Í menntaráði í dag kynntu fulltrúar Mennta- og menningarmálaráðuneytis nýtt fyrirkomulag innritunar nýnema í framhaldsskóla. Þær eru í anda nýrra laga um öll skólastig og gert er ráð fyrir mun meiri samvinnu milli grunn- og framhaldsskólastigsins en við eigum að venjast. Skemmst er að minnast mikils uppþots sem átti sér stað síðastliðið haust þegar fjöldi nýnema komst ekki að í þeim framhaldsskólum sem þeir höfðu þó kosið. Margir urðu til þess að beintengja það ástand við þá staðreynd að samræmd próf við lok 10. bekkjar voru aflögð sama ár. Það var, og er alrangt.
Staðreyndin er sú að fleiri hundruðir nemenda á framhaldsskólaaldri settust aftur á skólabekk eftir að hafa horfið frá námi vegna góðrar stöðu á vinnumarkaði. Plássin í Reykjavík voru einfaldlega ekki nægilega mörg. Til að einfalda hlutina: Það vantar eitt stykki framhaldsskóla í Reykjavík, helst í austurborginni. Sveitarfélögin í kringum okkur eru alls ekki sjálfbær um sína framhaldsskóla og því er allt innritunarsvæði stór-höfuðborgarsvæðisins (Akranes meðtalið) of mannmargt - miðað við fjölda skólastóla.
Nýjar innritunarreglur hverfa að hálfu leyti aftur til gamla kerfisins, þ.e.a.s. hverfaforgangs. Nú eiga 45% af nýnemum hvers skóla að tilheyra skólahverfi skólans. Það er jákvætt skref að mínu mati, grænt skref í öllu falli og tryggir betur margbreytileika innan framhaldsskólans. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að mér finnst afleitt að einkunnir úr grunnskóla eigi einar að stjórna því hverjir veljast inn í hvaða skóla. Þannig einsleitni viljum við ekki í íslensku samfélagi.
Ekki eru allir á sama máli og ég í þeim efnum. Formaður menntaráðs og raunar allur meirihluti menntaráðs er afar ginkeyptur fyrir samræmdum prófum upp á gamla mátann og gerðist í ofanálag sekur um ævintýralega vanvirðingu við grunnskólann og þá öru þróun sem hefur átt sér stað síðastliðin ár í fjölbreyttu námsmati. Um það má lesa hér.
Það sem er ánægjulegast við þessa þróun alla er þó samstarfið milli grunnskólans og framhaldsskólans og sú áhersla sem lögð er á að framhaldsskólar með einsleitt námsframboð (les: of sterkar bóknámsáherslur) auki á fjölbreytni. Mennta- og menningarmálaráðherrann okkar hefur skrifað greindarlega grein um málið sem má lesa hér.
Stærsta áskorun íslensks menntakerfis er brotthvarf nemenda úr framhaldsskólum. Á því verðum við að sigrast. En hvað segir það okkur að 96% nemenda á 16. aldursári hefja nám við framhaldsskóla en einungis rúmlega 60% þeirra ljúka námi? Það segir okkur að framhaldsskólinn er ekki fyrir alla nemendur, hann mætir ekki nægilega vel ólíkum þörfum nemenda. Þó er hann grunneining í okkar samfélagi, hér er fræðsluskylda upp að 18 ára aldri og samfélagsleg ábyrgð framhaldsskólans á því að útskrifa alla nemendur með einhvers konar fullnaðarpróf á ólíkum námsbrautum er algjör.
Að mínu mati færi best á því að samræmd próf yrðu þreytt við lok 9. bekkjar. Þannig fengju kennarar 10. bekkinga glögga yfirsýn yfir stöðu nemandans, hvaða framhaldsnám hentar honum, hvaða námsleið hentar honum og hvers konar strúktúr hentar honum (bekkja- eða áfangakerfi). Gefa þarf mun ríkari gaum að þætti námsráðgjafar í þessu tilliti - hinar háu brotthvarfstölur segja okkur það að nemendur hafa ekki í öllum tilfellum valið sér skóla og námsleið við hæfi.
En ég vil nýjan framhaldsskóla - í austurborgina. 19% allra atvinnulausra á landinu í janúar voru á aldrinum 16-24 ára. Í slíku árferði þarf að vera hægt að bjóða öllum upp á örugga vist í framhaldsskóla - og nám við hæfi hvers og eins.
Nýr framhaldsskóli þarf ekki endilega að þýða ný skólabygging. Nýtum það sem til er, margir grunnskólanna okkar eru rúmgóðir og hægt að gera tilraunir með t.d. samrekstur - og því ekki að gera tilraun með skóla fyrir 13-18 ára?
Á kynningu síðastliðinn föstudag á stöðu ungs fólks (16-20) sem er utan framhaldsskólakerfisins var þeirri þráleitu spurningu varpað fram hvort nú væri tækifæri til að hugsa skólastigin öll í einni heild; og færa framhaldsskólann til grenndarsamfélagsins. Menntun barna og ungmenna er grunnþjónusta og mun í framtíðinni eiga heima á sama stjórnsýslustiginu - hjá sveitarfélögunum.
10 febrúar 2010
Innritun í framhaldsskóla
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Sæl Oddný,
Mér fannst leitt að sjá þig gera mér upp skoðanir. Ég vil taka það skýrt fram að ég er ekki ginkeypt fyrir samræmdum prófum upp á gamla mátann eins og þú fullyrðir hér í blogginu.
kv. Anna Magga
Skrifa ummæli