04 febrúar 2010

Mikilvægt fyrsta skref

Á fundi borgarráðs í dag talaði ég fyrir tillögum Atvinnumálahóps um skiptingu fjármagns til atvinnumála í Reykjavík á árinu 2010. Á fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 150 milljónum til atvinnumála og samkvæmt tillögu Atvinnumálahóps - og á grundvelli úttektar og skýrslu sem Atvinnumálahópurinn vann og kynnti í borgarstjórn í desember - var ákveðið að 80 milljónir færu til sérstakra átaksverkefna af ýmsu tagi. Þau verkefni eru þó bundin af reglugerð Vinnumálastofnunar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins.

Auk þess gerum við tillögu um að 30 milljónir fari til atvinnusköpunar og verkefna í þágu ungs fólks, 20 milljónir fari til virkniverkefna fólks á fjárhagsaðstoð, 10 milljónir í þágu atvinnumála fólks með fötlun og 7 milljónum verði varið til að greiða laun námsmanna sem vinna að verkefnum styrktum af Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Úthlutunarnefndir taka til starfa strax í næstu viku og svið borgarinnar, sem og utanaðkomandi aðilar þar sem það á við, geta sótt um fjármagn til atvinnuskapandi verka. Vissulega er þetta fjármagn lítið miðað við hátt hlutfall atvinnulausra í Reykjavík. Því segi ég að þetta sé mikilvægt fyrsta skref og enn mikilvægara er að meta áhrif aðgerðanna og vega og meta næstu skref borgarinnar.

Samfélagslegt hlutverk hennar er mikið í atvinnuleysi sem þessu.

Engin ummæli: