Kær samstarfsmaður minn í menntamálum í borginni, Ásgeir Beinteinsson, kom, sá og sigraði á opnun kosninga- og menningarmiðstöðvar minnar síðastliðinn laugardag. Þar flutti hann stuðningsyfirlýsingu við framboð mitt af miklum krafti. Gefum Ásgeiri orðið:
Oddný
Ágætu samherjar, baráttukonunnar Oddnýjar Sturludóttur
Ég legg orð í eyru ykkar svo þau megi renna í hjörtun til styrkingar áformum okkar að Oddný verði í öðru sæti á lista Samfylkingarinnar í vor.
Nafn hennar dugar eitt sem umsögn, frásögn um afrek og baráttusöngur. Ég segi því ODDNÝ, OOOODDDNÝ, ODDNÝÝÝ, ODD.......NÝ. Hún setur mörg mál á oddinn. Ég veit hvernig hún stóð sig í skólamálum, landnemamálum og félagsmálum. Það blésu vindar bjartsýni þegar Oddný var formaður menntaráðs Reykjavíkur því að hún talaði af skynsemi og tilfinningu. Málefni nýbúa verða málefni allra í meðförum hennar. Aldrei kom ég að tómum kofanum þegar halda átti miðvikudagsfund en hún vildi fjölbreytni, samræðu og nýja nálgun. Hún vildi ekki þessa einstefnumiðluðu fyrirlestra og gamaldags umræður í sal.
Það er ekki ónýtt fyrir þessa að því að manni finnst stundum þurru og krefjandi pólitík að vera hlý manneskja. Maður óttast að pólitíkin geri hlýjar, góðar og gegnar manneskjur að kuldaverum. Stundum finnst manni að á milli mannheima og stjórnmálaheima sé ein Helvítisgjá sem umbreytir þeim sem komast yfir. Ég hef ekki séð það líkamnast í Oddnýju. Hún er Ronjan sem sættir þessa heima og brúar Helvítisgjána fyrir okkur hin til að komast yfir svo að heimurinn verði betri. Með henni þá mun jafn-réttlætið sigra.
Hún er hlýleg og óspör á vangaveltur með kossi þegar hún heilsar fólki. Feimnir eldri karlar eiga stundum erfitt með þetta, verandi fastir í hjólfari tímans sem heldur þeim fornum og fjarlægum. Slíkir karlar sem þó vilja sýna tilfinningalega heilsun þeir óttast höfuðáverka, af því að þeir vita aldei hvoru megin vangaveltan á að byrja. Þeir eru öruggari í vangaveltum með orðum. Þannig rífur hún alla með persónutöfrum sínum inn í nýja tíma. Hvílíkir tíma og hvílíkir nauðsynjatímar fyrir oddnýtt fólk.
Vegna reynslu minnar og kunningskapar og náinna kynna af Oddnýju Sturludóttur þá treysti ég henni til allra þeirra verka sem hún treystir sér til að takast á við. Það er mér því sönn ánægja að lýsa því yfir að ég er trúr og sannur stuðningsmaður.
ODDNÝ ---------- ODD.......NÝ
Með baráttukveðju,
Ásgeir Beinteinsson
Engin ummæli:
Skrifa ummæli