Ég get ekki orða bundist yfir fullyrðingum Ragnars Sæs Ragnarssonar, formanns Leikskólaráðs Reykjavíkurborgar og varaborgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins síðustu daga. Hann fullyrðir í fjölmiðlum að leikskólar muni halda áfram að taka börn inn fram á haust, þvert á samþykkt meirihlutans um að innrita ekki ný börn fyrr en að hausti. Ljóst er að niðurskurður á leikskólasviði kemur illa niður á foreldrum yngstu barnanna, sem nú eru innrituð seinna en áður. Þau dvelja þá lengur hjá dagforeldrum og í ungbarnaleikskólum sem er í öllum tilfellum dýrara en leikskólavist. Aukinn kostnaður fyrir t.d. einstæða foreldra hleypur á annað hundruð þúsunda.
Í ofanálag slátrar meirihlutinn 50 sumarstörfum á leikskólunum, því þetta breytta fyrirkomulag gerir auðvitað að verkum að ekki þarf að ráða inn sumarafleysingarstarfsfólk. Ég hef heyrt í mörgum foreldrum sem höfðu reiknað með leikskólaplássi fyrir börn sín og hugðust halda út á vinnumarkaðinn á ný. Þeir lenda nú í vandræðum með að brúa bilið, að minnsta kosti fram á haust. Þessi ráðstöfun kemur því illa niður á fjölskyldum í borginni á fleiri en einn hátt.
Að formaður leikskólaráðs skuli á sama tíma geta fullyrt að áfram verði börn tekin inn á leikskóla vekur hjá mér mikla furðu – það er einfaldlega ekki rétt. Á annað hundrað börn bíða nú eftir plássi á ungbarnaleikskólum borgarinnar, og ljóst að nú mun ekki vera hægt að nota sumarið í aðlögun þeirra eins og áður, heldur mun hún í fyrsta lagi geta hafist með haustinu. Nú eru stórir árgangar að koma inn til borgarinnar í leikskóla og til dagforeldra. Biðlistar lengjast dag frá degi og algjör viðsnúningur hjá t.d. dagforeldrum sem fyrir nokkrum mánuðum voru með fá sem engin börn í vistun hjá sér vegna betri mönnunar leikskólanna.
Leikskólaráð verður að taka púlsinn á þessu sem fyrst og ákveða hvort endurskoða þurfi þessa ákvörðun meirihlutans um seinkun innritunar nýrra barna.
27 janúar 2010
Lengri biðlistar
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Já, þetta er stórfurðuleg fullyrðing hjá Ragnari, því í samtali við leikskólastjórann á leikskóla sonar mín kom fram að þeim er ekki leyft að taka inn börn fyrr en í haust. Stór árgangur er að fara úr leikskólanum í haust og þá tekur við aðlögun 30 nýrra barna. Það er ekki hægt að aðlaga fleiri en tvö börn í einu svo það lítur út fyrir að yngri sonur minn t.d. komist að í janúar. Þá orðinn tveggja ára. Alveg hreint furðuleg stefna og ekki síður furðulegt að maðurinn skuli fullyrða að börn verði tekin inn fyrr. Ég veit þú tekur á þessu máli í 2.sætinu Oddný.
Skrifa ummæli