Hér er erindi sem ég flutti á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Erindið fjallar um skólamál, kemur kannski lítið á óvart. Ég var hvött til að birta hana hér. Læt tengilinn nægja.
21 október 2010
18 október 2010
Þegar Samfó og Besti stálu jólunum
Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar hefur nú til meðferðar drög að leikreglum um samskipti skóla og trúfélaga. Menntaráð mun fá málið til umsagnar, sem og ÍTR og velferðarráð.
Umræða um skólamál, hlutverk skólans og hlutverk annarra stofnana í samfélaginu er alltaf fagnaðarefni. Hins vegar hefur umræðan síðustu daga verið nokkuð í æsifréttastíl og því koma hér nokkrar staðreyndir áður en lengra verður haldið:
1) Það er enginn að eyðileggja jólin. Í drögunum er þess sérstaklega getið að ekki er ætlunin með þeim að hrófla við hefðbundnum jólaundirbúningi leik- og grunnskóla. Litlu-jólin, jólaföndrið, jólaböllin og annar sígildur undirbúningur jóla verður eftir sem áður veruleiki reykvískra leik- og grunnskólabarna.
2) Það er enginn að leggja niður trúarbragðafræðslu í skólum. Í drögunum er hvergi vikið einu orði að trúarbragða- eða kristinfræðslu. Sú fræðsla fylgir ákvæðum aðalnámskrár hverju sinni og reykvískir skólar munu því hér eftir sem hingað til fræða börn um ólík trúarbrögð, kristna trú sem og aðra.
Í drögunum gerir mannréttindaráð tilraun til að skerpa á hlutverki skólans annars vegar og kirkjunnar hins vegar. Síðustu ár hefur það færst í aukana að prestar komi í reglulegar heimsóknir í skóla, núningur kemur upp vegna fermingarfræðslu á skólatíma og brunnið hefur við að starf á vegum kirkjunnar sé orðið óeðlilega samtvinnað skólastarfinu. Það samræmist hvorki mannréttindastefnu borgarinnar né hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar sem kveður á um að taka beri tillit til allra barna, óháð atgervi þeirra eða trúarskoðunum.
Það er foreldra að sinna trúaruppeldi barna sinna, skólans að uppfræða og kirkjunnar að boða trú. Allar hafa þessar stofnanir (ef fjölskyldan er stofnun) merkilegu og ekki síst ólíku hlutverki að gegna.
Spurt er: Hvað með samstarf í hverfum? Getur hvert og eitt samfélag ekki fundið út úr þessu sjálft?
Ég er mikill talsmaður hverfanálgunar á alla þjónustu við börn og unglinga. En það mun aldrei skapast sátt um það að kirkjan hafi bein ítök í skóla- og frístundastarfi. Til þess eru nægilega margir foreldrar sem vilja ekki slík afskipti. Í sumum hverfum virða prestar hlutverk skólans og skilja hlutverk kirkjunnar - í öðrum ekki. Um sumt verða að gilda miðlægar reglur.
Spurt er: Mikill meirihluti barna er í þjóðkirkjunni, er verið að breyta öllu fyrir háværan minnihlutahóp?
Fræðsluyfirvöld og menntaráðsfólk þurfa ávallt að hafa sína miklu ábyrgð í huga. Hún er sú að skólinn er griðastaður allra barna, hvers eins og einasta. Barna með sérþarfir og barna sem koma úr fjölskyldum sem aðhyllast önnur lífsviðhorf en kristin. Röksemdarfærslan um háværa minnihlutahópinn þykir mér sérkennileg. Eigum við þá ekki að taka tillit til barna með sérþarfir í skólunum, þau eru nú ekki nema um 10-15% af barnafjöldanum? En mitt hlutverk er að gæta að réttindum þeirra barna, rétt eins og allra hinna.
Spurt er: En er kirkjan og prestar að boða eitthvað hættulegt?
Að sjálfsögðu ekki. En skólar eru ekki vettvangur fyrir trúboð. Kirkjan og önnur trúfélög hafa mýmörg tækifæri til að koma sínum boðskap á framfæri við börn og unglinga. Vandað og gott barna- og unglingastarf þekkist af afspurn, og í sumum sóknum er gríðarlega blómlegt æskulýðsstarf. Það er ekki í nokkurri hættu þó svo við skerpum á reglum borgarinnar þegar kemur að beinni þátttöku kirkjunnar í skólastarfi.
Spurt er: Hvar er samráðið?
Þessi umræða datt ekki af himnum ofan í þessari viku. Á árinu 2007 skilaði starfshópur á vegum mennta- og leikskólasviðs vandaðri skýrslu um samskipti skóla og trúar- og lífsskoðunarhópa. Við það borð sátu fulltrúar Biskupsstofu, KHÍ, Alþjóðahúss og fulltrúar annarrar trúfélaga. Niðurstöðurnar voru einmitt á þá leið að skýrar starfsreglur skorti og að ekki mætti mismuna börnum og unglingum í starfi skóla í Reykjavík vegna trúar- og lífsskoðunar þeirra. Eins var það áréttað að skólar hafa eitt hlutverk - kirkjan annað.
Spurt er: Hvað með hin gömlu og góðu kristnu gildi? Eiga þau að hverfa úr skólunum?
Gömul og góð gildi um kærleik, réttlæti, hófsemi og virðingu einkenna mörg trúarbrögð og lífsskoðanir okkar flestra. Þau gildi lifa góðu lífi í skólum borgarinnar og munu gera það áfram. Skólar hafa lagt sig fram um að skapa andrúmsloft virðingar og náungakærleika með milljón aðferðum síðustu ár og áratugi.
Lítil er trú fólks á fagmennsku kennara og þeirra góða starf ef það heldur að framlag þjóðkirkjunnar gegni mikilvægu hlutverki í mótun kærleiksríks og umburðarlynds skólaumhverfis!
Spurt er: Eru miðlægar reglur á borð við þessar ekki bara olía á eld þeirra sem vilja snúa öllu upp neikvætt upp á innflytjendur?
Ég hræðist ekki málefnalega umræðu. Og ég er baráttumaður fyrir því að öllum börnum líði vel í skólanum, óháð lífsskoðunum þeirra. Ómálefnalega umræðu hræðist ég hins vegar eins og pestina - sér í lagi þegar hún tekur á sig mynd útlendingahaturs.
En sú hræðsla kemur ekki í veg fyrir að við mótum samfélag sem tekur sífellt meira tillit til margbreytileikans.
Ég hlakka til að vinna umsögn menntaráðs um tillögur mannréttindaráðs á næstu vikum. Um þær verður að ríkja sátt en ég lít ekki svo á að skólinn þurfi að taka mikið tillit til þjóðkirkjunnar - þjóðkirkjan verður hins vegar að taka tillit til grunnskólans og þeirrar sérstöðu hans sem stofnunar að öll börn eru þar við nám og leik. Ekki bara 80 eða 90% þeirra - heldur hvert eitt og einasta.
10 apríl 2010
Rökstólaparið um golfvöllinn
Einn af skemmtilegustu föstu liðum í Fréttablaðinu er rökstólaparið. Rökstólapar vikunnar er hin beitta og launfyndna Lára Björg og Bragi Ólafsson. Ég má til með að benda á það sem þau hafa að segja um golfvallarútspil Hönnu Birnu í tengslum við umræðuna um listamannalaun og stöðu foreldra barna með sérþarfir.
Hvað finnst ykkur um golfvöllinn sem Reykjavíkurborg ætlar að setja 230 milljónir í?
Lára: Ég tek þessum 230 milljónum mjög persónulega. Sem móðir barns með sérþarfir finnst mér þetta út í hött. Maður reynir að sýna skilning á endalausum niðurskurði, ég sit á fundum með kennurum og þroskaþjálfum og þar er stöðugt verið að minna á niðurskurðinn. Maður kinkar kolli og sýnir skilning. Síðan kemur frétt um að borgin ætli á sama tíma að eyða 230 milljónum í golfvöll. Ég verð sár og móðguð fyrir hönd sonar míns og barnanna okkar allra. Ég skammast mín fyrir að vera fullorðin og þætti réttast að leyfa börnunum okkar að ráðstafa þessu fé í staðinn.
Bragi: Í fyrsta lagi kemur þetta mér svo sem ekkert á óvart. Ég hef ekki mikið álit á þessari borgarstjórn, meðal annars vegna þess hvernig hún komst til valda, sem allir virðast búnir að gleyma. En það sem mér datt fyrst í hug var hin árlega, og sérkennilega umræða um listamannalaun, sem kemur náttúrulega aðallega úr einni átt. Þar er um að ræða svipaða upphæð og á að eyða þarna í grasvöll og nokkrar holur.
Lára: Svo eru þeir atvinnulausu hafðir að fíflum þegar þeir eru dregnir inn í þessa umræðu. Að þeir eigi svo bágt en geti nú glaðst yfir því að geta farið að spila golf. Það er algjör rökleysa.
11 mars 2010
Gegn atvinnuleysi ungs fólks - á heimaslóð
Í dag var undirrituð mikilvæg samstarfsyfirlýsing ríkis og borgar um virkjun atvinnulauss ungs fólks. Þegar er komin góð reynsla á námskeið sem Hitt húsið og átak Félags - og tryggingarmálaráðuneytis um ,,Ungt fólk til athafna" hafa staðið fyrir. En betur má ef duga skal. Atvinnumálahópur borgarinnar undir minni forystu hafði frumkvæði að því að leiða saman hesta stofnanna borgarinnar í nokkrum hverfum, framhaldsskóla á sama stað og ekki má gleyma Reykjavíkurdeild Rauða Krossins sem hefur sýnt þessu verkefni lofsverðan áhuga og lagt gott til.
Ávöxtur þessa frumkvæðis er hvað þroskaðastur í Breiðholtinu þar sem Frístundamiðstöðin Miðberg, FB, Námsflokkar Reykjavíkur, Þjónustumiðstöð Breiðholts, Rauði Krossinn og Gerðuberg hafa nú tekið höndum saman á hverfavísu og munu bjóða fram margvíslega krafta sína til að virkja ungt atvinnulaust fólk í Breiðholti til þátttöku. Fleiri hverfi eru í startholunum og vonandi verður mögulegt að ná til allra atvinnuleitandi ungmenna í þeirra næsta umhverfi á komandi mánuðum.
Það hefur verið ákaflega gefandi að fylgjast með samstarfinu þróast og enn og aftur sannfærist ég um að framtíð þjónustu borgarinnar á heima úti í hverfunum, á vettvangi, þar sem þekkingin á þörfum íbúanna býr. Hún býr ekki bara á miðlægum grunni; hún leysist úr læðingi á heimaslóð þar sem börn breytast í krakka, svo í unglinga og loks í fullorðið fólk. Starfsfólk borgar og ríkis sem sinna margvíslegri þjónustu úti í hverfum borgarinnar vita best hvernig þeirra þörfum er mætt.
Þess vegna talar Samfylkingin fyrir minna bákni og flutning þjónustu út í hverfin - því það einfaldlega virkar.
Ég óska Breiðhyltingum til hamingju með daginn og hlakka til að starfa áfram með þeim að fjölbreyttum verkefnum á heimaslóð.
10 febrúar 2010
Innritun í framhaldsskóla
Í menntaráði í dag kynntu fulltrúar Mennta- og menningarmálaráðuneytis nýtt fyrirkomulag innritunar nýnema í framhaldsskóla. Þær eru í anda nýrra laga um öll skólastig og gert er ráð fyrir mun meiri samvinnu milli grunn- og framhaldsskólastigsins en við eigum að venjast. Skemmst er að minnast mikils uppþots sem átti sér stað síðastliðið haust þegar fjöldi nýnema komst ekki að í þeim framhaldsskólum sem þeir höfðu þó kosið. Margir urðu til þess að beintengja það ástand við þá staðreynd að samræmd próf við lok 10. bekkjar voru aflögð sama ár. Það var, og er alrangt.
Staðreyndin er sú að fleiri hundruðir nemenda á framhaldsskólaaldri settust aftur á skólabekk eftir að hafa horfið frá námi vegna góðrar stöðu á vinnumarkaði. Plássin í Reykjavík voru einfaldlega ekki nægilega mörg. Til að einfalda hlutina: Það vantar eitt stykki framhaldsskóla í Reykjavík, helst í austurborginni. Sveitarfélögin í kringum okkur eru alls ekki sjálfbær um sína framhaldsskóla og því er allt innritunarsvæði stór-höfuðborgarsvæðisins (Akranes meðtalið) of mannmargt - miðað við fjölda skólastóla.
Nýjar innritunarreglur hverfa að hálfu leyti aftur til gamla kerfisins, þ.e.a.s. hverfaforgangs. Nú eiga 45% af nýnemum hvers skóla að tilheyra skólahverfi skólans. Það er jákvætt skref að mínu mati, grænt skref í öllu falli og tryggir betur margbreytileika innan framhaldsskólans. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að mér finnst afleitt að einkunnir úr grunnskóla eigi einar að stjórna því hverjir veljast inn í hvaða skóla. Þannig einsleitni viljum við ekki í íslensku samfélagi.
Ekki eru allir á sama máli og ég í þeim efnum. Formaður menntaráðs og raunar allur meirihluti menntaráðs er afar ginkeyptur fyrir samræmdum prófum upp á gamla mátann og gerðist í ofanálag sekur um ævintýralega vanvirðingu við grunnskólann og þá öru þróun sem hefur átt sér stað síðastliðin ár í fjölbreyttu námsmati. Um það má lesa hér.
Það sem er ánægjulegast við þessa þróun alla er þó samstarfið milli grunnskólans og framhaldsskólans og sú áhersla sem lögð er á að framhaldsskólar með einsleitt námsframboð (les: of sterkar bóknámsáherslur) auki á fjölbreytni. Mennta- og menningarmálaráðherrann okkar hefur skrifað greindarlega grein um málið sem má lesa hér.
Stærsta áskorun íslensks menntakerfis er brotthvarf nemenda úr framhaldsskólum. Á því verðum við að sigrast. En hvað segir það okkur að 96% nemenda á 16. aldursári hefja nám við framhaldsskóla en einungis rúmlega 60% þeirra ljúka námi? Það segir okkur að framhaldsskólinn er ekki fyrir alla nemendur, hann mætir ekki nægilega vel ólíkum þörfum nemenda. Þó er hann grunneining í okkar samfélagi, hér er fræðsluskylda upp að 18 ára aldri og samfélagsleg ábyrgð framhaldsskólans á því að útskrifa alla nemendur með einhvers konar fullnaðarpróf á ólíkum námsbrautum er algjör.
Að mínu mati færi best á því að samræmd próf yrðu þreytt við lok 9. bekkjar. Þannig fengju kennarar 10. bekkinga glögga yfirsýn yfir stöðu nemandans, hvaða framhaldsnám hentar honum, hvaða námsleið hentar honum og hvers konar strúktúr hentar honum (bekkja- eða áfangakerfi). Gefa þarf mun ríkari gaum að þætti námsráðgjafar í þessu tilliti - hinar háu brotthvarfstölur segja okkur það að nemendur hafa ekki í öllum tilfellum valið sér skóla og námsleið við hæfi.
En ég vil nýjan framhaldsskóla - í austurborgina. 19% allra atvinnulausra á landinu í janúar voru á aldrinum 16-24 ára. Í slíku árferði þarf að vera hægt að bjóða öllum upp á örugga vist í framhaldsskóla - og nám við hæfi hvers og eins.
Nýr framhaldsskóli þarf ekki endilega að þýða ný skólabygging. Nýtum það sem til er, margir grunnskólanna okkar eru rúmgóðir og hægt að gera tilraunir með t.d. samrekstur - og því ekki að gera tilraun með skóla fyrir 13-18 ára?
Á kynningu síðastliðinn föstudag á stöðu ungs fólks (16-20) sem er utan framhaldsskólakerfisins var þeirri þráleitu spurningu varpað fram hvort nú væri tækifæri til að hugsa skólastigin öll í einni heild; og færa framhaldsskólann til grenndarsamfélagsins. Menntun barna og ungmenna er grunnþjónusta og mun í framtíðinni eiga heima á sama stjórnsýslustiginu - hjá sveitarfélögunum.
04 febrúar 2010
Mikilvægt fyrsta skref
Á fundi borgarráðs í dag talaði ég fyrir tillögum Atvinnumálahóps um skiptingu fjármagns til atvinnumála í Reykjavík á árinu 2010. Á fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 150 milljónum til atvinnumála og samkvæmt tillögu Atvinnumálahóps - og á grundvelli úttektar og skýrslu sem Atvinnumálahópurinn vann og kynnti í borgarstjórn í desember - var ákveðið að 80 milljónir færu til sérstakra átaksverkefna af ýmsu tagi. Þau verkefni eru þó bundin af reglugerð Vinnumálastofnunar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins.
Auk þess gerum við tillögu um að 30 milljónir fari til atvinnusköpunar og verkefna í þágu ungs fólks, 20 milljónir fari til virkniverkefna fólks á fjárhagsaðstoð, 10 milljónir í þágu atvinnumála fólks með fötlun og 7 milljónum verði varið til að greiða laun námsmanna sem vinna að verkefnum styrktum af Nýsköpunarsjóði námsmanna.
Úthlutunarnefndir taka til starfa strax í næstu viku og svið borgarinnar, sem og utanaðkomandi aðilar þar sem það á við, geta sótt um fjármagn til atvinnuskapandi verka. Vissulega er þetta fjármagn lítið miðað við hátt hlutfall atvinnulausra í Reykjavík. Því segi ég að þetta sé mikilvægt fyrsta skref og enn mikilvægara er að meta áhrif aðgerðanna og vega og meta næstu skref borgarinnar.
Samfélagslegt hlutverk hennar er mikið í atvinnuleysi sem þessu.
30 janúar 2010
Þakklæti
Þá er prófkjöri okkar Samfylkingarfólks í Reykjavík lokið.
Efst í huga mér er þakklæti fyrir þann mikla stuðning sem ég fékk í 2. sætið, fyrir samskiptin við fjöldann allan af frábæru Samfylkingarfólki undanfarnar vikur og fyrir það að fá að vera í forystusveit flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor.
Þið megið treysta því að framundan er spennandi tími í Reykjavík, tími uppbyggingar og umbóta.
Oddný
Fallegur kosningadagur
Reykjavíkurborg skartar sínu fegursta á prófkjörsdegi okkar Samfylkingarfólks. Kjósendur skunda á kjörstað í sínu fínasta pússi og aðrir sitja heima við tölvuna og gefa sínu fólki atkvæði í gegnum internetið.
Þessi kosningabarátta okkar samherjanna í borgarstjórnarflokki Samfylkingarinnar og nýliðanna frambærilegu hefur verið snörp og heiðarleg og nú leggjum við verk okkar og áherslur í dóm kjósenda.
Það hefur verið mér einstök ánægja að starfa að hagsmunum borgarbúa síðastliðin fjögur ár og ég hlakka til næstu fjögurra, þar sem stefnan verður sett á góð verk og uppbyggingu til framtíðar fyrir okkur öll, íbúa höfuðborgarinnar.
Áfram Reykjavík!
29 janúar 2010
Stuðningur
Síðustu daga og vikur hefur fjöldi manns skrifað stuðningsgreinar mér til handa. Ég var eggjuð til að halda þeim til haga á einum stað og hér er tilraun til þess.
Stuðningsgreinar frá Sigrúnu Daníelsdóttur sálfræðingi, Ágústi Hirti Ingþórssyni forstöðumanni landsskrifstofu ESB í menntamálum og Valgerði Eiríksdóttur kennara í Fellaskóla.
Stuðningsgreinar frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur lögfræðingi, Agnari Jóni Egilssyni leikstjóra og Hrund Gunnsteinsdóttur frumkvöðli.
Stuðningsgreinar frá Láru Björgu Björnsdóttur skrifstofustjóra og pistlahöfundi, Ásgeiri Beinteinssyni skólastjóra og Barböru Kristvinsson, formanni Landnemans.
Stuðningsgreinar frá Kristjáni B. Jónassyni formanni félags bókaútgefenda , Arndísi B. Sigurgeirsdóttur kaupmanni og Hauki Inga Jónassyni lektor við HÍ.
Stuðningsgreinar frá Rósu Harðardóttur kennara og Árna Guðmundssyni frístundafræðingi og lektor við HÍ.
28 janúar 2010
Heiðarlega, skapandi og skemmtilega borg
Reykjavík er borg margbreytileikans. Íbúarnir koma frá öllum heimsins hornum og störfin eru fjölbreytt. Leyfum þúsund blómum að blómstra í atvinnusköpun á höfuðborgarsvæðinu. Engin töfralausn er til önnur en sú að styðja við smá sem stór fyrirtæki, menningarverkefni, ferðamennsku og framrtakssemi. Regluvirki borgarinnar á að vera einfalt og skilvirkt fyrir duglegt fólk á öllum aldri.
Reykjavíkurborg gegnir mikilvægu hlutverki við mótun lýðræðislegra samfélags á Íslandi. Ábyrgð hennar á því að innleiða ný vinnubrögð í anda samstarfs og samþættingar er mikil. Flutningur verkefna til sveitarfélaga sem tengjast öldruðum og fötluðum íbúum þeirra er mikilvægt skref í átt til aukinnar velferðar og metnaðarfyllri þjónustu. Samstarf sparar bæði spor og fjármagn, við höfum ekki lengur efni á múrum milli stofnanna og stjórnsýslustiga.
Til þess að koma auga á samstarfsmöguleikana þarf fólk sem hugsar í lausnum og lætur verkin tala. Við þurfum gagnsæja og heiðarlega stjórnsýslu þar sem einkavinir fá sömu meðferð og ókunnugir og almannafé rennur til verkefna í almannaþágu.
27 janúar 2010
Gegn atvinnuleysi
Í dag talaði ég við góðan félaga úr arkitektastétt. Hann lýsti áhyggjum sínum af stöðu kollega sinna, sérstaklega unga fólksins sem nú hefur misst vinnuna. Ég sagði honum frá áherslum atvinnumálahópsins sem ég leiði - en þar höfum við skoðað ótal atvinnuátaksúrræði. Meðal annars höfum við skoðað starfsþjálfun, en á Íslandi hefur ekki verið rík hefð fyrir slíku.
Erlendis er rík hefð fyrir því að nýta ungt fólk í starfsþjálfun hjá hinu opinbera, sérstaklega á sviðum sem snerta skipulagsmál, arkitektúr, hönnun og verkfræði. Því höfum við ákveðið að setja borgarhagfræðing og skipulagsstjóra, ásamt öðru góðu starfsfólki Reykjavíkurborgar fyrir það verkefni að móta verklag borgarinnar með stórsókn í starfsþjálfun í huga. Ekki síst er þar horft til skipulagssviðsins. Þar gætu arkitektar í atvinnuleit komist á starfsþjálfunarsamning með samstarfi við Vinnumálastofnun, til að nýta þeirra góðu kunnáttu í þágu borgarinnar - og koma í veg fyrir að fólk í atvinnuleit sitji heima óvirkt. Ég bind miklar vonir við það starf.
Hér er linkur á skýrslu atvinnumálahóps sem kynnt var borgarstjórn við framlagningu fjárhagsáætlunar. Á grundvelli hennar var ákveðið að veita 150 milljónum á þessu ári til atvinnuátaksverkefna af öllu tagi. Starfsþjálfun er það á meðal.
Lengri biðlistar
Ég get ekki orða bundist yfir fullyrðingum Ragnars Sæs Ragnarssonar, formanns Leikskólaráðs Reykjavíkurborgar og varaborgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins síðustu daga. Hann fullyrðir í fjölmiðlum að leikskólar muni halda áfram að taka börn inn fram á haust, þvert á samþykkt meirihlutans um að innrita ekki ný börn fyrr en að hausti. Ljóst er að niðurskurður á leikskólasviði kemur illa niður á foreldrum yngstu barnanna, sem nú eru innrituð seinna en áður. Þau dvelja þá lengur hjá dagforeldrum og í ungbarnaleikskólum sem er í öllum tilfellum dýrara en leikskólavist. Aukinn kostnaður fyrir t.d. einstæða foreldra hleypur á annað hundruð þúsunda.
Í ofanálag slátrar meirihlutinn 50 sumarstörfum á leikskólunum, því þetta breytta fyrirkomulag gerir auðvitað að verkum að ekki þarf að ráða inn sumarafleysingarstarfsfólk. Ég hef heyrt í mörgum foreldrum sem höfðu reiknað með leikskólaplássi fyrir börn sín og hugðust halda út á vinnumarkaðinn á ný. Þeir lenda nú í vandræðum með að brúa bilið, að minnsta kosti fram á haust. Þessi ráðstöfun kemur því illa niður á fjölskyldum í borginni á fleiri en einn hátt.
Að formaður leikskólaráðs skuli á sama tíma geta fullyrt að áfram verði börn tekin inn á leikskóla vekur hjá mér mikla furðu – það er einfaldlega ekki rétt. Á annað hundrað börn bíða nú eftir plássi á ungbarnaleikskólum borgarinnar, og ljóst að nú mun ekki vera hægt að nota sumarið í aðlögun þeirra eins og áður, heldur mun hún í fyrsta lagi geta hafist með haustinu. Nú eru stórir árgangar að koma inn til borgarinnar í leikskóla og til dagforeldra. Biðlistar lengjast dag frá degi og algjör viðsnúningur hjá t.d. dagforeldrum sem fyrir nokkrum mánuðum voru með fá sem engin börn í vistun hjá sér vegna betri mönnunar leikskólanna.
Leikskólaráð verður að taka púlsinn á þessu sem fyrst og ákveða hvort endurskoða þurfi þessa ákvörðun meirihlutans um seinkun innritunar nýrra barna.
26 janúar 2010
Verkin tala
Hér er sýnishorn af tillögum og málum sem ég hef talað fyrir í borgarstjórn og á vettvangi menntaráðs. Nær allar tillögurnar voru samþykktar og eru komnar í farveg. Sumar alla leið.
-Tillaga um að Reykjavík verði bókmenntaborg UNESCO
-Tillaga um endurskoðun húsverndaráætlanna Reykjavíkur
-Tillaga um formlegt samstarf ríkis og borgar um virkni, ráðgjöf og námsleiðir handa atvinnulausu fólki.
-Tillaga um jafnréttisátak í tilefni af því að 100 ár voru liðin frá því að konur settust í bæjarstjórn Reykjavíkur.
-Tillaga um ný ritsmíðaverðlaun veitt börnum og ungmennum til heiðurs Guðrúnu Helgadóttur
-Tillaga um betrumbætur á þjónustu við lesblind börn í skólum Reykjavíkur
-Mótun nýrrar skólastefnu fyrir grunnskóla Úlfarsárdals sem byggja á samþættingu listgreina við aðrar námsgreinar og nýrri hugsun í skipulagi skóladagsins.
-Tillaga um endurskoðun eineltisáætlanna Reykjavíkurborgar.
-Tillaga um að Reykjavíkurborg skrifi undir Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum.
-Tillaga um að Reykjavíkurborg leiði tilraunaverkefni um ráðgjöf, sjálfsstyrkingu og menntunarúrræði fyrir langtímaatvinnulaust fólk yngra en 30 ára í Reykjavík.
Eins hef ég verið fyrsti talsmaður í borgarstjórn fyrir stefnumótun í málefnum innflytjenda sem leiddi til mikilla umbóta fyrir börn af erlendum uppruna í skólum. Auk þess hef ég talað fyrir samþættingu frístunda- og skólastarfs, atvinnumálum ungmenna og aukins samstarfs borgarstofnana við íbúa og frjáls félagasamtök í hverfum borgarinnar.
Öflugir samherjar og stuðningsmenn
Prófkjör okkar Samfylkingarfólks í Reykjavík er nú á lokasprettinum og frábært að sjá hversu mikil orka er að leysast úr læðingi í öllum hornum vegna þess. Vinir, vandamenn og stuðningsmenn hvers konar stíga fram og hjálpast að við að styðja sinn frambjóðanda.
Sjálf er ég svo heppin að eiga mikið af góðu fólki sem stendur með mér í þessu verkefni. Meðal þess sem stuðningsmenn mínir hafa komið á laggirnar er stuðningssíða við framboð mitt á Facebook, þar sem ýmis mál eru tíunduð, bæði helstu áherslur mínar, yfirlýsingar frá stuðningsmönnum og margt fleira skemmtilegt.
Hér má sjá síðuna.
Það eru forréttindi að fá að bjóða fram með jafn góðu og frambærilegu fólki og býður sig nú fram í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Hér eru á ferðinni góðir samstarfsmenn mínir til fjögurra ára og að auki nýtt og spennandi fólk. Við erum sammála um þetta ég og stuðningsmenn mínir og höfum þá sjálfsögðu vinnureglu að tala alltaf af virðingu um samframbjóðendur mína.
Einn félagsmaður tók eftir þessu í símtali af kosningaskrifstofu minni í vikunni og skrifaði skemmtilegan pistil um málið.
Athugið / Attention
Reykvíkingar af erlendum uppruna hafa beðið mig um að þýða mín helstu stefnumál yfir á ensku/International residents have been asking me about my policies in english - here they are:
I have been on the city council for one term. My areas of focus are education, leisure activities, culture and employment issues. I lead the city´s committee on employment where we have already begun a number of projects aimed at opposing the negative effects of unemployment that the citizens of Reykjavík are now facing.
The city of Reykjavík has an important role to play in developing a democratic and humane society in Iceland. Reykjavík has major social responsibilities in the area of employment issues, leading the way in education and tourism, and ensuring excellence in education and leisure. Leading the way in the areas of employment, education, leisure activities and tourism are the city’s future. No child or young person should suffer because of the deficiencies of the past decades´ laissez-faire policies. Equal opportunities for all children, regardless of origin or economic status should be Reykjavik’s legacy. The well-being of all of the city’s residents should be a priority when deciding how to allocate assets.
We must continue to build up services in all of the city’s neighbourhoods and to reverse the centralization that has characterized the current government. The goal of The Social Democrats/Samfylking is to win the elections and to lead the city government in the coming years. Our leadership will ensure responsible handling of finances, understanding the needs of families and quality service for Reykjavik’s residents.
I am 33 years old and have two children, four and six years old. I have worked in music, teaching and as an author. During the past four years I have chaired the Social Democrats in the city council, been chairperson of the party´s city council in Reykjavík and I was one of the founding members of The Pioneers/Landnema, an association of social democrats interested in immigration issues and diverse cultures.
I am on the board of Hamrahlíð College and the research committee for schools without discrimination, the University Idea House and the association “Children’s Rights”.
Málefni barna og ungmenna eru stóru málin
Smá fróðleikur um frambjóðandann Oddnýju Sturludóttur.
Ég hef komið víða við í störfum mínum fyrir borgarbúa síðastliðin fjögur ár og starfað að menningar- og miðborgarmálum, jafnréttis-, velferðar- og skipulagsmálum. En líklega slær hjarta mitt örast með mennta- og menningarmálunum. Í raun öllu sem viðkemur börnum og ungmennum.
Mamma er kennari og heitir María Norðdahl. Hún vinnur hjá Kennarasambandi Íslands. Pabbi er hugbúnaðarsérfræðingur og formaður Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Ég á þrjá bræður, Snorra sem starfar við kvikmynda- og auglýsingagerð í New York, Kára sem starfar í tónlistargeiranum og Tómas sem er nemi í Austurbæjarskóla. Ég á tvö börn, Margréti Maríu (4) og Kára Daníel (6).
Ég lifi bíllausum lífsstíl. Það getur verið dálítið krefjandi með tvö lítil börn en einhvern veginn gengur það upp. Ég bjó í Þýskalandi fyrir sex árum og komst þar upp á lagið með metnaðarfulla endurvinnslu heima fyrir. Þar eigum við Reykvíkingar verk að vinna.
25 janúar 2010
Kraftmikil, skemmtileg og örugg Reykjavík
Eitt af þeim málum sem ég hef látið mig varða á kjörtímabilinu er löggæsla í Reykjavík og öryggi borgaranna. Meðfylgjandi grein er eftir mig og Dag B. Eggertsson um málið, en hún birtist í Morgunblaðinu 25. september 2007.
Sýnileg löggæsla ber árangur
Síðustu þrjár helgar hefur lögreglustjóraembættið á höfuðborgarsvæðinu aukið verulega
sýnilega löggæslu í miðborg Reykjavíkur á næturnar um helgar. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Lögreglusamþykktinni hefur verið fylgt eftir af meiri einurð en oft áður, umgengni hefur batnað og íbúar í mikilli nálægð við veitingastaði hafa lýst því yfir að ónæði sé minna og merkjanlega meiri virðing borin fyrir þeirra nánasta umhverfi.
Samfylkingin hefur um langt skeið talað fyrir aukinni sýnilegri löggæslu í Reykjavíkurborg og talið að hún hafi afar mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að öryggi borgaranna, öryggistilfinningu og ekki síst til að fylgja eftir góðri umgengni. Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins á hrós skilið fyrir að vera fyrsti lögreglustjórinn um langa hríð sem skilur þessa þörf þó ekki séu greinarhöfundar sammála öllum skoðunum lögreglustjórans.
Afgreiðslutíminn
Lögreglustjóri hefur talað fyrir því að þeir veitingastaðir sem hafi opið lengur en til klukkan 1 eða 2 skuli staðsettir í öðrum hverfum borgarinnar, hverfum þar sem enga íbúa er að finna. Þessi yfirlýsing lögreglustjórans er ótímabær og vekur í raun furðu í ljósi þess að aukin sýnileg löggæsla skilar greinilega miklum árangri í miðbænum um helgar. Skynsamlegra væri að halda áfram á sömu braut og láta á það
reyna hvort veitingastaðir, lögreglan og íbúar geti í sameiningu fundið lausn sem allir sætta sig við. Það er ekki erfitt að spá fyrir um hvað gerist verði skemmtistöðum í Reykjavík lokað fljótlega eftir miðnætti. Í mörg ár var hópasöfnun á Lækjartorgi vandamál, skemmtistaðagestir fundu skemmtanaþörf sinni farveg á götum úti, pústrar og skemmdarverk sköpuðu vandamál og gleðin hélt gjarnan áfram í heimahúsum, sérstaklega í miðbænum.
Úthverfaskemmtistaðir?
Það er ekkert sem bannar skemmtistaði í iðnaðarhverfum en einhverra hluta vegna eru þeir ekki margir árið 2007. Þeir yrðu afskekktir, í illa upplýstum hverfum og það er vitað mál að umgengni og virðing fyrir öðrum skánar síst við slíkar aðstæður. Skuggasundin eru óþarflega mörg og bjóða hættunni heim á margvíslegan hátt, ekki síst með öryggi kvenna í huga. Dreifing skemmtistaða dreifir einnig lögregluþjónum um borg og bý sem gerir löggæsluna síst sýnilegri og öflugri. Gullaldarskeið stóru diskótekanna, Broadway, Sigtúns og Klúbbsins, er liðið undir lok. Þegar bjórinn var leyfður árið 1989 spruttu upp krár, barir, pöbbar og kaffihús sem áður voru ekki til, Reykjavík fór að líkjast öðrum borgum sem Íslendingar heimsóttu og nutu þess að þræða þar kaffihús og bari. Oft er sagt að bjórinn hafi einfaldlega drepið stóra næturklúbbinn en gleymum því ekki að slagsmálin á böllunum í gamla daga voru svo algeng að þau þóttu hluti af dagskránni. Umburðarlyndi fólks í dag er minna, í dag er tekið hart á ofbeldismálum og í dag er einnig tekið hart á smávægilegum brotum á lögreglusamþykkt sem tengjast virðingu fyrir umhverfinu. Gott mál og við hvetjum lögregluna til að halda áfram á sömu braut.
Sambýli íbúa og skemmtistaða
Í sumar hefur skiljanlega reynt á þolrif íbúa sem búa næst skemmtistöðum vegna óvenju blíðrar veðráttu og reykingabanns sem saman skópu karnívalstemningu á götum úti. Eins hefur bruninn í Austurstræti 22 fært miðpunkt skemmtanalífsins upp Bankastrætið og þar með nær þéttri íbúabyggð. Það er mjög eðlilegt að skoða vel hvað borgaryfirvöld geta gert til að koma til móts við íbúa í miðbænum og skapa sátt. Rétt eins og íbúar á Miklubraut finna sannarlega fyrir umferðarþunga, finna íbúar í miðbænum sannarlega
fyrir návíginu við veitingastaði, skemmtistaði, ferðamenn og hótel í þessu fjölsóttasta hverfi borgarinnar.
Miðbærinn hefur kosti og galla en miðbærinn er sameign allra borgarbúa og landsmanna, öll umræða um miðbæinn verður að taka mið af því.
Kraftmil, skemmtileg og örugg borg
Allir hafa skoðun á því hvort við Ísiklendingar högum okkur vel eða illa undir áhrifum áfengis en samkvæmt könnunum er drykkjumynstur ungs fólks á Íslandi í takti við það sem gerist erlendis. En rót áfengisvanda er ekki að finna í afgreiðslutíma skemmtistaða, staðsetningu skemmtistaða eða hitastigi dósabjórs. Þær rætur eru samfélagslegar og þær glímum við við með markvissum forvörnum, opinskárri umræðu og
velferðarþjónustu. Meginþorri gesta á skemmtistöðum Reykjavíkurborgar um nætur hegða sér vel, skemmta sér vel og finna ekki til óöryggis. Unga fólkið á tíunda áratugnum hætti ekki að skemmta sér þó skemmtistaðir væru lokaðir klukkan þrjú, skemmtanalífið færðist út á götu og í heimahús. Afgreiðslutími er visst stýritæki og hingað til
hefur honum verið stýrt með það í huga að halda aftur af hópamyndun sem eykur öryggi, fækkar alvarlegum ofbeldisbrotum og greiðir fyrir umferð. Höldum áfram að auka við sýnilega löggæslu sem festir Reykjavík í sessi sem kraftmikla, skemmtilega og örugga borg.
Hið sanna, góða og fagra
Þættinum hefur borist bréf. Frá Hauki Inga Jónassyni.
Þar sem fegurðin ríkir
Hvers eiga borgarar samfélags að vænta af stjórnmálamanni? Þeir eiga að vænta þess að stjórnmálamaðurinn gæti almannahagsmuna og leggi sig fram um að skapa skilyrði fyrir farsælt líf og réttlátt samfélag.
Til að mæta þessari kröfu ætti stjórnmálamaðurinn að líta til fjögurra átta:
(1) Hann ætti að hugsa um stjórnmál í samhengi dyggðar
(2) hann ætti að ígrunda skilning sinn á nytsemi
(3) hann ætti að skoða tilfinningu sína fyrir skyldu
(4) hann ætti að viðhalda næmi sínu gagnvart réttindum fólks.
Dyggðugur stjórnmálamaður er stjórnmálamaður sem gerir ekki málamiðlun við skýr og mannbætandi gildi og fylgir þeim þannig að hann geti á hverjum morgni og á hverju kvöldi upplitsdjarfur litið í spegilinn og sagt: „Ég er að gera rétt.“
Nytsemina ætti stjórnmálamaður að hugsa sem viðleitni sína til að láta athafnir sínar leiða til sem mestrar mögulega hamingju fyrir sem flesta.
Skylda stjórnmálamannsins ætti að endurspeglast í því að öll breytni hans á sviði stjórnmálanna gæti orðið að almennu viðmiði fyrir alla stjórnmálamenn á öllum tímum.
Næmi stjórnmálamannsins fyrir réttindum fólks ætti að grundvallast á virðingu hans fyrir samfélagssáttmálanum, það er að segja þeirri staðreynd að hann, stjórnmálamaðurinn, þiggur stöðu sína — líkt og allir aðrir — af öðrum þegnum samfélagsins. Ef allt er eðlilegt ætti þetta að kalla yfir hann ríkan vilja til að virða rétt þegnanna, sem í grundvallaratriðum er jafn.
Nú sýnir reynsla að hæfileikinn til að tileinka sér ofangreint liggur misvel fyrir hjá þeim sem gefa kost á sér til forystu á sviði stjórnmála. Þess vegna skiptir máli að velja vel. Markmið kjósenda í slíku vali ætti að taka mið af því að velja fólk til forystu sem hefur forsendur til slíkrar tileinkunnar og er með því umhugað um hið sanna, góða og fagra ríki í samfélaginu.
Ég tel að Oddný Sturludóttir hafi það til að bera!
Haukur Ingi Jónasson
Garðastræti 17, Reykjavík
24 janúar 2010
Unga fólkið í Reykjavík
Hér er stuðningsgrein frá Agnari Jóni Egilssyni leikstjóra:
Oddný Sturludóttir hefur unnið þrekvirki á síðastliðnum misserum fyrir unga fólkið í Reykjavík. Hún er óþreytandi við að leita lausna fyrir atvinnulaus ungmenni, í stefnumótandi umræðu fyrir ungmenni borgarinnar, bæði til skemmri og lengri tíma.
Oddný er kraftmikil og áhugasöm í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur. Hún veigrar sér ekki við að leita samstarfs utan flokks ef málefnið krefst þess og alltaf hugsar hún um velferð manneskjunnar en ekki kerfiskallana og stöðu hennar innan flokksins.
Oddný er hugrökk og einbeitt og ég treysti henni til að vera í forystusveit Samfylkingarinnar í komandi borgarstjórnarkosningum.
X fyrir Oddnýju í 2. sætið
Agnar Jón Egilsson, leikstjóri
23 janúar 2010
Gæðastund með góðum vinum og meðframbjóðendum
Í dag átti ég gæðastund í kosninga- og menningarmiðstöðinni minni Bankastræti 14 með góðum vinum og meðframbjóðendum.
Lay Low flutti nokkur lög, Hera Ólafsdóttir söng vinaljóð og Páll Valsson blés mér og öllum viðstöddum eldmóð í brjóst.
Þetta hefur verið einstakur vinadagur og frábært að verja honum með þessu flotta og skemmtilega fólki.
Menningarsíðdegið átti einkar vel við, þar sem það er mér mikið hjartans mál að efla lista- og menningaruppeldi í leik- og grunnskólum borgarinnar.
Hér er hægt að sjá nokkrar myndir sem ég tók og sendi á Twitterinn minn á meðan á fjörinu stóð.
Menningarsíðdegi með Lay Low, Heru Ólafs og Páli Valssyni
Í dag býður stuðningsfólk mitt á menningarsíðdegi á kosninga- og menningarmiðstöðinni minni Bankastræti 14.
Lay Low syngur nokkur lög, Hera Ólafsdóttir syngur ljúfar vinavísur og Páll Valsson fléttar saman menningar- og Reykjavíkursögum og kryfur pólitískt erindi Dísar og móður í hjáverkum.
Það eru að sjálfsögðu allir velkomnir, en gleðin hefst kl. 16. Léttar veitingar verða í boði, kaffi og heimasmurt.
Vonast til að sjá ykkur sem flest, og að sjálfsögðu með börnin, þau munu una sér vel í barnahorninu okkar sem er rómað um alla borg.
Sjáumst!
22 janúar 2010
Hvatning til kennara
Valgerður Eiríksdóttir, kennari í Fellaskóla skrifar á vísi.is góða grein um mikilvægi þess að kennarar láti til sín taka í prófkjörum allra flokka. Ósköp þótti mér vænt um hennar hlýju hvatningu. Og tek undir með henni - það er mikilvægt að kennarar velji fólk til verka sem hefur skilning á eðli skólastarfsins.
Stuðningur atvinnurekanda í miðborginni
Arndís B. Sigurgeirsdóttir, bóksali í Iðu hefur sent mér þessa fallegu hvatningu í prófkjörinu.
Oddnýju Sturludóttur þekki ég vel af verkum hennar sem borgarfulltrúi. Hún hefur djúpan skilning á þörfum atvinnulífsins í borginni og gerir sér ljósa grein fyrir mikilvægi þess að fyrirtæki búi við sem best skilyrði, enda er það hagur borgarbúa allra.
Sem eigandi fyrirtækis í miðborginni hef ég átt töluverð samskipti við Oddnýju. Þar hefur vakið athygli mína að hún kynnir sér öll mál út í ystu æsar og leggur metnað sinn í að finna lausnir sem eru sem flestum til hagsbóta. Þannig borgarfulltrúa eiga Reykvíkingar skilið.
Arndís B. Sigurgeirsdóttir
Iðu, Lækjargötu.
21 janúar 2010
Verðmætin í leikskólunum
Á því kjörtímabili sem senn er á enda, hef ég unnið mikið að mennta- og æskulýðsmálum, enda málefni barna og ungmenna mér hugleikin. Leikskólamálin eru þar á meðal en ég sit sem fulltrúi Samfylkingarinnar í leikskólaráði Reykjavíkurborgar.
Hér eru vangaveltur mínar um þann dýrmæta mannauð sem við eigum í leikskólakennurunum okkar og þá miklu alúð sem þeir leggja í störf sín, og verðmætin sem liggja í vináttuböndunum og væntumþykjunni sem myndast á milli starfsfólks leikskólanna og barnanna.
Þá er hér nýlegt viðtal úr fréttum Ríkisútvarpsins, þar sem fjallað er um niðurskurðarhugmyndir á leikskólum borgarinnar, sem ég tel gagnrýniverðar. Hér þarf að huga að þeim miklu verðmætum sem búa í starfsfólki leikskólanna og velta því fyrir sér hvernig þau verða best varðveitt, þrátt fyrir þá erfiðu tíma sem nú eru uppi í rekstri sveitarfélaganna. Það er jú ljóst að við þurfum að sýna ráðdeild í rekstrinum, en við verðum að spara á réttu stöðunum.
Kraftmikill stuðningur
Kær samstarfsmaður minn í menntamálum í borginni, Ásgeir Beinteinsson, kom, sá og sigraði á opnun kosninga- og menningarmiðstöðvar minnar síðastliðinn laugardag. Þar flutti hann stuðningsyfirlýsingu við framboð mitt af miklum krafti. Gefum Ásgeiri orðið:
Oddný
Ágætu samherjar, baráttukonunnar Oddnýjar Sturludóttur
Ég legg orð í eyru ykkar svo þau megi renna í hjörtun til styrkingar áformum okkar að Oddný verði í öðru sæti á lista Samfylkingarinnar í vor.
Nafn hennar dugar eitt sem umsögn, frásögn um afrek og baráttusöngur. Ég segi því ODDNÝ, OOOODDDNÝ, ODDNÝÝÝ, ODD.......NÝ. Hún setur mörg mál á oddinn. Ég veit hvernig hún stóð sig í skólamálum, landnemamálum og félagsmálum. Það blésu vindar bjartsýni þegar Oddný var formaður menntaráðs Reykjavíkur því að hún talaði af skynsemi og tilfinningu. Málefni nýbúa verða málefni allra í meðförum hennar. Aldrei kom ég að tómum kofanum þegar halda átti miðvikudagsfund en hún vildi fjölbreytni, samræðu og nýja nálgun. Hún vildi ekki þessa einstefnumiðluðu fyrirlestra og gamaldags umræður í sal.
Það er ekki ónýtt fyrir þessa að því að manni finnst stundum þurru og krefjandi pólitík að vera hlý manneskja. Maður óttast að pólitíkin geri hlýjar, góðar og gegnar manneskjur að kuldaverum. Stundum finnst manni að á milli mannheima og stjórnmálaheima sé ein Helvítisgjá sem umbreytir þeim sem komast yfir. Ég hef ekki séð það líkamnast í Oddnýju. Hún er Ronjan sem sættir þessa heima og brúar Helvítisgjána fyrir okkur hin til að komast yfir svo að heimurinn verði betri. Með henni þá mun jafn-réttlætið sigra.
Hún er hlýleg og óspör á vangaveltur með kossi þegar hún heilsar fólki. Feimnir eldri karlar eiga stundum erfitt með þetta, verandi fastir í hjólfari tímans sem heldur þeim fornum og fjarlægum. Slíkir karlar sem þó vilja sýna tilfinningalega heilsun þeir óttast höfuðáverka, af því að þeir vita aldei hvoru megin vangaveltan á að byrja. Þeir eru öruggari í vangaveltum með orðum. Þannig rífur hún alla með persónutöfrum sínum inn í nýja tíma. Hvílíkir tíma og hvílíkir nauðsynjatímar fyrir oddnýtt fólk.
Vegna reynslu minnar og kunningskapar og náinna kynna af Oddnýju Sturludóttur þá treysti ég henni til allra þeirra verka sem hún treystir sér til að takast á við. Það er mér því sönn ánægja að lýsa því yfir að ég er trúr og sannur stuðningsmaður.
ODDNÝ ---------- ODD.......NÝ
Með baráttukveðju,
Ásgeir Beinteinsson
20 janúar 2010
Líf og fjör í prófkjöri
Líf frambjóðandans er fjölbreytt og skemmtilegt. Undanfarna daga hef ég hitt fjöldann allan af skemmtilegu fólki, rætt við það um allt á milli himins og jarðar, hringt og heimsótt og notið samvista með frábærum stuðningsmönnum. Á næstu dögum ætla nokkrir gestir að stinga niður penna hér á blogginu mínu í tilefni af prófkjörinu, auk þess sem ég ætla að rifja upp nokkur mál frá kjörtímabilinu sem er senn á enda, því fyrsta hjá mér, einstaklega lærdómsríku og spennandi.
12 janúar 2010
Heilahristingur
Í morgun opnaði ég heimasíðu í Borgarbókasafninu í Gerðubergi. Heimasíðan er afrakstur samstarfsverkefnis Reykjavíkurdeildar Rauða Krossins og Borgarbókasafns sem snýr að heimanámsaðstoð fyrir börn og ungmenni, ekki síst af erlendum uppruna. Það er Kristín R. Vilhjálmsdóttir verkefnisstjóri hins Fljúgandi Teppis í Borgarbókasafninu sem á veg og vanda af verkefninu sem hefur gefist mjög vel. Heimasíðan heitir heilahristingur og hér er tengill á hana.
Samstarf stofnanna úti í hverfum borgarinnar sannar sig alltaf. Því er sorglegt að sjá hvað sitjandi meirihluti hefur fært starfsemi borgarinnar meira í átt til miðstýringar. Þjónusta sem miðast út frá þörfum hvers hverfis fyrir sig er alltaf betri en sú sem stýrt er miðlægt.
Atvinnumálahópurinn sem ég leiði leiddi seint á síðasta ári saman fjölmargar stofnanir í Breiðholti. Markmiðið var að hugsa upp verkefni og leiðir til að mæta atvinnulausum ungmennum í Breiðholti. Frómt frá sagt hefur hugmyndin vaxið afar hratt og er það ekki síst því að þakka að það er algjörlega hugsað út frá þörfum hverfisins, á vettvangi íbúanna.
Vonandi sjáum við það fara af stað hið fyrsta.
08 janúar 2010
Fyrir Reykjavík
Ég gef kost á mér í 2. sætið á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Síðastliðin fjögur ár hef ég helgað mig mennta-, frístunda-, menningar- og atvinnumálum. Ég leiði m.a. starf atvinnumálahóps borgarstjórnar þar sem fjöldi verkefna er kominn af stað til að sporna gegn neikvæðum afleiðingum atvinnuleysis fyrir íbúa Reykjavíkur.
Hlutverk Reykjavíkurborgar við mótun lýðræðislegs og manneskjulegs samfélags á Íslandi er stórt. Samfélagsleg ábyrgð borgarinnar í atvinnumálum, forystuhlutverk á sviðum menningar og ferðamennsku og framúrskarandi mennta- og frístundastofnanir varða veginn til framtíðar. Ekkert barn né ungmenni má líða fyrir vanhæfi frjálshyggjustjórna síðustu áratuga. Jöfn tækifæri allra barna, óháð uppruna og efnahag, eiga að vera aðall Reykjavíkur og velferð allra borgarbúa á að leiða forgangsröðun við meðferð fjármuna.
Áfram verður að byggja upp þjónustu við Reykvíkinga í öllum hverfum borgarinnar og vinna gegn þeirri miðstýringu sem einkennt hefur sitjandi valdhafa. Markmið Samfylkingarinnar er kosningasigur og leiðtogahlutverk við stjórn borgarinnar á næstu árum. Forysta okkar mun tryggja ábyrga meðferð fjármuna, skilning á þörfum fjölskyldna og metnað í þjónustu við borgarbúa.
Ég þakka öllum þeim fjölmörgu sem hafa síðustu vikur og mánuði hvatt mig til áframhaldandi starfa fyrir Reykvíkinga.
Allt í himnalagi
Undanfarið hefur Morgunblaðið birt vandaðar greiningar um hagræðingu á öllum skólastigum. Það er engum ljúft að skera niður til skólamála. Það er grátlegt að í upphafi efnahagsþrenginganna hafi meirihlutinn í Reykjavík ekki séð tækifæri í því að kalla alla að borðinu og ná samhljóm og sátt um breytingar. Breytingar sem geta bætt skólana okkar; fyrir börnin og nám þeirra, sem og fyrir starfsfólkið. Sumar breytinganna gætu leitt til meira samstarfs og innihaldsríkari skóladags fyrir börnin okkar. En það getur líka verið notalegt að neita að horfast í augu við staðreyndir. Það getur verið freistandi að vísa óráðstöfuðum niðurskurði í fangið á skólastjórum og segja: ,,Þá er komið að ykkur að bretta upp ermar og hagræða“. Það heitir að vísa frá sér pólitískri ábyrgð. Það getur verið lokkandi að halda því blákalt fram að þrátt fyrir niðurskurð á leikskólasviði muni það engin áhrif hafa á leikskólastarfið, eins og formaður leikskólaráðs hélt fram í fréttatíma.
Í viðtali í Morgunblaðinu síðastliðinn föstudag gerir borgarstjóri lítið úr niðurskurði til skólamála, segir óþarft að hafa áhyggjur, börn og foreldrar munu varla finna fyrir niðurskurðinum. Ég spyr einfaldlega: hvernig geta borgarstjóri og formaður leikskólaráðs haldið slíku fram? Hefur helmingur borgarstjórnar verið staddur í öðrum heimi síðastliðna 18 mánuði? Frá hruni bankanna hafa leikskólar borgarinnar gert tvær fjárhagsáætlanir sem mæla fyrir um niðurskurð upp á 7-800 milljónir króna í sínum rekstri. Uppsöfnuð hagræðing á grunnskólana frá sama tíma er gríðarleg og þær tvær fjárhagsáætlanir sem samþykktar hafa verið fyrir menntasvið gera ráð fyrir niðurskurði upp á 2,5 milljarð með verðbólguáhrifum. Niðurskurður til tónlistarskóla er enn meiri í prósentum talið og má hafa verulegar áhyggjur af neikvæðum afleiðingum þess á þeirra góðu starfsemi. Bannað að tala um kreppuVerðbólguáhrifin horfist borgarstjóri reyndar ekki í augu við - enda er verðbólga neikvætt fyrirbæri. Svið borgarinnar takast því á við dulda hagræðingarkröfu upp á fleiri hundruðir milljóna, en um það er ekki talað.
Það er heldur ekki talað um ástæður þess að Reykjavík þarf að ráðast í svo róttækar hagræðingaraðgerðir. Aldrei er talað um það að borgarstjóri var innsti koppur í búri þeirra sem véluðu um einkavæðingu bankanna, jafn óskynsamlega og raun ber vitni. Ekki sleppur út orð um nauðsyn endurskoðunar á hugmyndafræði eða uppgjörs við fortíðina. Ekki einu sinni imprað á því að reikningurinn sem sendur er til allra borgarstofnanna er á kostnað þess flokks sem stjórnar í Reykjavík. Upp með sparibrosið, allt í himnalagi hér. Gleggst kom í ljós hin kúgandi þöggun þegar borgarfulltrúar meirihlutans skipuðu embættismönnum leikskólasviðs að skipa leikskólastjórum að rífa niður plaköt sem foreldrar leikskólabarna höfðu hengt upp í fataklefum barna með upplýsingum um boðaða hagræðingu. Og leikskólastjórum var einnig bannað að ræða niðurskurð í skólunum. Enda er það óttalega neikvætt tal.
Þegar fjárhagsáætlun Menntasviðs var lögð fyrir menntaráð benti greinarhöfundur á þá augljósu staðreynd að í henni var gert ráð fyrir styttingu skóladagsins sem þýðir einfaldlega: minni kennsla og uppsagnir starfsfólks. Niðurskurðarkrafan var lækkuð í kjölfarið en hún hvarf ekki. Hún er ennþá há og þögnin sem umlykur afleiðingar hennar er hávær. Það hefur ekki jákvæð áhrif á skólastarf í Reykjavíkurborg að borgarstjórinn tali í óraunsæjum frösum sem standast enga skoðun. Það eru óskýr skilaboð út í skólasamfélagið, til foreldra og starfsfólks. Reykvíkingar þurfa ekki á því að halda.
Engin áhrif?
Það þarf kjark til að takast á við miklar breytingar á öllu rekstrarumhverfi borgarstofnanna og viðurkenna að framlínuþjónustan muni finna fyrir þeim breytingum. Verkefni stjórnvalda á niðurskurðartímum er að skilja og skynja hættumerkin, aðlaga þjónustuna og vera vakandi fyrir áhrifum hagræðingar. Borgarfulltrúar verða að þekkja þjónustu borgarinnar og skilja veruleikann og hið daglega líf. Mikilvægast er að koma auga á hætturnar sem geta skapast þegar börn falla útbyrðis og gæði skólastarfs rýrna – og grípa til aðgerða.
En líklegast er borgarstjóri ekki með slíka aðgerðaráætlun. Enda er allt í himnalagi hjá borgarstjóra. Engin kreppa, hvað þá verðbólga og nokkurra milljarða króna niðurskurður til skólamála hefur líklegast alls engin áhrif á skólastarf.
Greinin birtist í Morgunblaðinu á aðfangadag 2009