23 apríl 2008

Grænaborg 25 ára

Í dag er haldið upp á afmæli Grænuborgar. Hún var vígð á holtinu Sumardaginn fyrsta árið 1983 en á sér þó mun lengri og mjög merkilega sögu.

Barnavinafélagið Sumargjöf var stofnað árið 1924 af Bandalagi kvenna. Í 2. grein laga félagsins sagði ,,Tilgangur félagsins er að stuðla að andlegu og líkamlegu heilbrigði og þroska barna í Reykjavík og vernda þau fyrir óhollum áhrifum."

Sumarið '24 stofnaði Sumargjöf barnaheimili og rak það fyrst um sinn í Kennarahúsinu við Laufásveg. Félagið lenti í vandræðum með að fá húsnæði leigt og því var efnt til fjársöfnunar til að reisa Grænuborg á túninu við Landspítalann sumarið 1931.

Barnavinafélagið Sumargjöf stóð í kjölfarið að byggingu og rekstri fjölmargra dagheimila - allt til ársins 1978 þegar Reykjavíkurborg tók við rekstrinum.

Þetta kemur fram í stórfínni bók Bergs Felixsonar ,,Leikskóli fyrir alla" sem kom út í fyrra. Bergur var framkvæmdastjóri Dagvistar barna, síðar Leikskóla Reykjavíkur um áratugaskeið og hann settist einmitt í stól framkvæmdastjóra Sumargjafar árið 1975.

Í bókinni segir hann sögu leikskóla Reykjavíkur og rifjar upp gamansögur og minningar af merku fólki sem stóð í stafni leikskólauppbyggingar í Reykjavík.

Á árshátíð fóstrufélagsins á miðjum 8. áratugnum var sungið gamankvæði sem lýsti reynslu Bergs af því að taka við stjórnartaumunum hjá Sumargjöf en þar voru fyrir þrjár stólpakonur sem höfðu haft mikil áhrif í starfi og félagsmálum fóstra á sinni tíð. Þá var Sumargjöf með skrifstofu að Fornhaga 8. Hér er vísan:

,,Hver getur húkt upp á Fornhaga
innan um allar þær kerlur
gamlar, þreyttar og gráhærðar
enginn nema hann Bergur."

Syni Bergs, Felix, hef ég starfað með í borgarstjórnarflokknum síðastliðin ár og hann er ekki síðri félagi en Bergur pabbi hans í augum fóstranna hér áður.

En til hamingju með daginn Grænuborg!

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Iss - ekkert skildi ég í því af hverju gömlu Grænuborg var lokað. Við lærðum margt um samspill manna og dýra - eða öllu heldur manna og rotta á gamla staðnum.

Í minningunni var það ógnarstór leikskóli með gríðarmikla lóð.

Nafnlaus sagði...

Já, til hamingju Grænaborg !

Þar vann gott fólk og svo er ábyggilega ennþá.