Þættinum hefur borist bréf. Frá Hauki Inga Jónassyni.
Þar sem fegurðin ríkir
Hvers eiga borgarar samfélags að vænta af stjórnmálamanni? Þeir eiga að vænta þess að stjórnmálamaðurinn gæti almannahagsmuna og leggi sig fram um að skapa skilyrði fyrir farsælt líf og réttlátt samfélag.
Til að mæta þessari kröfu ætti stjórnmálamaðurinn að líta til fjögurra átta:
(1) Hann ætti að hugsa um stjórnmál í samhengi dyggðar
(2) hann ætti að ígrunda skilning sinn á nytsemi
(3) hann ætti að skoða tilfinningu sína fyrir skyldu
(4) hann ætti að viðhalda næmi sínu gagnvart réttindum fólks.
Dyggðugur stjórnmálamaður er stjórnmálamaður sem gerir ekki málamiðlun við skýr og mannbætandi gildi og fylgir þeim þannig að hann geti á hverjum morgni og á hverju kvöldi upplitsdjarfur litið í spegilinn og sagt: „Ég er að gera rétt.“
Nytsemina ætti stjórnmálamaður að hugsa sem viðleitni sína til að láta athafnir sínar leiða til sem mestrar mögulega hamingju fyrir sem flesta.
Skylda stjórnmálamannsins ætti að endurspeglast í því að öll breytni hans á sviði stjórnmálanna gæti orðið að almennu viðmiði fyrir alla stjórnmálamenn á öllum tímum.
Næmi stjórnmálamannsins fyrir réttindum fólks ætti að grundvallast á virðingu hans fyrir samfélagssáttmálanum, það er að segja þeirri staðreynd að hann, stjórnmálamaðurinn, þiggur stöðu sína — líkt og allir aðrir — af öðrum þegnum samfélagsins. Ef allt er eðlilegt ætti þetta að kalla yfir hann ríkan vilja til að virða rétt þegnanna, sem í grundvallaratriðum er jafn.
Nú sýnir reynsla að hæfileikinn til að tileinka sér ofangreint liggur misvel fyrir hjá þeim sem gefa kost á sér til forystu á sviði stjórnmála. Þess vegna skiptir máli að velja vel. Markmið kjósenda í slíku vali ætti að taka mið af því að velja fólk til forystu sem hefur forsendur til slíkrar tileinkunnar og er með því umhugað um hið sanna, góða og fagra ríki í samfélaginu.
Ég tel að Oddný Sturludóttir hafi það til að bera!
Haukur Ingi Jónasson
Garðastræti 17, Reykjavík
25 janúar 2010
Hið sanna, góða og fagra
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli