Eitt af þeim málum sem ég hef látið mig varða á kjörtímabilinu er löggæsla í Reykjavík og öryggi borgaranna. Meðfylgjandi grein er eftir mig og Dag B. Eggertsson um málið, en hún birtist í Morgunblaðinu 25. september 2007.
Sýnileg löggæsla ber árangur
Síðustu þrjár helgar hefur lögreglustjóraembættið á höfuðborgarsvæðinu aukið verulega
sýnilega löggæslu í miðborg Reykjavíkur á næturnar um helgar. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Lögreglusamþykktinni hefur verið fylgt eftir af meiri einurð en oft áður, umgengni hefur batnað og íbúar í mikilli nálægð við veitingastaði hafa lýst því yfir að ónæði sé minna og merkjanlega meiri virðing borin fyrir þeirra nánasta umhverfi.
Samfylkingin hefur um langt skeið talað fyrir aukinni sýnilegri löggæslu í Reykjavíkurborg og talið að hún hafi afar mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að öryggi borgaranna, öryggistilfinningu og ekki síst til að fylgja eftir góðri umgengni. Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins á hrós skilið fyrir að vera fyrsti lögreglustjórinn um langa hríð sem skilur þessa þörf þó ekki séu greinarhöfundar sammála öllum skoðunum lögreglustjórans.
Afgreiðslutíminn
Lögreglustjóri hefur talað fyrir því að þeir veitingastaðir sem hafi opið lengur en til klukkan 1 eða 2 skuli staðsettir í öðrum hverfum borgarinnar, hverfum þar sem enga íbúa er að finna. Þessi yfirlýsing lögreglustjórans er ótímabær og vekur í raun furðu í ljósi þess að aukin sýnileg löggæsla skilar greinilega miklum árangri í miðbænum um helgar. Skynsamlegra væri að halda áfram á sömu braut og láta á það
reyna hvort veitingastaðir, lögreglan og íbúar geti í sameiningu fundið lausn sem allir sætta sig við. Það er ekki erfitt að spá fyrir um hvað gerist verði skemmtistöðum í Reykjavík lokað fljótlega eftir miðnætti. Í mörg ár var hópasöfnun á Lækjartorgi vandamál, skemmtistaðagestir fundu skemmtanaþörf sinni farveg á götum úti, pústrar og skemmdarverk sköpuðu vandamál og gleðin hélt gjarnan áfram í heimahúsum, sérstaklega í miðbænum.
Úthverfaskemmtistaðir?
Það er ekkert sem bannar skemmtistaði í iðnaðarhverfum en einhverra hluta vegna eru þeir ekki margir árið 2007. Þeir yrðu afskekktir, í illa upplýstum hverfum og það er vitað mál að umgengni og virðing fyrir öðrum skánar síst við slíkar aðstæður. Skuggasundin eru óþarflega mörg og bjóða hættunni heim á margvíslegan hátt, ekki síst með öryggi kvenna í huga. Dreifing skemmtistaða dreifir einnig lögregluþjónum um borg og bý sem gerir löggæsluna síst sýnilegri og öflugri. Gullaldarskeið stóru diskótekanna, Broadway, Sigtúns og Klúbbsins, er liðið undir lok. Þegar bjórinn var leyfður árið 1989 spruttu upp krár, barir, pöbbar og kaffihús sem áður voru ekki til, Reykjavík fór að líkjast öðrum borgum sem Íslendingar heimsóttu og nutu þess að þræða þar kaffihús og bari. Oft er sagt að bjórinn hafi einfaldlega drepið stóra næturklúbbinn en gleymum því ekki að slagsmálin á böllunum í gamla daga voru svo algeng að þau þóttu hluti af dagskránni. Umburðarlyndi fólks í dag er minna, í dag er tekið hart á ofbeldismálum og í dag er einnig tekið hart á smávægilegum brotum á lögreglusamþykkt sem tengjast virðingu fyrir umhverfinu. Gott mál og við hvetjum lögregluna til að halda áfram á sömu braut.
Sambýli íbúa og skemmtistaða
Í sumar hefur skiljanlega reynt á þolrif íbúa sem búa næst skemmtistöðum vegna óvenju blíðrar veðráttu og reykingabanns sem saman skópu karnívalstemningu á götum úti. Eins hefur bruninn í Austurstræti 22 fært miðpunkt skemmtanalífsins upp Bankastrætið og þar með nær þéttri íbúabyggð. Það er mjög eðlilegt að skoða vel hvað borgaryfirvöld geta gert til að koma til móts við íbúa í miðbænum og skapa sátt. Rétt eins og íbúar á Miklubraut finna sannarlega fyrir umferðarþunga, finna íbúar í miðbænum sannarlega
fyrir návíginu við veitingastaði, skemmtistaði, ferðamenn og hótel í þessu fjölsóttasta hverfi borgarinnar.
Miðbærinn hefur kosti og galla en miðbærinn er sameign allra borgarbúa og landsmanna, öll umræða um miðbæinn verður að taka mið af því.
Kraftmil, skemmtileg og örugg borg
Allir hafa skoðun á því hvort við Ísiklendingar högum okkur vel eða illa undir áhrifum áfengis en samkvæmt könnunum er drykkjumynstur ungs fólks á Íslandi í takti við það sem gerist erlendis. En rót áfengisvanda er ekki að finna í afgreiðslutíma skemmtistaða, staðsetningu skemmtistaða eða hitastigi dósabjórs. Þær rætur eru samfélagslegar og þær glímum við við með markvissum forvörnum, opinskárri umræðu og
velferðarþjónustu. Meginþorri gesta á skemmtistöðum Reykjavíkurborgar um nætur hegða sér vel, skemmta sér vel og finna ekki til óöryggis. Unga fólkið á tíunda áratugnum hætti ekki að skemmta sér þó skemmtistaðir væru lokaðir klukkan þrjú, skemmtanalífið færðist út á götu og í heimahús. Afgreiðslutími er visst stýritæki og hingað til
hefur honum verið stýrt með það í huga að halda aftur af hópamyndun sem eykur öryggi, fækkar alvarlegum ofbeldisbrotum og greiðir fyrir umferð. Höldum áfram að auka við sýnilega löggæslu sem festir Reykjavík í sessi sem kraftmikla, skemmtilega og örugga borg.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli