokkurinn er kominn í óþægilega bóndabeygju. 

Ég tók snarpan snúning á bloggsíðum Samfylkingarfólks í kvöld. Til sjávar og sveita, af öllum aldri og báðum kynjum. Samhljómurinn er nær algjör. Krafan um virkt lýðræði, lifandi samræðu og siðbót stjórnmálanna.   

Þess vegna gengum við til liðs við Samfylkinguna. Og hún hefur aldrei átt jafn mikið erindi við íslenskt samfélag sem nú. En hún þarf að finna rauða þráðinn sinn á nýjan leik. Hina lifandi samræðu sem er forsenda allra framfara. Og hún þarf að endurnýja umboð sitt. Hjá því verður ekki komist. 

(Hvað þá Sjálfstæðisflokkurinn eftir sín 17 ár á valdastóli. En ég eftirlæt samviskusömum flokksmönnum hans um uppbyggilegt aðhald fyrir sína forystu. Kona getur nú ekki gert allt sjálf...)

Er mig að dreyma?

Á morgun hyggjast ríkisstjórnarflokkarnir leggja fram frumvarp til breytingar á eftirlaunalögunum svokölluðu. 

Guð láti á gott vita. 

Ætli það sé Valgerðar frumvarp Bjarnadóttur - óbreytt? Það hlýtur að vera því tíminn er naumur. Ekki nema nýtt frumvarp hafi verið unnið að næturþeli og án þess að spyrjast út.

Opinn fund venligst

Samkvæmt nýlegum samþykktum geta fundir þingnefnda nú verið sendir út beint. Ég treysti Árna Páli og Ágústi Ólafi til að tryggja að þessi fundur verði öllum aðgengilegur.

Og engin vettlingatök strákar.

Jæja

Jæja. Nú verður að lyfta pottlokinu. Nú er IMF í höfn og lán frá öðrum þjóðum. Í Samfylkingu hefur fólk setið á sér - að svo miklu leyti sem það er hægt. Nú kemur suðan upp.

Jæja. Nú verður að taka ákvörðun um framhaldið - Hverjir bera ábyrgð? Ætla þeir allir að sitja áfram? Hverjir sátu í ráðuneytum fjármála og viðskiptamála, eftirliti og seðlabanka á meðan þessi ósköp dundu yfir? Ætla þeir að sitja áfram á meðan óháðir aðilar rannsaka málið? Eru það ekki sjálfsagðir mannasiðir að víkja sæti á meðan þjóðin sleikir sárin? Er það ekki forsenda heiðarslegs uppgjörs?

Jæja. Nú er þolinmæðin á þrotum. Við sem styðjum Samfylkingu og störfum innan hennar raða gerum meiri kröfur til hennar en samstarfsflokksins. Honum verður seint bjargað. Hann er ekki leiðarvísir þeirra sem aðhyllast lýðræðisleg stjórnmál og nútímaleg vinnubrögð. Hann er gamaldags valdaflokkur á villigötum. Í þá átt má Samfylkingin ekki stefna.

Jæja. Er ekki fokið í flest skjól þegar menn eru tilbúnir til að fara í meiriháttar stjórnkerfisbreytingar, sameina tvö kerfi með tilheyrandi fyrirhöfn, allt til þess að á bréfinu geti staðið: ,,Vegna skipulagsbreytinga verðum við því miður að tilkynna þér að starf þitt hefur verið lagt niður frá og með áramótum..."

Jæja. Er það ekki bara eins og að veigra sér við því að segja starfskrafti upp störfum - og leggja þess í stað niður fyrirtækið svo hægt verði að sveigja hjá því.

Jæja. Nú er tími óþægilegra ákvarðanna upp runninn.

Smugan

www.smugan.is er komin í loftið og lofar góðu. Þessi færsla er mögnuð. Og ég spyr eins og aðrir: Hver hefði trúað því?!

Skólar hér og í Danmörku

Hér má lesa frétt þess efnis að Danir stefna á að börn með sértæka örðugleika stundi nám í almennum hverfisskólum. Danir hafa verið miklir eftirbátar okkar Íslendinga þegar kemur að þeim sjálfsögðu mannréttindum barna að stunda nám í sínum hverfisskóla. Íslendingar standa sig vel að þessu leyti en hér á landi stundar um 1% barna nám í sérskólum, í Danmörku eru þau á milli 2-3% og í Finnlandi eru þau á milli 5-7%.

Það sem stingur mig þó er að stefnubreytingin er í hagræðingar- og sparnaðarskyni - ekki á forsendum réttinda barnanna. Ég held að Danir séu hér á miklum villigötum því skólastefna sem byggir á því að skólinn sé án aðgreiningar er enginn sparnaður fyrir skólakerfið í aurum og krónum talið. Það þarf mikið átak, viðhorfsbreytingu og fjármagn til að gera hverfisskólum mögulegt að mæta börnum með ólíkar þarfir. Þetta eru stærstu áskoranir íslensks skólakerfis, hér eftir sem hingað til. Út í slíka breytingu verður ekki farið á forsendum fjármagns, heldur forsendum sjálfsagðra mannréttind. Þar þarf að koma til einbeittur vilji stjórnvalda til að breyta samfélaginu til hins betra og skapa lærdómssamfélag þar sem hver og einn fær að njóta sín.

Danir eru reyndar óþroskaðri en við í skólamálum að mörgu öðru leyti, t.a.m. í orðræðu. Ég var í Kaupmannahöfn í vor og kíkti gjarnan á danska sjónvarpið á kvöldin. Í einum fréttatímanum var viðtal við borgarpólitíkus um aðstæður barna sem höfðu villst út af hinum gullna meðalvegi. Og það var ekki verið að skafa utan af því. "Problem-börn" var yfirskrift fréttarinnar og stjórnmálamaðurinn notaði trekk í trekk þetta orð yfir hópinn sem átt var við.

Vandræðabörn. Það eru mörg ár síðan við þroskuðumst upp úr slíku orðfæri. Guði sé lof.

19 nóvember 2008

Heyr heyr heimspekingar v/ Háskóla Íslands

,,Þegar brugðist er við vanda af þessu tagi sem leggur þungar byrðar á alla landsmenn er brýnt að dreifa þeim byrðum á sanngjarnan hátt. Mikilvægast er að tryggja öllum grundvallarforsendur þess að þeir geti tryggt sér og sínum farborða og gert áætlanir um líf sitt.

Sérstaklega þarf að standa vörð um hagsmuni þeirra sem eiga á hættu að missa húsnæði, flosna upp úr námi eða missa lifibrauð sitt. Í þessu tilliti verður líka að huga vel að kjörum barna, bæði með því að styðja við bakið á barnafjölskyldum og treysta eftir megni þær stofnanir sem ásamt foreldrum bera ábyrgð á menntun og uppeldi barna.

Hagur barna er mál þjóðarinnar allrar og prófsteinn á Ísland sem velferðarríki. Það er líka réttlætismál að ekki verði lagðar óhóflegar byrðar á þá hópa sem ekki eiga sér sterka málsvara, svo sem komandi kynslóðir og erlenda ríkisborgara sem hér búa.

Jafnframt verður að koma í veg fyrir að auður safnist á fárra manna hendur eða að einstaklingar njóti forréttinda í krafti aðstöðu sinnar. Einnig er brýnt að við enduruppbyggingu íslensks samfélags verði þau gildi höfð að leiðarljósi sem taka mið af lífi og viðhorfum beggja kynja og margbreytileika íbúa landsins. Nú veltur allt á að viðbrögð við yfirstandandi kreppu verði til þess að efla lýðræði á Íslandi og festa réttarríkið í sessi. Það er ekki síður mikilvægt að byggja upp réttnefnt lýðræðissamfélag en að koma fjármálum ríkisins í eðlilegt horf."

18 nóvember 2008

Svartar tölur

Það er gríðarlegt áhyggjuefni hversu hátt brottfall er úr framhaldsskólum á Íslandi. Brottfallið hefur lengi loðað við framhaldsskólastigið en í ljósi efnahagsástandsins eru þessar tölur svartari en áður. Í skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar segir að ásamt fjármálakreppunni ógni brottfall úr framhaldsnámi framtíð íslenska vinnumarkaðarins.

Það segir sig sjálft því tvöfalt meira atvinnuleysi er meðal ófaglærðra en þeirra sem ljúka námi. Ástæður brottfallsins eru eflaust margar:

1) skipulag framhaldsskólans
2) mikil áhersla á bóklegt nám
3) lítil tenging við grunnskólann
4) Mikil vinnugleði fólks á aldrinum 16-25
5) Lítil virðing fyrir menntun?

Samkvæmt norrænum könnunum vinna íslensk ungmenni á þessum aldri mest allra með námi í öllum heiminum. Þetta breytist hratt þessa dagana og mikil hætta skapast í kjölfarið á því að ungir Íslendingar hætti námi vegna tekjumissis.

Ég var mjög ósátt við að kosningamál Samfylkingarinnar um ókeypis námsbækur fyrir framhaldsskólanema næði ekki inn í stjórnarsáttmálann. Jafnt aðgengi ungs fólks að menntun er forgangsmál hjá þjóð sem státar ekki af betri árangri í menntun þegna sinna en þetta. Ég vona sannarlega að stjórnvöld séu með aðgerðaráætlun á prjónunum til að sporna við brottfalli nú í vetur og þann næsta.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að sveitarfélögin eigi að reka framhaldsskólana, hið minnsta að rekstur þeirra og skipulag verði í nánu samstarfi við grunnskólann. Þar með næst samfella í menntun fólks frá 1-20 ára. Nýju grunnskólalögin kveða á um fræðsluskyldu til 18 ára aldurs sem leggur meiri ábyrgð á hendur hins opinbera - og ætti að herða stjórnvöld í baráttunni við brottfallið.

Sveitarfélögin sinna því sem stendur íbúunum næst; þjónustu við fjölskyldur, menntun, velferðarþjónustu, menningu, skipulagsmálum og samgöngum. Til þess að þau geti styrkt sig enn frekar verða þau að fá fleiri verkefni í fangið.

10 nóvember 2008

Fjör í Framsókn

Innansveitarkrónikur Framsóknar mega eiga eitt. Þær hafa gríðarlegt skemmtanagildi, myndmálið er óvenju sterkt og raunveruleikinn oft lygilegri en nokkur skáldsaga. 

Ég held það hljóti að verða fjör á laugardaginn

Vestmannaeyjar

Við hjónaleysin dvöldum í Vestmannaeyjum um helgina. Menningarhátíðin ,,Safnahelgi á Suðurlandi" var vel heppnuð en það var ekki síst merkilegt fyrir mig og bóndann að heimsækja eyjarnar því þangað höfðum við hvorugt komið áður.

Nú höfum við margsinnis séð myndir frá Eyjum, þó það nú væri. En náttúrufegurð staðarins greip okkur slíkum heljartökum að við munum vart annað eins. Skaparinn var sannarlega í góðu skapi þegar Eyjar urðu til þó þá sami skapari hafi nú oft látið óþyrmilega fyrir sér finna á staðnum með tilheyrandi eldglæringum og hættuspili hamfara.

Vestmannaeyjagosið, Tyrkjaránið og þetta einstaka bæjarstæði gera Vestmannaeyjar að sagnfræði- og náttúrufræðilegri perlu. Eyjafjallajökull í seilingarfjarlægð, Heimaklettur og eyjarnar í kring eru sem vinalegir tröllkarlar og bærinn sjálfur er snotur.

Kristín Jóhannsdóttir ferðamálafulltrúi Vestmannaeyja og fleiri góðir heimamenn gerðu helgina ógleymanlega, við þökkum fyrir gestrisnina og leggjum nú drög að fjölskylduferð til Eyja næsta sumar.

Kostir & gallar

Nú um mundir er eðlilegt að fólk velti fyrir sér hvort hreinlega ætti að skipta um gjaldmiðil, taka upp evru einhliða. Hér er fín analýsa hjá Eddu Rós Karlsdóttur þar sem kostir og gallar einhliða upptöku eru reifaðir.

Það væri auðvitað best ef stjórnvöld myndu reikna eins nákvæmlega og þau geta við þessar kringumstæður hvort borgaði sig fyrir okkur: að fleyta krónunni með tilheyrandi kostnaði og áhættu - eða skipta út gjaldmiðlinum sem Edda Rós telur að kosti í kringum 500 milljarða.

Ég finn það á fólki í kringum mig að sú óþægilega tilfinning er til staðar að við séum að setja óheyrilega fjármuni til bjargar ónýtum gjaldmiðli.

Síðan er það hið pólitíska áhættumat. Best færi auðvitað á því að ganga inn um aðaldyrnar í stað þess að taka upp evruna einhliða þvert á vilja Evrópusambandsins, valda með því óþarfa úlfúð og kannski meira vantrausti í alþjóðasamfélaginu.

Ég er hjartanlega ósammála Sirrýju Hallgrímsdóttur vinkonu minni og stjórnarkonu í Hvöt þar sem hún segir í Mogganum í dag að ESB-aðild eigi ekki við núna. Höfuðatriðið er í raun ekki hvort ESB-aðild framkvæmi kraftaverk fyrir íslenskt efnahagslíf akkúrat í dag, þó ég sé sannarlega þeirrar skoðunar að það sé þjóðþrifamál að sækja um. Höfuðatriðið er að flokkarnir geri það upp við sig hvort Ísland eigi heima í Evrópusambandinu eður ei.

Það fer að verða ansi knýjandi að flokkarnir komist að niðurstöðu í þeim efnum.

Ég heyrði í Vikulokunum að Valgerður Sverrisdóttir hafi komið með merkilega yfirlýsingu. Þáttastjórnandi spurði Valgerði hvort hún styddi Guðna Ágústsson sem formann, í ljósi slæmrar útkomu flokksins í skoðanakönnunum. Svarið var einfalt og n.k. á þessa leið:

,,Ég tel ekki tímabært að ræða það núna".

Heyrir það ekki til nokkurra tíðinda að varaformaður styðji ekki formann sinn opinberlega?
Nú hafa flest kjördæmafélög Framsóknar sent frá sér ályktanir síðustu daga. Mikil áhersla er lögð á Evrópusambandið í þeim ályktunum.

Miðstjórnarfundur Framsóknar næstu helgi stefnir í að verða spennandi.

07 nóvember 2008

Þrándur, Brúnn og Gunnar

That´s funny. Litlir fuglar úr öllum flokkum hvísla því stöðugt að mér að helstu þrándar í götu afnáms eftirlaunafrumvarpsins komi úr stjórnarandstöðunni. Annar er frá Brúnastöðum og hinn frá Gunnarsstöðum. 

Það fer að verða þröngt í kjöltu Davíðs. 

1999-2007

Það er leitun að öðrum eins árangri í að jafna launamun kynjanna og annan ómálefnalegan launamun og Reykjavíkurborg hefur náð. Í tíð Reykjavíkurlistans urðu straumhvörf í jafnréttismálum. Konum var treyst fyrir stjórnunarstöðum og fjölgaði um mörg hundruð % fyrstu árin eftir að Ingibjörg Sólrún og félagar tóku við stjórnartaumunum. Það hafði gríðarleg margföldunaráhrif í för með sér, ekki síst fengu konur jákvæðar fyrirmyndir, mikilvæga starfsreynslu og tækifæri. Fjölgun kvenna í stjórnunarstörfum hefur beina fylgni við minni kynbundinn launamun.

Reykjavíkurlistinn lagðist einmitt til atlögu við þann landsins forna fjanda; kynbundinn launamun. Innleiðing starfsmats gegndi þar mikilvægu hlutverki og samkvæmt viðamikilli rannsókn Önnu Borgþórsdóttur Olsen sem má lesa úrdrátt úr hér hafði það geysilega mikið að segja í að ráða niðurlögum kynbundins launamunar.

Anna rannsakaði launamun starfsmanna í fullu starfi í októbermánuði 1999, 2001, 2003, 2005 og 2007 óháð stéttarfélagi og vinnustað/sviði. Í ljós kom að dagvinnulaunamunur kynja fór úr 15% í 4% þegar tekið er tillit til aldurs, starfsaldurs hjá borginni, þjóðernis og flokkunar starfa samkvæmt starfsmati. Heildarlaunamunur kynja hefur minnkað minna eða úr 14% í 9% á tímabilinu og er sambærilegur við það sem er lægst samkvæmt erlendum könnunum.

Enn þarf þó að rannsaka margt, t.a.m. hvort greiðslur fyrir yfirvinnu og akstur séu á einhvern hátt ómálefnalegar en þessir tveir þættir hafa mikil áhrif á mismun heildarlauna. Eins er athyglisvert að fleiri karlar eru í starfsmatinu enda standa enn stórar kvennastéttir eins og kennarar og leikskólakennarar utan starfsmatins. Í ljósi þess hve jákvæð áhrif starfsmatið virðist hafa haft í baráttunni gegn kynbundnum launamuni held ég að aðkallandi sé að skoða hvort þessar stéttir eigi ekki fara í gegnum starfsmatskerfið.

Það skiptir máli hverjir stjórna. Enn á ný hefur Reykjavíkurlistinn sannað það.

Eitt stingur þó í augu. Kynbundinn launamunur er vissulega ómálefnalegur launamunur en af hverju að skipta um orðfæri nú þegar launamunur stafar yfirleitt af kynferði? Ég er ekki viss um að ég hætti að tala um kynbundinn launamun og taki upp ,,ómálefnalegur launamunur" í stað þess.


Svipuð umræða poppar upp öðru hverju hjá hægri mönnum sem vilja ekki tala um jafnrétti, heldur mannréttindi. Ég kýs að tala um bæði jafnrétti og mannréttindi - og veitir víst ekki af.

Vilji er allt sem þarf

Nú þegar stendur fyrir dyrum að raða í bankaráðin er gríðarlega mikilvægt að hópurinn sem valinn er verði sem fjölbreyttastur. Ekki bara karlar á vissum aldri heldur líka starfsmenn úr bönkunum sem fengu aldrei að móta stefnu sinna fyrirtækja síðastliðin sex ár. Líka almenna borgara sem nýta sér þjónustu bankanna. Líka fólk úr háskólanum og ekki bara viðskiptadeildunum heldur menntavísindadeildunum, siðfræðideildunum, heimspekideildunum og félagsvísindadeildunum. 


Vissuð þið að 80% af starfsmönnum bankanna eru konur? Gjaldkerar, þjónustufulltrúar, konur sem gegna ýmsum afar mikilvægum störfum í fjölbreyttum deildum bankanna? 

Atvinnulýðræði er lítið sem ekkert á Íslandi. Atvinnulýðræði er það þegar starfsmenn fyrirtækja, almennir starfsmenn ,,á gólfinu" fá að móta og hafa áhrif á sýn fyrirtækjanna sem þeir starfa fyrir. 

Kynjajafnrétti er lítið sem ekkert á Íslandi þegar kemur að þessum hlut þrátt fyrir stórlega aukningu og yfirburði kvenna þegar kemur að menntun síðastliðin ár. 

Síðan er auðvitað hægt að taka sér Steinunni Valdísi til fyrirmyndar og ganga enn lengra. 

Ríkisstjórnin má ekki falla á prófi númer tvö nú þegar 8 af 35 framkvæmdastjórum bankanna eru konur. Það er brot á jafnréttislögum fjandakornið!

06 nóvember 2008

Bless mislægu gatnamót

Sigur íbúasamráðs og skynsamlegrar samgöngustefnu hefur verið unnin í henni Reykjavíkurborg. Horfið hefur verið frá hugmyndum um þriggja hæða mislæg gatnamót á vegum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. 


Þar með hefur eitt helsta stefnumál Sjálfstæðisflokks (og F-lista) í síðustu borgarstjórnarkosningum verið slegið út af borðinu. 

Fyrir tilstuðlan Samfylkingar var settur á fót samráðshópur um umferðarmál á gatnamótunum sem í sátu fulltrúar frá einum öflugustu íbúasamtökum borgarinnar, íbúasamtökum Hlíðahverfis. Eftir að hópurinn hafði vegið og metið helstu sjónarmið, íbúatölur og önnur gögn náðist samstaða um að leggja Miklubraut í stokk og láta núverandi gatnamót halda sér að öðru leyti. 

Okkar maður Stefán Benediktsson, elsti varaborgarfulltrúinn en engu að síður síungur, sat fyrir okkar hönd í hópnum. Frábær félagi, arkitekt, húmanisti og húmoristi. Hann hefur sannarlega staðið vaktina í þessari vinnu. 

Þöggun í boði Sjálfstæðisflokksins

Það hlýtur að vera fokið í flest skjól þegar sitjandi þingmenn - og öflugar konur í meirihluta kvarta sáran undan því að vera sniðgengnar þegar meiriháttar ákvarðanir eru teknar fyrir hönd þjóðarinnar. Kannski ætti þjóðin ekki að einblína á vonlausa þingmenn og tala fyrir fækkun þeirra. Kannski ættum við að tala fyrir því að hlustað sé á þá fulltrúa sem hún kaus!


Guðfinna, Ólöf og Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafa allar talað opinskátt gegn peningamálastefnunni, sitjandi Seðlabankastjórn og með Evrópusambandsaðild. 

Ætli samflokksmenn þeirra séu að ,,taka þöggunina á´etta"? Refsa þeim fyrir óhlýðnina? Það hefur verið gert gagnvart hugrökkum sannleiksleitandi konum í gegnum tíðina. Með góðum árangri. Því er nú verr og miður. 

Haldið áfram baráttunni stelpur. Þjóðin er í gíslingu Sjálfstæðisflokksins og þið eruð eina vonin.

05 nóvember 2008

Forgangsmál

Þetta er gaman að sjá. Til að forgangsakreinarnar virki verða aðrir ökumenn að virða þær.

Sólarglætan

Sólarglætan í svartnættinu er sigur Barack Obama. 


Vonandi bíður bandarísku þjóðarinnar betri tíð með meiri jöfnuði, meira réttlæti og auknu jafnrétti. 

Vonandi. 

04 nóvember 2008

Konur sem þora

Einhverra hluta vegna eru konur fljótari að kveikja á því að peningamálastefnan sem rekin hefur verið á Íslandi er útrunnin vara. 

Þorgerður Katrín, Valgerður Sverrisdóttir og nú Ragnheiður Ríkharðsdóttir

Áður hafa Guðfinna Bjarnadóttir og Ólöf Nordal viðrað svipaðar skoðanir. 

Ekki þarf að taka fram að konurnar í Samfylkingunni eru á þeirri skoðun að lofta þurfi hressilega út, fitja þurfi upp á nýjum aðferðum og hætta að stappa í sama spínatinu

Í svipinn man ég ekki eftir konu í Frjálslynda flokknum sem hefur tjáð sig um Evrópumál. 
Ég man reyndar ekki eftir konu í Frjálslynda flokknum yfirhöfuð nú um mundir. 

Þá er einn flokkur eftir. Og nú bíðum við eftir skynsamri kvenmannsrödd (einhverri rödd ef út í það er farið) frá Vinstri hreyfingunni grænu framboði. Konu sem áttar sig á vanda heimila og fyrirtækja. Nauðsyn alþjóðlegrar samvinnu. Framtíðinni.
Konu sem skynjar hinn þunga nið tímans.

Anyone?

Stóri (þriðju)dagurinn

Bandaríkjamenn hafa löngum haft áhyggjur af dræmri kosningaþátttöku þar í landi. Margt kemur til; fyrirkomulag kosninganna hefur löngum þótt flókið og gamaldags og traust manna á kosningakerfinu er skiljanlega ekki beysið - sér í lagi eftir nauman sigur Bush yngri þar sem sterkur grunur lék á svindli. Þrýstihópar hafa þótt rýra áreiðanleika frambjóðenda vegna fjárausturs í kosningabaráttuna og svona mætti lengi telja. 

En stóra spurningin er:

03 nóvember 2008

Amma hans Obama látin

Madelyn Dunham, amma Baracks Obama er látin, 86 ára að aldri. Hún hafði barist við krabbamein um hríð. 

Það er líklega ekki hægt að setja sig í spor manns sem barist hefur dag hvern í eitt ár fyrir því að verða forseti Bandaríkjanna. Hvernig líður honum daginn fyrir kjördag? Hvernig líður konunni hans og börnum? 

Sama dag missir hann ömmu sína sem skipti hann gríðarlega miklu máli. 

Ég óska Obama góðs gengis á morgun. Og vona heitt og innilega að hann fari með sigur af hólmi og fari betur með vald sitt en forveri hans.  

Óheppilegt

Birgi Ármannsyni þykir vanhæfissjónarmið ekki eiga við í máli þeirra ágætu manna sem fengnir hafa verið í eitt mikilvægasta og mest áríðandi verkefni næstu daga, vikna og mánaða. 

Þrátt fyrir það eru þessir tveir menn feður sona sinna, og synirnir eru þræltengdir fyrirtækjum sem eru þræltengd bönkunum sem þessir feður eiga að rannsaka. 

Birgi þykir þó óheppilegt þegar slík tengsl eru til staðar en það er svona meira eins og hvert annað hundsbit. Eða jafnvel eitthvað sem við getum alls ekkert aðhafst gegn. 

Svona dálítið eins og þjóðin telji 1.790 íbúa og háskólarnir hafi ekki útskrifað lögfræðinga síðan á 7. áratugnum. 

Hvorugt á við. 

Og ráðning þeirra á heldur ekki við. 

Húmor

Oft var þörf - en nú er það algjört möst - sagði meistari Megas eitt sinn á degi íslenskrar tungu. 

Oft var þörf til að halda í húmorinn en nú er nauðsyn. 

Dæmi: Vinkona mín skrapp í Vesturbæjarlaugina um daginn. Hún keyrir bíl sem er af tegundinni Suzuki Sidekick og árgerðin er 1997. Með fullri virðingu fyrir bæði honum og vinkonu minni er þessi jepplingur ein mesta drusla sem sést hefur á götum borgarinnar. Ég fylgdist með honum bræða úr sér fyrir tveimur vikum síðan en hann náði sér reyndar og er enn á götunni. 

Bíll með níu líf. 

Nema hvað. Þar sem vinkona mín er að opna sinn ágæta bíl á bílastæði Vesturbæjarlaugar er kallað til hennar frá hinum enda götunnar. 

Þar fer sameiginlegur kunningi okkar úr MH sem galar hátt og snjallt:

,,Það hafa nú ekki allir efni á jeppa á þessum síðustu & verstu"!

Skýringa þörf

Samkvæmt hinni öflugu fréttakonu Ragnhildi Thorlacius í sex fréttum Ríkisútvarpsins voru skuldir einhverra starfsmanna Kaupþings afskrifaðar - nokkrum dögum/vikum áður en Kaupþing var þjóðnýtt. 

Hvorki nýi né gamli bankastjórinn vildu tala við fréttakonuna.

Hér er skýringa þörf.

Nauðsyn heiðarlegs uppgjörs

Hér er svar Fjármálaeftirlitsins við spurningum Morgunblaðsins sem sprottnar voru af sögum þess efnis að skuldir væru felldar niður hjá lykilstarfsmönnum banka til að halda þeim í starfi. 


Tölvupóstur með slíkum sögum gengur nú á milli fólks og raunar hafa sögur þess efnis grasserað lengi. 

Það sem ósanngjarnast er að sögur sem þessar koma óorði á stór fyrirtæki þar sem fjöldi fólks starfar. Eins og sögur af bruðli, ofurlaunum og lúxus sem óhjákvæmilega koma afar illa við fólk á þessum síðustu og verstu tímum. 

Starfsfólk bankanna kom líka illa út úr hruni fjármálakerfisins, starfsmenn ákveðinna deilda sem tengdust mest útrásinni sem og framlínustarfsmenn. 

En til þess að geta hafist handa við endurmótun samfélagsins verður að gera upp þann kúltúr sem óneitanlega tengdist ákveðinni starfsemi bankanna. 

Fólkið í landinu átti þessa banka. Þeir voru seldir fyrir slikk. Og á örfáum árum var þeim siglt í kaf og nú eru bankarnir aftur komnir í eigu fólksins í landinu - með himinháa skuldabagga. 

Það er ósköp eðlilegt að fólk vilji vita hvað átti sér stað í millitíðinni. 

Synir Boga og Valtýs og spillingarsögur úr bönkunum

Það eru margar svona sögur í gangi. Og hljóta að reita alla til reiði. Svona sögur ýfa upp sögurnar af stuðinu hjá starfsmönnum þessara banka þegar gleðin stóð sem hæst. Sögurnar af Kaupþingsstarfsmönnum á dýrum veitingastöðum um helgar - og reikningurinn var yfirleitt sendur beint upp í Kaupþing. 


Sögur af Kaupþingsstarfsmönnum með milljónir á mánuði í leigubílum að hlæja og gera grín að launum leigubílstjórans. 

Rétt eftir að ríkið tók yfir Kaupþing var stór hópur starfsmanna á virkum degi á örvæntingarfullu kenderíi á ónefndum stað í miðbæ Reykjavíkur. Hópurinn stakk af frá reikningnum - eins og hann var vanur að gera þegar allt var í blóma - og ráðvilltur þjónninn stóð uppi með 80.000 króna ógreiddan reikning en gat vitanlega ekki sent hann beina leið til Kaupþings eins og venjan var að gera. 

Starfsmaður hjá Kaupþingi sagði mér eitt sinn frá konu sem vann í einni deild bankans. Mjög góður starfskraftur og hafði allt til brunns að bera til að komast í toppstöðu. En hún var fjölskyldumanneskja og vildi geta hætt klukkan 16.30 til að sækja barnið sitt á leikskólann. Hún var vitanlega alltaf mætt fyrst allra á morgnana til að þessi áætlun gengi upp. 

En hún kleif aldrei metorðastigann og var aldrei boðin stöðuhækkun. Og ástæðan var svo gott sem opinber; hún hætti svo snemma á daginn. Gott ef hún var ekki spurð hvort hún væri á leið í hádegismat þegar hún stimplaði sig út. 

Nú hefur dómsmálaráðherra falið ríkissaksóknara að gera skýrslu um stöðu og starfsemi íslenskra peninga- og fjármálastofnana á tímamótum í rekstri þeirra og eignarhaldi. Skýrsluhöfundar eiga að afla staðreynda um starfsemi bankanna og fyrirtækja í þeirra eigu og tilfærslu eigna, einkum á síðustu mánuðum starfseminnar. 

Ríkissaksóknarinn Valtýr Sigurðsson og fyrrverandi ríkissaksóknari Bogi Nilsson stýra gerð skýrslunnar og efnisöflun. 

Valtýr á son. 

Sá sonur er forstjóri Exista hf. sem er stærsti hluthafi Kaupþings hf., hann er líka stjórnarformaður Vátryggingafélags Íslands hf., Lýsingar hf., Líftryggingafélags Íslands hf., Íslenskrar endurtryggingar hf., Exista Invest ehf. og Exista Trading ehf. Meðal annars.

Bogi á líka son. 

Sá sonur er forstöðumaður á lögfræðisviði Stoða hf. Hann er jafnframt stjórnarformaður og fer með prókúru fyrir Stoðir Capital ehf., Stoðir Eignarhaldsfélag ehf., Stoðir Finance ehf. og FL Bayrock Holdco ehf. Meðal annars. 

Hafa menn ekkert lært? Þarf íslenska þjóðin ekki á því að halda núna að þessi mikilvæga skýrsla verði unnin af þeirri almestu fagmennsku sem völ er á? 

Ég segi eins og Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður í frábærri grein í Mogganum í gær - 

VÖNDUM OKKUR. Fjandakornið.*

*Viðbót bloggara  

Halla Tómasdóttir í Guardian

Grein í Guardian eftir Íslandsvininn John Carlin um íslenska fjármálahrunið. Halla Tómasdóttir fer á kostum og talar um - ásamt Svöfu Grönfeldt - nauðsyn nýrrar hugsunar og femínískra gilda við endurmótun íslensks samfélags. 


Og almenningur á Íslandi er svei mér þá að hugsa á svipuðum nótum. Þess vegna er þetta mikilvægt frumvarp.

Eða heldur því einhver virkilega fram að heimurinn væri á heljarþröm ef konur og karlar hefðu stjórnað honum saman? Ef jafnvægi hefði ríkt?

Á miðvikudagskvöldið stendur Kvennahreyfing Samfó fyrir fundi á Hallveigarstíg 1 þar sem þessari spurningu verður eflaust svarað - ásamt mörgum öðrum. 

Frummælendur verða Lilja Mósesdóttir hagfræðiprófessor og sérfræðingur í kynbundnum launamuni, Elín Blöndal prófessor og forstöðukona rannsóknarseturs vinnuréttar- og jafnréttismála, Guðbjartur Hannesson þingmaður Samfylkingar og formaður félagsmálanefndar og Hallgrímur Helgason rithöfundur.

02 nóvember 2008

Framtíðin

Samfó stóð fyrir frábærum fundi í dag í Iðnó. Troðfullt út úr dyrum og hugvekjandi erindi. 


Stefán Ólafsson fræddi okkur um finnsku leiðina út úr kreppunni - nánar hér

Vilhjálmur Árnason siðfræðingur var með mjög gott erindi um samfélagslegt réttlæti og siðferðilega nauðsyn þess að axla ábyrgð. Hann fór yfir siðferðilegar viðmiðanir, t.a.m. ósannsögli, trúnaðarbrest, valdníðslu, dómgreindarleysi og eftirlitsleysi. 

Á Íslandi er skortur á hefð til að ,,refsa" fyrir brot á þessum siðferðilegu viðmiðunum. Engin furða að fólk sé reitt enda höfum við upplifað vænan skammt af öllu þessu undanfarna mánuði. Og undanfarin ár ef út í það er farið.   

Vilhjálmur fór líka yfir mikilvægi réttlátra leikreglna og réttlæti og þann flókna vef samvinnu sem þarf að spinna til að samfélagið fúnkeri. Fyrir áhugasama er hér fín grein eftir Hlyn Orra Stefánsson um stjórnspekinginn John Rawls og Réttlætiskenningu hans. 

