12 janúar 2010

Heilahristingur

Í morgun opnaði ég heimasíðu í Borgarbókasafninu í Gerðubergi. Heimasíðan er afrakstur samstarfsverkefnis Reykjavíkurdeildar Rauða Krossins og Borgarbókasafns sem snýr að heimanámsaðstoð fyrir börn og ungmenni, ekki síst af erlendum uppruna. Það er Kristín R. Vilhjálmsdóttir verkefnisstjóri hins Fljúgandi Teppis í Borgarbókasafninu sem á veg og vanda af verkefninu sem hefur gefist mjög vel. Heimasíðan heitir heilahristingur og hér er tengill á hana.

Samstarf stofnanna úti í hverfum borgarinnar sannar sig alltaf. Því er sorglegt að sjá hvað sitjandi meirihluti hefur fært starfsemi borgarinnar meira í átt til miðstýringar. Þjónusta sem miðast út frá þörfum hvers hverfis fyrir sig er alltaf betri en sú sem stýrt er miðlægt.

Atvinnumálahópurinn sem ég leiði leiddi seint á síðasta ári saman fjölmargar stofnanir í Breiðholti. Markmiðið var að hugsa upp verkefni og leiðir til að mæta atvinnulausum ungmennum í Breiðholti. Frómt frá sagt hefur hugmyndin vaxið afar hratt og er það ekki síst því að þakka að það er algjörlega hugsað út frá þörfum hverfisins, á vettvangi íbúanna.

Vonandi sjáum við það fara af stað hið fyrsta.

Engin ummæli: