08 janúar 2010

Allt í himnalagi

Undanfarið hefur Morgunblaðið birt vandaðar greiningar um hagræðingu á öllum skólastigum. Það er engum ljúft að skera niður til skólamála. Það er grátlegt að í upphafi efnahagsþrenginganna hafi meirihlutinn í Reykjavík ekki séð tækifæri í því að kalla alla að borðinu og ná samhljóm og sátt um breytingar. Breytingar sem geta bætt skólana okkar; fyrir börnin og nám þeirra, sem og fyrir starfsfólkið. Sumar breytinganna gætu leitt til meira samstarfs og innihaldsríkari skóladags fyrir börnin okkar. En það getur líka verið notalegt að neita að horfast í augu við staðreyndir. Það getur verið freistandi að vísa óráðstöfuðum niðurskurði í fangið á skólastjórum og segja: ,,Þá er komið að ykkur að bretta upp ermar og hagræða“. Það heitir að vísa frá sér pólitískri ábyrgð. Það getur verið lokkandi að halda því blákalt fram að þrátt fyrir niðurskurð á leikskólasviði muni það engin áhrif hafa á leikskólastarfið, eins og formaður leikskólaráðs hélt fram í fréttatíma.

Í viðtali í Morgunblaðinu síðastliðinn föstudag gerir borgarstjóri lítið úr niðurskurði til skólamála, segir óþarft að hafa áhyggjur, börn og foreldrar munu varla finna fyrir niðurskurðinum. Ég spyr einfaldlega: hvernig geta borgarstjóri og formaður leikskólaráðs haldið slíku fram? Hefur helmingur borgarstjórnar verið staddur í öðrum heimi síðastliðna 18 mánuði? Frá hruni bankanna hafa leikskólar borgarinnar gert tvær fjárhagsáætlanir sem mæla fyrir um niðurskurð upp á 7-800 milljónir króna í sínum rekstri. Uppsöfnuð hagræðing á grunnskólana frá sama tíma er gríðarleg og þær tvær fjárhagsáætlanir sem samþykktar hafa verið fyrir menntasvið gera ráð fyrir niðurskurði upp á 2,5 milljarð með verðbólguáhrifum. Niðurskurður til tónlistarskóla er enn meiri í prósentum talið og má hafa verulegar áhyggjur af neikvæðum afleiðingum þess á þeirra góðu starfsemi. Bannað að tala um kreppuVerðbólguáhrifin horfist borgarstjóri reyndar ekki í augu við - enda er verðbólga neikvætt fyrirbæri. Svið borgarinnar takast því á við dulda hagræðingarkröfu upp á fleiri hundruðir milljóna, en um það er ekki talað.

Það er heldur ekki talað um ástæður þess að Reykjavík þarf að ráðast í svo róttækar hagræðingaraðgerðir. Aldrei er talað um það að borgarstjóri var innsti koppur í búri þeirra sem véluðu um einkavæðingu bankanna, jafn óskynsamlega og raun ber vitni. Ekki sleppur út orð um nauðsyn endurskoðunar á hugmyndafræði eða uppgjörs við fortíðina. Ekki einu sinni imprað á því að reikningurinn sem sendur er til allra borgarstofnanna er á kostnað þess flokks sem stjórnar í Reykjavík. Upp með sparibrosið, allt í himnalagi hér. Gleggst kom í ljós hin kúgandi þöggun þegar borgarfulltrúar meirihlutans skipuðu embættismönnum leikskólasviðs að skipa leikskólastjórum að rífa niður plaköt sem foreldrar leikskólabarna höfðu hengt upp í fataklefum barna með upplýsingum um boðaða hagræðingu. Og leikskólastjórum var einnig bannað að ræða niðurskurð í skólunum. Enda er það óttalega neikvætt tal.

Þegar fjárhagsáætlun Menntasviðs var lögð fyrir menntaráð benti greinarhöfundur á þá augljósu staðreynd að í henni var gert ráð fyrir styttingu skóladagsins sem þýðir einfaldlega: minni kennsla og uppsagnir starfsfólks. Niðurskurðarkrafan var lækkuð í kjölfarið en hún hvarf ekki. Hún er ennþá há og þögnin sem umlykur afleiðingar hennar er hávær. Það hefur ekki jákvæð áhrif á skólastarf í Reykjavíkurborg að borgarstjórinn tali í óraunsæjum frösum sem standast enga skoðun. Það eru óskýr skilaboð út í skólasamfélagið, til foreldra og starfsfólks. Reykvíkingar þurfa ekki á því að halda.

Engin áhrif?

Það þarf kjark til að takast á við miklar breytingar á öllu rekstrarumhverfi borgarstofnanna og viðurkenna að framlínuþjónustan muni finna fyrir þeim breytingum. Verkefni stjórnvalda á niðurskurðartímum er að skilja og skynja hættumerkin, aðlaga þjónustuna og vera vakandi fyrir áhrifum hagræðingar. Borgarfulltrúar verða að þekkja þjónustu borgarinnar og skilja veruleikann og hið daglega líf. Mikilvægast er að koma auga á hætturnar sem geta skapast þegar börn falla útbyrðis og gæði skólastarfs rýrna – og grípa til aðgerða.

En líklegast er borgarstjóri ekki með slíka aðgerðaráætlun. Enda er allt í himnalagi hjá borgarstjóra. Engin kreppa, hvað þá verðbólga og nokkurra milljarða króna niðurskurður til skólamála hefur líklegast alls engin áhrif á skólastarf.

Greinin birtist í Morgunblaðinu á aðfangadag 2009

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Alveg óþolandi hvað hún harðsnúna Hanna er orðin eitthvað jákvæð
....finnst þér það ekki Oddný?