Vilhjálmur talaði um mikilvægi þess að ,,allir væru á sama báti". Út á það gengur jú jafnaðarstefnan og lífssýn þeirra sem aðhyllast félagslegan jöfnuð og vilja berjast fyrir réttlátu samfélagi. 

Það er sérkennilegt en satt að til þessa orðatiltækis hefur forsætisráðherra og aðrir í Sjálfstæðisflokknum gjarnan gripið til undanfarnar vikur og mánuði. 

Dálítið ódýrt - við vorum nú aldeilis ekki öll á sama báti undanfarin ár þegar skattbyrði jókst hjá lágtekjufólki en minnkaði hjá fyrirtækjum og hátekjufólki. 

Við erum bara á sama báti þegar kemur að skuldadögunum. 

Á fundinum í dag var starf Framtíðarhópa á sveitarstjórnarstigi ræst með formlegum hætti. Þar eru á ferð 9 málefnahópar skipaðir sveitarstjórnarfólki af öllu landinu sem munu starfa fram að næsta landsfundi. Ég og Hafsteinn Karlsson förum við skólamálahópi þar sem leik- og grunnskólar sem og frístundamál eru undir. Þetta er í annað skipti sem Samfó hleypir Framtíðarhópum af stað - hér má lesa skilagreinar fyrstu Framtíðarhópanna

Allir sem áhuga á að taka þátt í starfinu láti mig vinsamlegast vita á oddny@reykjavik.is

Auglýst eftir villigötum

Getur einhver upplýst mig um á hvaða villigötum umræðan um eftirlaunafrumvarp þingmanna er? Það kemur ekki fram í frétt RÚV og ég hreinlega nenni ekki að hlusta á allan þáttinn til að komast að hinu sanna. 

Meinar Bjarni að umræðan eigi ekki rétt á sér? Á hún að vera einhvern veginn öðruvísi? 
Hvernig? 

Það er grátlegt að ekki sé hægt að afgreiða þetta fyrir jól. 

01 nóvember 2008

Tónlistarstefnur og straumar

Ég mæli með grein Atla Bollasonar í Lesbók dagsins í dag. Þar heldur Atli áfram að skilgreina og fjalla um tilvist, hlutverk - og hugsanleg endalok tónlistarstefnu sem oft er kennd við krútt. 


Tónlistarstefnur eða ,,sjönrur" koma og fara og það hefur verið gaman að fylgjast með krúttunum. Mikið af þeirra tónlist hefur haft gríðarleg áhrif, ekki síst plata Sigur Rósar Ágætis byrjun sem í minningunni olli viðlíka straumhvörfum hjá mörgum jafnöldrum mínum og Achtung Baby U2 gerði í byrjun 10. áratugarins. 

Þegar ég var hljómborðsleikari í Ensími undir lok síðustu aldar voru krúttin farin að gægjast fram. Sigur Rós var hljómsveit sem flestir báru mikla virðingu fyrir en á þeim tíma störfuðu þeir nær eingöngu ,,neðanjarðar" - áttu sauðtryggan en ákaflega lítinn aðdáendahóp. Síðan varð sprenging með Ágætis byrjun og fjölmargir tónlistarmenn fylgdu í kjölfarið. 

Ein er sú breyting sem ekki margir hafa endilega varpað ljósi á. Það er sú staðreynd að með tónlist krúttanna féllu múrar milli klassískrar tónlistar og þeirrar dægurtónlistar sem ,,er í gangi" hverju sinni. 

Á hljómsveitarárum mínum var ekki algengt að í rokk- og popphljómsveitum væri fólk með klassískan bakgrunn. Þetta voru tveir heimar, allsendis óskyldir og gott ef örlaði ekki á tortryggni á milli þeirra! Ekki þarf annað en að líta Amiinu, Ólafar Arnalds og miklu, miklu fleiri til að sjá að klassískur bakgrunnur er fín undirstaða fyrir annars konar tónlist. Þessu fagnaði ég ógurlega enda lengi talað fyrir því að klassísk tónlistarmenntun er því marki brennd að einangra sig. Án þess að hafa gert á því vísindalega könnun þá finnst mér sem þessi skil séu enn að dofna - og er það vel. 

Hér undanskil ég faglega menntun jazzista - en það er vitanlega löng hefð fyrir því að sprenglærðir jazzistar séu vinsælir dægurtónlistarmenn af öllu tagi. 

En þó ég stígi fast í minn klassíska fót, hafi spilað í poppskotinni rokkhljómsveit og orðið fyrir miklum áhrifum af tónlist Sigur Rósar - þá hef ég ekki í langa tíð orðið jafn uppnumin af íslenskri tónlistarsenu sem nú. FM Belfast, Sprengjuhöllin, Retro Stefson og Hjaltalín eru dæmi um ævintýralega ferskar og skemmtilegar hljómsveitir. 

Einlæg, vönduð og umfram allt - skemmtileg tónlist. 
Það er ekki verra að geta dansað við hana. 
Óneitanlega saknaði kona þess dálítið á tónleikum krúttanna.